Gestur Hjaltason hjá Elko segir að gjöld sem lögð eru á verslunarmenn verði að eiga sér lagastoð.
Gestur Hjaltason hjá Elko segir að gjöld sem lögð eru á verslunarmenn verði að eiga sér lagastoð. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Elko fær tæpar 19 milljónir króna endurgreiddar frá ríkinu samkvæmt dómi sem fallinn er í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Íslenska ríkið gæti þurft að endurgreiða hundruð milljóna króna í oftekin eftirlitsgjöld eftir að dómur féll raftækjaversluninni Elko í vil í byrjun vikunnar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Samkvæmt dóminum þarf ríkið að endurgreiða Elko tæpar 18,8 milljónir króna ásamt vöxtum, auk 900 þús.kr. í málskostnað. Horft er fjögur ár aftur í tímann þar sem fyrningarfrestur er fjögur ár.

Samkvæmt ríkisreikningi skilaði gjald af eftirlitsskyldum raftækjum á síðasta ári 82,5 milljónum króna í ríkissjóð, auk virðisaukaskatts. Því má ætla að á fjórum árum hafi oftekin gjöld numið um 350 milljónum króna auk vaxta og dráttarvaxta. Frumkvæðisskylda myndast hjá ríkinu, sem þýðir að það þarf að greiða alla þá fjárhæð til baka ef dómurinn stendur.

„Það sem vakir fyrir okkur í þessum málarekstri er að þessi gjöld sem lögð eru á okkur verslunarmenn séu með lagastoð, og að við sitjum við sama borð og aðrir sem stunda innflutning, t.d. þeir sem flytja inn raftæki í gegnum erlendar vefsíður. Rétt skal vera rétt,“ segir Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri Elko, um dóminn.

Gjaldið sem um ræðir er 0,15% af af tollverði hlutaðeigandi vöru. Niðurstaða dómsins er sú að gjaldtakan hafi ekki stuðst við gilda lagaheimild og því beri ríkinu að endurgreiða þau gjöld sem um ræðir. Segir í niðurstöðu dómsins að umrædd gjöld teljist til skatta, og í 40. gr. stjórnarskrárinnar segi að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um skattlagningu.

Gestur segir að ákveðið hafi verið að fara í málarekstur eftir að Elko fékk ábendingu um að lagastoð skorti fyrir gjaldinu. „Það hefur verið myndarlega gert af núverandi ríkisstjórn og þeirri síðustu að fella niður vörugjöld, sem hjálpar okkur að halda niðri verði raftækja. Þetta er einn liður í því að ná sem flestum gjöldum í burtu svo við getum haldið áfram að selja ódýr raftæki.“