Bóluefni Tilvonandi bóluefni hefur glætt vonir um horfur næsta árs.
Bóluefni Tilvonandi bóluefni hefur glætt vonir um horfur næsta árs. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Bandaríski lyfjarisinn Pfizer og þýska líftæknifyrirtæknið BioNTech tilkynntu í gær að þau hefðu sótt um leyfi hjá Evrópusambandinu fyrir bóluefni sínu, og mun heilbrigðisstofnun sambandsins taka afstöðu til umsóknarinnar fyrir 29. desember næstkomandi. Stofnunin hyggst taka afstöðu til bóluefnis Moderna, og verður það gert fyrir 12. janúar.

Samþykki stofnunin notkun bóluefnanna þykir víst að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni heimila dreifingu þeirra svo fljótt sem auðið er.

Frönsk stjórnvöld greindu frá því í gær að þau stefndu að almennu bólusetningarátaki frá og með næsta apríl, eða eftir að búið væri að bólusetja viðkvæmustu hópana fyrir kórónuveirunni.

Bóluefnin glæða vonir

Í gær var liðið ár frá fyrsta staðfesta tilfelli Covid-19, veikinnar sem kórónuveiran veldur, en á þeim tíma hafa rúmlega 63,4 milljónir manna smitast af henni og um 1,47 milljónir manna látist af völdum hennar. Þá eru ekki meðtalin þau efnahagslegu áhrif sem veikin og sóttvarnaráðstafanir gegn henni hafa valdið.

Hin væntanlegu bóluefni hafa hins vegar glætt vonir um að heimurinn sjái senn á bak faraldrinum, og tilkynnti OECD í gær að líklegt væri að hagkerfi heimsins myndi aftur ná fyrri styrk fyrir lok næsta árs. Hagvöxtur gæti þó orðið sveiflukenndur.

Sagði Laurence Boone, aðalhagfræðingur OECD, að leiðin fram undan væri bjartari en áður, en að hún væri sömuleiðis þrungin áskorunum fyrir ríki heims.