Ingibjörg Björgvinsdóttir fæddist 24. desember 1956. Hún varð bráðkvödd 4. nóvember 2020.

Útför Ingibjargar fór fram 19. nóvember 2020.

Elsku Ingibjörg mín. Þessi skrif eru svo erfið. Þegar Baldur hringdi í mig og tilkynnti mér þessar sorgarfréttir, það að þú værir farin frá okkur. Hvernig gat það verið? „Þú“ sem varst alltaf svo hress og kát, svo ung. Þvílík amma, alltaf í sundi, úti að ganga með Ebbu systur þinni og hafðir svo gaman af lífinu, varst alltaf svo heilbrigð. Á erfitt með að trúa því að þetta sé raunin.

Það er erfitt að finna jafn hjartahlýja og yndislega manneskju eins og þig. Hjartað mitt er svo fullt af þakklæti yfir því að þú sért mín fyrrverandi tengdamóðir, vinkona og smma barnanna minna og Baldurs. Þú tókst líka Sesari alltaf eins og þínum. Hugsaðir svo einstaklega vel um barnabörnin þín, þau eiga eftir að sakna þín óendanlega mikið. Samband ykkar var svo einstakt og fallegt. Það var alltaf toppurinn að fá að fara til ömmu í dekur. Stundum á sunnudögum þegar langt var liðið á daginn leiddi maður oft hugann að því hvort þú ætlaðir ekki örugglega að skila þeim aftur, þú varst alltaf með þau eins lengi og þú mögulega gast. Nýttir hverja mínútu í að fá að dekra við þau. Eins og þú gerðir líka við öll hin barnabörnin, syni þína og tengdadætur. Veittir þeim svo fallega og skilyrðislausa ást og umhyggju.

Er svo þakklát, elsku Ingibjörg, að hafa fengið að kynnast þér og hafa fengið að vera hluti af þínu lífi. Fyrir allt það góða og fallega sem þú kenndir börnunum mínum sem þau munu svo sannarlega taka með sér áfram inn í lífið. Fyrir allt það sem þú gafst af þér. Kynntist þér rétt um tvítugt, átti þá margt eftir ólært. Þú kenndir mér svo margt um lífið og tilveruna, varst alltaf svo hjálpsöm, uppfull af hlýhug og góðmennsku. Stundum áttir þú það til að vera með fastar skoðanir á mörgu, sem fær mig til að brosa. Því það sem þú vildir koma á framfæri fór ekki á milli mála. En það bjó svo mikil einlægni og góðvild á bak við allt frá þér. Enda býr þín viska hjá mér í dag og verður þar áfram. Sesar á eina minningu sem stendur alltaf upp úr þegar hann fór í dekur til þín. Þú pantaðir pizzu með öllu grænmetinu sem var til að mig minnir. Hann borðaði ekki grænmeti þá, en jæja, þú bara gleymdir því í smástund. Hann bara pikkaði allt af og var sáttur. En þú gleymdir þessu aldrei, varst alveg miður þín en hlóst mikið að þessu og grínaðist með þetta gegnum árin, og sagðir systkinum hans þessa sögu ykkar.

Finnst það svo ótrúlega sárt að fá ekki aftur frá þér símtal... „Jæja, Ósk mín, hvernig hafið þið og börnin það? Má ég koma og fá þau lánuð í vikunni og fara með þau og gera eitthvað skemmtilegt?“ svo gafstu þér alltaf tíma í spjall. Í þessum leiðöngrum ykkar náðu þau alltaf að plata ömmu sína með sér á Metro. Veit að þú stakkst oftar en ekki upp á því að fara annað. En alltaf var það sami staður, þú lést þig hafa það. Get ekki annað en brosað. Það sem þú lést ekki eftir barnabörnunum þínum. Við tvær hlógum oft að þessu. Emma mín sagði við mig fyrir nokkrum dögum: „Mamma, nú verður þú að fara með okkur á Metro. Amma gerði það alltaf og nú verður þú að gera það!“ Allt í lagi. Skal lofa þér því að hugsa vel um barnabörnin þín, fer með þau á staðinn ykkar, í sund og held fallegu minningunum þeirra um þig alltaf á lífi.

Elsku Ingibjörg mín, takk fyrir allt það góða og fallega sem þú gafst börnunum og mér. Farðu vel með þig á nýja staðnum, megi ljósið skína skært af himninum frá þér. Blessuð sé minning þín.

Innilegustu samúðarkveðjur, Baldur, Brynjar og fjölskyldur, Ólína, systkini Ingibjargar og allir sem stóðu henni nær. Megi guðsstyrkur leiða ykkur í sorginni.

Kær kveðja,

Ósk.

„Mjög erum tregt tungu að hræra ...“ segir í upphafi Sonartorreks Egils Skallagrímssonar. Þessi ljóðhenda Egils kemur upp í huga okkar sem vorum Ingibjörgu Björgvinsdóttur samskipa. Sviplegt fráfall hennar var okkur harmdauði. Í huga okkar sem vorum með henni í hjúkrunarnáminu, deildum með henni lífi í meðbyr og mótbyr og störfuðum með henni lifir samt dýrmætt fordæmi.

Í gerðinni var Ingibjörg greind og einstök gæðamanneskja. Hún var orðvör, hæglát og hófsöm, jafnlynd og dagfarsprúð og gætti varúðar og miskunnsemi í samskiptum við vini, vandamenn og skjólstæðinga og var alltaf til staðar án þess að láta mikið fara fyrir sér. Hún sýndi innilega hluttekningu með þeim sem áttu á brattann að sækja og samgladdist þegar vel gekk í lífi fólks. Næmi hennar birtist líka í unun hennar af menningu og listum.

Þeir sem til hennar leituðu vissu að hún væri góður hlustandi, héldi trúnað og væri mild í dómum um menn og málefni. Fólk kom heldur aldrei að tómum kofunum hjá henni og hún var manneskja orða sinna og fyrirheita. Því treysti fólk henni. Líklegt má telja að þessir eðliskostir hafi verið gjafir trúar, sem hún bar ekki á torg en birtist í verkum hennar. Einn af leyndardómum lífsins er að þeir hafa mest að gefa sem mest hafa reynt og þegar upp er staðið á víst enginn neitt nema það sem hann hefur gefið.

Í gerðinni var Ingibjörg líka artarsöm gagnvart þeim sem henni hafði verið trúað fyrir. Þannig veitti hún aldraðri móður sinni og strákunum sínum tveimur hlýtt og öruggt utanumhald, skjól og hjástoð sem aldrei brást og styrkti þá til farsældar í lífinu. Barnabörnin voru henni í senn gleði- og hamingjugjafar og kærkomnir gullmolar, sem hlýr og ástríkur faðmur hennar þráði að umvefja.

Það er ekki vandræðalaust að skilgreina fyrir hvað góður hjúkrunarfræðingur stendur. Fagmennska þeirra einskorðast t.d. ekki við færni eða þekkingu á einu eða tveimur þröngum sviðum. Fagmennsku hjúkrunarfræðinga verða ekki gerð raunhæf skil nema í fyrsta lagi sé litið til víðtækrar og yfirgripsmikillar þekkingar þeirra, því næst til góðrar tilfinningagreindar og loks til rökgreindar til að samtvinna í verki breiða þekkingu og næmi fyrir mannlegum þörfum. Íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa valið að draga saman þessa fjölgreindu þætti í þrjú minnisorð: hugur, hjarta, hönd. Fyrir allt þetta stóð Ingibjörg.

Til faglegs vaxtar er gott að líta til þeirra sem hafa náð að fullblómstra á sínum sérsviðum. Ingibjörg Björgvinsdóttir var í hópi þeirra sem náðu svo mikilli færni á víðu og kröfuhörðu sviði hjúkrunar að við sem eftir lifum getum horft til hennar og einsett okkur að feta í spor hennar til að verða betri fagmanneskjur.

Hjá ástvinum og sonum Ingibjargar dvelur hugur okkar núna. Öll getum við einsett okkur að læra af fallegu, kærleiksríku og göfugu fordæmi hennar.

Fyrir hönd skólasystra í p-holli Hjúkrunarskóla Íslands,

Anna Margrét

Guðmundsdóttir.