[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Á tímabilinu 2018 til 2020 minnkaði bein erlend fjárfesting á Íslandi um 180 milljarða. Viðskiptaráð leggur í dag fram tillögur til að snúa þeirri þróun við.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is
Á tímabilinu 2018 til 2020 minnkaði bein erlend fjárfesting á Íslandi um 180 milljarða. Viðskiptaráð leggur í dag fram tillögur til að snúa þeirri þróun við.
„Til þess að auka erlenda fjárfestingu á Íslandi þarf að auka tiltrú og traust á fjárfestingarkostinum Íslandi.“ Þetta segir Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, en ráðið hefur nú tekið saman tillögur í sjö liðum sem ætlað er að ýta undir erlenda fjárfestingu hér á landi. Bendir það á að það sé ekki aðeins nauðsynlegt til þess að halda uppi lífsgæðum hér á landi heldur einnig til þess að tryggja getu lífeyrissjóða til þess að auka fjárfestingar utan landsteinanna. Án erlendrar fjárfestingar til mótvægis við útflæði fjármagns sjóðanna skapist þrýstingur til lækkunar gengis krónunnar sem aftur leiði til verðbólgu og óstöðugleika. „Við teljum að mögulegt sé að draga úr óbeinum hindrunum sem standa í vegi fyrir erlendri fjárfestingu hér á landi. Við sjáum það t.d. á gögnum OECD að óvíða eru meiri hömlur á beina erlenda fjárfestingu meðal aðildarríkja samtakanna. Að hluta til eru hömlurnar hér komnar til vegna hindrana í ákveðnum atvinnugreinum, t.d. í sjávarútvegi, flugrekstri og þegar kemur að virkjanaréttindum. Þetta er þó aðeins lítill hluti sögunnar því Ísland mælist fyrir ofan meðaltal OECD í öllum atvinnugreinum hvað viðkemur hömlum almennt. Stjórnvöld þurfa að íhuga af alvöru hvernig megi draga úr þessum hindrunum með skipulegum hætti.“

Segir Konráð að það verði til dæmis gert með því að afnema tilkynningaskyldu nýfjárfestingar og ákvæði þess efnis að Seðlabanki Íslands þurfi að staðfesta beina erlenda fjárfestingu. Auðvelda þurfi að stofna til rekstrar og samskipti við stjórnsýslu með stafrænum lausnum og draga þurfi úr landsáhættu með því að auka stuðning við áform um að auka erlenda fjárfestingu.

„Það þarf einnig að einfalda regluverkið. Auka fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja með því. Þá þarf líka að stöðva þá tilhneigingu að innleiða EES-regluverkið með meira íþyngjandi hætti en nauðsynlegt er.“ Viðskiptaráð bendir einnig á að fjölga þurfi tvísköttunarsamningum við önnur ríki. Ísland hefur gert 45 slíka samninga en að meðaltali eru 77 slíkir samningar í gildi innan OECD. Í Bretlandi eru þeir hins vegar 130 og í Frakklandi 122. Í Noregi eru þeir 87 og Danmörku 75.

„En það er fleira sem þarf að koma til. Skattkerfið þarf að hvetja til fjárfestinga almennt sem næst t.d. með því að gefa fyrirtækjum svigrúm til að flýta afskriftum og minnka skattbyrði. Það hefur allt áhrif á samkeppnishæfnina og vilja erlendra aðila til að fjárfesta hér á landi. Þá hefur einnig verið sýnt fram á að útgjöld til rannsókna og þróunar hafa sterk jákvæð áhrif á innflæði beinnar fjárfestingar. Sem betur fer hefur það færst í vöxt hér á landi, m.a. með hækkun þaks og endurgreiðsluhlutfalls sem fyrirtækjum stendur til boða,“ segir Konráð.

Afleiðuviðskipti með krónuna

Meðal annarra tillagna Viðskiptaráðs er að auka skilvirkni gjaldeyrismarkaðarins þannig að hægt verði að eiga afleiðuviðskipti með krónuna.

„Það hefur dregið úr trausti á íslenska hagkerfinu hve lítill og veikburða gjaldeyrismarkaðurinn er. Litlar hreyfingar á markaðnum geta haft mikil áhrif á gengi krónunnar. Afleiðuviðskipti myndu fjölga þátttakendum á markaðnum og auka skoðanaskipti, sem er til þess fallið að minnka verðbil og auka seljanleika. Það myndi draga úr viðskiptakostnaði og áhættu þeirra sem eiga milliríkjaviðskipti hér á landi.“