[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Gert er ráð fyrir að rekstrarhalli á A-hluta Reykjavíkurborgar verði 11,3 milljarðar á næsta ári. Rekstrartekjurnar verði tæpir 134 milljarðar og aukist um átta milljarða frá útkomuspá í ár og gjöldin hækka um tíu milljarða milli ára og verða rúmir 137 milljarðar. Áætlað er að rekstrarniðurstaða samstæðu borgarinnar verði neikvæð um 2,7 milljarða.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Gert er ráð fyrir að rekstrarhalli á A-hluta Reykjavíkurborgar verði 11,3 milljarðar á næsta ári. Rekstrartekjurnar verði tæpir 134 milljarðar og aukist um átta milljarða frá útkomuspá í ár og gjöldin hækka um tíu milljarða milli ára og verða rúmir 137 milljarðar. Áætlað er að rekstrarniðurstaða samstæðu borgarinnar verði neikvæð um 2,7 milljarða.

Borgaryfirvöld gera ráð fyrir að ný langtímalán samstæðu borgarinnar á næsta ári verði upp á 51,8 milljarða og afborganir lána eru áætlaðar 21,8 milljarðar. Langtímaskuldir samstæðunnar verða skv. áætlun tæpir 304 milljarðar á næsta ári. Hækka um 35 milljarða milli ára.

Afleiðingar veirufaraldursins rista djúpt í fjárhagsáætlun borgarinnar 2021, sem lögð var fram í borgarstjórn í gær ásamt fimm ára áætlun og fjárfestingarstefnu til næstu tíu ára. Haft er eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í kynningu að mikilvægt sé að borgin leggist ekki í vörn við þessar aðstæður heldur snúi vörn í sókn og fari í umfangsmiklar fjárfestingar. Heildarfjárfesting samstæðu borgarinnar næstu þrjú ár nemi 175 milljörðum króna. Samdrætti og tekjufalli verði mætt með lántökum og borgin nýti styrk sinn og vaxi út úr samdrættinum á nokkrum árum. Borgin ætlar að fjárfesta fyrir um 28 milljarða á næsta ári. Vakti Dagur athygli á því er hann mælti fyrir fjárhagsáætluninni í borgarstjórn í gær, að stórauknar fjárfestingar borgarinnar á næstu árum skæru sig úr í samanburði við fjárfestingaráform annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Á yfirstandandi ári er tekjufall borgarinnar áætlað 12,5 milljarðar og útgjöld aukast um 2,6 milljarða þannig að umskiptin til hins verra nema rúmum 15 milljörðum.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, benti á við umræðurnar í borgarstjórn í gær að borgin hefði safnað skuldum í góðærinu og það gerði verkefnið sem nú blasti við miklu erfiðara en annars hefði orðið. Lýsti hann einnig áhyggjum af því að grunnrekstur borgarinnar væri ekki sjálfbær til framtíðar. „Ef við keyrum allt áfram með skuldsetningu, eins og reyndin verður með ekki bara fjárfestingar heldur líka rekstur á þessu ári og næsta, þá á endanum verða skuldirnar það miklar að þær verða einn aðalútgjaldaliðurinn og við getum þá ekki sinnt skyldum okkar sem borg,“ sagði Eyþór. Þegar vextirnir færu að hækka á ný yrði gríðarlega þungt að eiga við þessa miklu skuldasöfnun.

Veltufé frá rekstri, sem sýnir það svigrúm sem borgarsjóður og samstæðan hafa til að standa við afborganir og til fjárfestinga, lækkar verulega á næsta ári, sérstaklega hjá A-hlutanum (sjá meðfylgjandi töflu).

Vilja lækkun með arði OR

Útsvarsprósentan í borginni verður óbreytt á næsta ári en gert er ráð fyrir að tekjustofnar verði áfram veikir 2021 og 2022 og útsvarið nái ekki fyrri styrk fyrr en árið 2025.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til á borgarstjórnarfundinum í gær að 2,8 milljarða kr. arðgreiðslum Orkuveitu Reykjavíkur yrði ráðstafað til lækkunar útsvars, álagningarhlutfall útsvars verði 14,07% í stað 14,52% og til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega.

Í fjárhagsáætlun borgarinnar er almennt gert ráð fyrir að gjaldskrár hækki á næsta ári í samræmi við verðlag eða um 2,4% nema hjá Sorpu þar sem boðaðar eru töluverðar breytingar á gjaldskrám. Álagningarhlutföll fasteignaskatts verða óbreytt nema af iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði og mannvirkjum í ferðaþjónustu sem lækka úr 1,65% í 1,60%. Verja á milljarði kr. í að búa til ný störf fyrir atvinnulausa og stuðning og virkni fyrir þá sem fá fjárhagsaðstoð á næsta ári. Búist er við að notendum fjárhagsaðstoðar fjölgi í 1.852 eða um 35% milli ára.