Stjörnustríð Mandalórinn kemst oft í hann krappan.
Stjörnustríð Mandalórinn kemst oft í hann krappan.
Undirritaður hefur nú um nokkra hríð státað af Netflix-reikningi og verið bara nokkuð sáttur við hann.

Undirritaður hefur nú um nokkra hríð státað af Netflix-reikningi og verið bara nokkuð sáttur við hann. Engu að síður ákvað hann í nýlegri sóttkví að skreyta sig með fleiri streymisfjöðrum, og keypti sér því áskrift að Disney+, undir því yfirskini að frumburðurinn kynni vel að meta að horfa á teiknimyndirnar sem það ágæta fyrirtæki byggði frægð sína á.

En því er nú öðru nær, krakkinn kemst ekkert að sjónvarpinu því ég er upptekinn við að horfa á þættina um Mandalórann, mannaveiðara í Stjörnustríðsheiminum.

Fyrri sería þáttanna kom út í fyrra, og veitti þá mörgum vonsviknum Stjörnustríðsáhangendum smá sárabót fyrir þau feilspor sem Disney steig á hvíta tjaldinu. Þáttunum er best lýst sem nokkurs konar spagettívestra í geimbúningi, þar sem sexhleypunum hefur verið skipt út fyrir leysibyssur og aðalsöguhetjan skiptir varla skapi sama hvað bjátar á.

Seinni serían sem nú er í gangi er síðan nánast himnaríki líkast fyrir gamla nörda og er ekki ofsögum sagt að aðstandendur þáttanna haldi hreinlega upp heiðri Stjörnustríðsmyndanna um þessar mundir. Þættirnir feta ótroðnar slóðir, en sýna jafnframt eldri myndum Stjörnustríðsbálksins virðingu. Það hefðu fleiri hjá Disney mátt gera.

Stefán Gunnar Sveinsson

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson