Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sagt var um Jónas frá Hriflu að sjá mætti sjö sverð á lofti þar sem hann fór. Var hann enda maður vígfimur á vettvangi stjórnmálabaráttunnar. Þessi lýsing rifjaðist upp á þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sagt var um Jónas frá Hriflu að sjá mætti sjö sverð á lofti þar sem hann fór. Var hann enda maður vígfimur á vettvangi stjórnmálabaráttunnar.

Þessi lýsing rifjaðist upp á þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar. Ef fram heldur sem horfir er ekki ósennilegt að sjö vinstriflokkar komist á þing í alþingiskosningunum næsta haust. Kjósendur munu þá sjá sjö stjórnmálaforingja halda á lofti jafn mörgum sverðum í þágu baráttunnar fyrir meiri ríkisumsvifum.

Stöðugt er reynt að finna nýjar leiðir til að gera ríkisvaldið ómissandi í lífi okkar. Ósjaldan leita fjölmiðlar rökstuðnings hjá sérfræðingum sem rukka sérfræðingataxta einmitt fyrir að leysa nýju vandamálin. Það er ólíklegt að þeir muni tala gegn eigin hagsmunum. Svo eru það tilbúnu reiðiöldurnar á félagsmiðlum sem RÚV gætir þess að magna upp. Margir óttast öldurnar.

Miðjan hefur færst til vinstri. Með sama áframhaldi er óraunhæft að skattar muni lækka umtalsvert á næstu árum. Við það bætist skuldabagginn vegna kórónukreppunnar sem verður ábyggilega sjálfstæð röksemd fyrir háum sköttum.

Vinstrimenn munu eflaust fá valkvíða. Gætu jafnvel upplifað kulnun á kjörstað. Ekki síst í ljósi þess að mögulega verða enn fleiri vinstriflokkar í framboði.

Við þetta bætist klofningslögmálið; lögmálið um að vinstri flokkar á Íslandi klofni innan tiltekins tíma. Tveir þingmenn VG fundu hjá sér þörf til að vera í andstöðu við flokkinn en skyldu þeir stofna nýjan? Með hliðsjón af nýjum áherslum þeirra virðist ekki hægt að útiloka að þeir bjóði sig líka fram í Póllandi.