Ritstjórar Kristín Aðalsteinsdóttir og Jón Hjartarson ritstýra bókinni þar sem 28 manns segja frá ævi og störfum í „litlum ævisögum“.
Ritstjórar Kristín Aðalsteinsdóttir og Jón Hjartarson ritstýra bókinni þar sem 28 manns segja frá ævi og störfum í „litlum ævisögum“. — Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ritstjórar eru Jón Hjartarson og Kristín Aðalsteinsdóttir. Skrudda, 2020. Innbundin, 362 bls.

Góðar minningar og vitnisburður um líf í góðu jafnvægi er rauði þráðurinn í bókinni Raddir – Annir og efri ár sem nýlega er komin út. Þar segja 28 manns, gjarnan þekkt fólk og mikilsvirtir borgarar, frá ævi sinni og störfum og hvernig tilveran kemur þeim fyrir sjónir á efri árum. Kaflarnir eru gjarnan skrifaðir af fólkinu sjálfu, en þau sem leggja orð í belg eru á aldrinum 69-103 ára. Hafa öll lifað tímana tvenna, eiga ólíka reynslu að baki og sjá veröldina hvert með sínum augum. Að því leyti er bókin merkilegur vitnisburður um samfélagsþróun á 20. öld.

„Ef tala mætti um einhverja niðurstöðu af þessum 28 köflum er hún kannski þessi; að eiga góða elli er hluti af því að lifa góðu lífi,“ segir Ólafur Páll Jónsson heimspekingur í formála bókarinnar. Þar fjallar hann vítt og breitt um um þann tíma í lífi fólks sem er oft kallaður þriðja æviskeiðið. Tímabil þar sem fólk er ofast laust undan oki brauðstrits eða annarra skyldustarfa og hefur frjálsar hendur.

Lýsa má köflunum í Röddum sem litlum ævisögum þar sem fólk fer yfir megindrættina á lífsins leið. Segir undan og ofan frá störfum sínum og viðfangsefnum, eftirminnilegu samferðafólki og fleiru slíku. Þá segja margir höfundar líka frá tómstundastörfum sínum og félagsmálum á efri árum, kórsöng, sundlaugaferðum, bóklestri og brasi í húsfélagsstjórn. Og ekki má gleyma sjúkrahússögunum, sem margir hafa svo undursamlega gaman af því að segja og alltaf er nokkur áhugi fyrir.

Allt er þetta gott og blessað. Hins vegar skortir nokkuð á skýrt inntak eða boðskap í hverjum kafla. Að frásagnirnar verði með skýru móti leiðarvísir um hvernig gera má efri árin að innihaldsríku æviskeiði. Ræðst þetta sjálfsagt að nokkru af því að hver og einn sögumaður skrifar yfirleitt kaflann sinn – og fyrir vikið vantar fókus. Og svona almennt talað; það er alltaf gaman að rabba við og fræðast um fólk og líf þess og störf. Í Röddum eru fínar frásagnir en í heildina er bókin fremur bragðlítil.

Sigurður Bogi Sævarsson