[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Heimsmeistarinn og ökuþórinn Lewis Hamilton er með kórónuveiruna og mun því ekki geta tekið þátt í Grand Prix-keppninni í Barein um helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Formúlu 1-kappakstrinum.

*Heimsmeistarinn og ökuþórinn Lewis Hamilton er með kórónuveiruna og mun því ekki geta tekið þátt í Grand Prix-keppninni í Barein um helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Formúlu 1-kappakstrinum.Segir í tilkynningunni að Hamilton sé í einangrun og yfirstjórn keppninnar muni tryggja að áhrifa veikindanna muni ekki gæta á keppni helgarinnar.

* Sara Björk Gunnarsdóttir , landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, kemur til greina í lið ársins hjá UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu. Sara átti afar gott ár og varð m.a. Evrópumeistari með franska liðinu Lyon eftir að hún gekk í raðir þess frá Wolfsburg. Sara er ein af fimmtán miðjumönnum sem koma til greina en kosningin fer fram á heimasíðu UEFA. Sara vann þýsku deildina og bikarinn með Wolfsburg og hjálpaði liðinu að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en skoraði svo gegn því í úrslitaleiknum með Lyon. Hægt er að kjósa Söru með því að fara inn á vef UEFA.

*Handknattleikssamband Íslands og Körfuknattleikssambandið tilkynntu í gær að ekki verði leikið á Íslandsmótunum í greinunum á nýjan leik fyrr en á næsta ári vegna þeirra aðgerða sem í gangi eru í baráttunni við kórónuveiruna. Nánari dagsetningar verða tilkynntar síðar.

* Ásmundur Haraldsson hefur verið ráðinn þjálfari Kára á Akranesi sem leikur í c-deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Gunnar Einarsson gegndi starfinu í sumar en réð sig til Víkings í Ólafsvík eins og greint var frá á dögunum. Þá hefur KV tryggt sér starfskrafta Sigurvins Ólafssonar áfram sem þjálfara liðsins sem einnig verður í c-deild á næsta ári.

*Keflvíkingurinn Thelma Dís Ágústsdóttir var atkvæðamest hjá Ball State Cardinals er liðið mátti þola 49:73-tap fyrir IUPUI í bandaríska háskólaboltanum. Annan leikinn í röð var Thelma besti leikmaður Ball State og skoraði 10 stig, tók 10 fráköst, gaf þrjár stoðsendingar og stal einum bolta.Thelma er 22 ára og lék sína fyrstu leiki með Keflavík aðeins 15 ára gömul. Varð hún einu sinni Íslandsmeistari með Keflavík og tvisvar bikarmeistari. Þá var hún valin besti leikmaður Dominos-deildarinnar árið 2017.

*Kolbeinn Sigþórsson er á förum frá knattspyrnufélaginu AIK í sænsku úrvalsdeildinni þegar leiktímabilinu þar í landi lýkur. Kolbeinn samdi við AIK í mars árið 2019 og átti sá samningur að gilda út tímabilið 2021. Samkvæmt sænska dagblaðinu Expressen var frammistöðuákvæði í samningnum þar sem AIK er gert kleift að rifta samningnum fyrr og hefur liðið ákveðið að nýta sér ákvæðið. Kolbeinn getur því nú þegar hafið leit að nýju liði og samið við það frá og með janúar á næsta ári. Kolbeinn hefur spilað 18 leiki í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu, flesta eftir að hafa komið inn á sem varamaður, og ekki enn náð að skora. Á síðasta tímabili skoraði hann þrjú mörk í 17 leikjum. Tímabilinu í sænsku úrvalsdeildinni lýkur um næstu helgi.