Hækkun á verði búvara leiðir af þeim áformum landbúnaðarráðherra að hverfa tímabundið aftur til eldra fyrirkomulags á útboði tollkvóta fyrir búvörur. Þetta er skoðun Félags atvinnurekenda, sem mótmælir þeirri ráðstöfun sem er í undirbúningi.

Hækkun á verði búvara leiðir af þeim áformum landbúnaðarráðherra að hverfa tímabundið aftur til eldra fyrirkomulags á útboði tollkvóta fyrir búvörur. Þetta er skoðun Félags atvinnurekenda, sem mótmælir þeirri ráðstöfun sem er í undirbúningi. Fyrsta útboðið á tollkvótum samkvæmt tollasamningi við ESB með nýrri aðferð, svokölluðu jafnvægisútboði, var síðastliðið vor. Samkvæmt því er gjald á hvert kíló nautakjöts í jafnvægisútboði 200 kr., en 331 kr. í útboði með fyrri aðferð. Gjald á hvert kíló af þurrkaðri og reyktri skinku með aðferðinni sem nú er aftur tekin upp er 200 kr. og fer úr 5 kr. eins og gilti um skamman tíma.

Frumvarp um tollabreytingar hefur verið lagt fram og í greinargerð er tilgangurinn sagður vörn fyrir íslenskan landbúnað, sem hafi fengið á sig högg af völdum Covid.

„Margar atvinnugreinar hafa fengið á sig högg vegna faraldursins en eingöngu í þessu tilviki grípa stjórnvöld til þess ráðs að leggja stein í götu samkeppni í stað þess að vísa fyrirtækjum á almennar aðgerðir, styrki og lán. Það er með miklum ólíkindum að ríkisstjórnin beiti sér fyrir hækkun á matarverði á sama tíma og þúsundir ganga atvinnulausar,“ segir Ólafur Þ. Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í samtali við Morgunblaðið. sbs@mbl.is