Sigurður Þór Óskarsson
Sigurður Þór Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsið býður landsmönnum öllum upp á jóladagskrá í formi jóladagatals í ár. Dagatalið hóf göngu sína í gær, 1. desember, þegar Einar úr leikritinu Jólaflækju leit í heimsókn og gaf góðar hugmyndir um jólaskreytingar.

Borgarleikhúsið býður landsmönnum öllum upp á jóladagskrá í formi jóladagatals í ár. Dagatalið hóf göngu sína í gær, 1. desember, þegar Einar úr leikritinu Jólaflækju leit í heimsókn og gaf góðar hugmyndir um jólaskreytingar. Í dag flytja Sigurður Þór Óskarsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir jólalag eftir Dolly Parton við íslenskan texta Sigurðar, Þórunnar og Maríönnu Clöru Lúthersdóttur. Á morgun bjóða hjónin Esther Talia Casey og Ólafur Egill Egilsson síðan gestum heim til sín þar sem þau ætla að bjóða upp á jólastemningu með ýmsu föndri.

„Undir dyggri stjórn jóladagatalsnefndar fá listamenn leikhússins að leika lausum hala og gleðja landsmenn með fjölbreyttum atriðum. Boðið verður upp á sögur, söng og tónlist, fróðleik, grín og gleði,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins. Gluggar í jóladagatali Borgarleikhússins verða birtir daglega á facebooksíðu leikhússins.

Fleiri listastofnanir og menningarhús bjóða upp á jóladagatal í ár. Menningarhúsin í Kópavogi, það er Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Héraðsskjalasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofa og Salurinn, standa sameiginlega fyrir jóladagatali sem nálgast má á vefnum menningarhusin.kopavogur.is. Samkvæmt upplýsingum frá skipuleggjendum ríkir algjör leynd yfir viðburði hvers dags, en sjón mun vera sögu ríkari.

Borgarbókasafnið býður í ár upp á tvö jóladagatöl, eitt fyrir börn og annað fyrir fullorðna. Barnajóladagatalið heitir „Nornin í eldhúsinu“ og er skrifað af Tómasi Zoëga. og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur. Jóladagatalið fyrir fullorðna kallast „Les í des“ og geymir upplestra höfunda úr nýjum jólabókum þeirra. Dagatölin ásamt fleiri aðventuviðburðum birtast næstu vikur á vefnum borgarbokasafn.is/jol.

Hönnunarsafn Íslands beinir í sínu jóladagatali sjónum að textíl. Samkvæmt upplýsingum frá safninu hefur starfsfólk safnsins síðustu vikur, meðan lokað hefur verið vegna samkomutakmarkana, einbeitt sér að því að gera dagatalið sem veglegast.