Í faraldrinum hefur Jón Guðni gripið til þess ráðs að nota Excel til að gera æfingatöflu fyrir fjölskyldumeðlimi sína.
Í faraldrinum hefur Jón Guðni gripið til þess ráðs að nota Excel til að gera æfingatöflu fyrir fjölskyldumeðlimi sína. — Morgunblaðið/Eggert
Það er til marks um áhugaverðar breytingar á fjármálamarkaði hve góðar viðtökurnar voru við grænum skuldabréfaútboðum Íslandsbanka fyrr á árinu.

Það er til marks um áhugaverðar breytingar á fjármálamarkaði hve góðar viðtökurnar voru við grænum skuldabréfaútboðum Íslandsbanka fyrr á árinu. Erlendis seldi bankinn skuldabréf fyrir 300 milljónir evra og á Íslandi keyptu innlendir fjárfestar bréf fyrir 2,7 milljarða króna. Jón Guðni segir þetta gefa bankanum tækifæri til að bjóða hagstæðari fjármögnun fyrir sjálfbær verkefni.

Hverjar eru helstu áskoranirnar

í rekstrinum þessi misserin?

Núverandi efnahagslægð hefur mikil áhrif á rekstur bankans, bæði í gegnum auknar afskriftir útlána og lægra vaxtaumhverfi. Þetta sýnir sig í lágri arðsemi banka um allan heim og er Ísland þar ekki undanskilið. Við erum þó bjartsýn á að viðspyrnan verði snörp og að atvinnulífið taki vel við sér þegar líða tekur á næsta ár.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Ráðstefna SFF í síðustu viku um glímuna við Covid-19. Þar var fjallað um áhrif veirunnar á íslenskt atvinnulíf og fjármálafyrirtæki sérstaklega.

Hvaða bók hefur haft mest

áhrif á hvernig þú starfar?

Ég held satt best að segja að vinir og samstarfsfélagar hafi haft mest áhrif. Get þó einnig nefnt Last Man Standing um Jamie Dimon, forstjóra JP Morgan. Hann er með mjög agaða sýn á rekstur banka, þar sem áhersla er lögð á sterkan efnahagsreikning og að nýta tækifæri í efnahagssamdrætti.

Hvernig heldurðu

þekkingu þinni við?

Ég les Economist og fleiri viðskiptablöð og sæki ráðstefnur. Finnst einnig gott að lesa sögubækur til að reyna að skilja betur mannlegt eðli. Þar eru sögur frá Rómaveldi í miklu uppáhaldi og einnig las ég nýlega bók Winstons Churchill um seinni heimsstyrjöldina, sem óhætt er að mæla með.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég hreyfi mig mikið og borða tiltölulega hollan mat. Við fjölskyldan erum þó æði dugleg að gera vel við okkur í mat og drykk. Ég er að reyna að bæta mig í eldhúsinu, en kemst víst ekki með tærnar þar sem konan mín hefur hælana. Við fjölskyldan höfum reynt að passa upp á hreyfinguna í faraldrinum og ég nýti vin minn Excel í að setja upp æfingatöflu fyrir hvert og eitt okkar, sem hefur reynst nokkuð vel, þó einhverjir svindli aðeins.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ég gæti hugsað mér að vinna við ýmislegt og hefði sjálfsagt gott af því að prófa eitthvað alveg nýtt. Ég gæti t.d. hugsað mér að kenna í barna- eða menntaskóla eða þá reyna hið ómögulega, að verða stórmeistari í skák.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Sagnfræði yrði sennilega fyrir valinu, enda hef ég mikinn áhuga á mannkynssögunni. Hefði reyndar mjög gott af því að læra smíðar, en er sennilega með of marga þumalputta til að geta orðið góður á því sviði.

Hvaða kosti og galla sérðu

við rekstrarumhverfið?

Rekstrarumhverfið er mjög krefjandi af augljósum ástæðum, en ég er mjög bjartsýnn á að Ísland komist hratt af stað og að erlendir ferðamenn geti ekki beðið eftir að koma hingað í heimsókn. Kosturinn við umhverfið er helst sá að fólk snýr bökum saman þegar á reynir og leitar að styrk hvað í annað.

Hvað gerirðu til að fá orku

og innblástur í starfi?

Ég fæ það bæði með samskiptum við skemmtilegt fólk og að sökkva mér djúpt í skemmtileg viðfangsefni. Ég er heppinn að það er nóg af hvoru tveggja hjá okkur í bankanum.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Augljósa svarið er skattar og álögur á bankakerfið, sem eru enn mun meiri en í löndunum í kringum okkur. Hins vegar eru sjálfbærnimál okkur í bankanum mjög hugleikin þessa dagana, þannig að ég myndi sennilega byrja á einhverju sem sneri að innleiðingu Parísarsamkomulagsins.

Hin hliðin

Nám: Stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1996; B.S. í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1999; M.S. í fjármálaverkfræði frá Georgia Tech 2003. Hef einnig nælt mér í CFA-fjármálagráðuna og lærði kínversku í eitt ár í Peking 1999-2000.

Störf: Ráðgjafi hjá SunGard í Boston 2004 en hef annars sinnt ýmsum störfum fyrir Íslandsbanka og fyrirrennara hans frá 2000 og hef starfað sem fjármálastjóri bankans frá árinu 2011.

Áhugamál: Er mikið fyrir útiveru og þar eru hlaup, fjallgöngur og fjallaskíðamennska í sérstöku uppáhaldi. Ég er einnig liðtækur í golfi og spila gjarnan með hressum hóp sem kallar sig Bollurnar og betri helmingarnir eru kallaðar Gollurnar.

Fjölskylduhagir: Er kvæntur Brynju Baldursdóttur, framkvæmdastjóra Creditinfo á Íslandi, og eigum við börnin Baldur Ómar 13 ára og Önnu Margréti 11 ára.