Þyri Dóra Sveinsdóttir fæddist 18. febrúar 1945. Hún lést 11. nóvember 2020.

Þyri Dóra var jarðsungin 24. nóvember 2020.

Fyrstu fundir okkar Þyri Dóru urðu sumarið 1961. Ég var þá 11 ára gömul og í sveit á bænum Enni við Blönduós hjá ömmu hennar, Halldóru Ingimundardóttur. Þyri Dóra, sem þá var reyndar bara kölluð Dóra, kom í heimsókn til ömmu sinnar þetta sumar. Hún var 15 ára, lagleg og snaggaraleg stelpa sem var staðráðin í að verða hárgreiðslukona. Í mínum augum var hún fullorðin heimsdama. Ég var 11 ára og sjálfsagt smápeð í hennar augum. En ég var með hár niður á axlir og verðandi hárgreiðslukonan ákvað að spreyta sig aðeins á því. Hún þvoði mér um hárið og setti í það rúllur, klút yfir og með þennan höfuðbúnað skyldi ég sofa um nóttina. Þegar ég lagðist á koddann átti ég ekki von á miklum nætursvefni en það gekk betur en á horfðist. Daginn eftir var árangurinn skoðaður og það var erfitt að sjá hvor var spenntari fyrir útkomunni, hárgreiðslukonan eða hármódelið.

Þessi fyrstu kynni okkar Þyri voru mér alltaf eftirminnileg þótt ekki hafi orðið meira úr þeim kunningsskap fyrr en mörgum árum seinna. Ég var flutt í Fossvoginn og kom þá inn á Snyrtistofuna Ársól í Grímsbæ. Þar blasti við mér meistarabréf með nafninu Þyri Dóra Sveinsdóttir – snyrtifræðingur reyndar en ekki hárgreiðslukona. Þegar ég leit á glaðlega afgreiðslukonuna þóttist ég þekkja svipinn og að þarna myndi vera komin heimsdaman og verðandi hárgreiðslukonan frá sumrinu 1961. Ég sagði til nafns og spurði hana að því hvort það gæti ekki verið að við hefðum hist á Enni fyrir langa löngu. Hún hélt nú það og mundi vel eftir mér líka. Það urðu með okkur fagnaðarfundir þarna strax og síðan þróaðist með okkur góð vinátta. Ég hef verið fastagestur í Ársól í nær 30 ár. Þangað hefur verið gott að koma.

Þyri var mikill fagmaður; hún var sérstaklega vandvirk; litaði best af öllum og nuddaði. Á stofunni ríkti notaleg ró; lágvær tónlist sem ekki truflaði. Þyri hreyfði sig líka einstaklega hljóðlega; manni fannst eiginlega að hún hlyti að svífa um gólfin en ekki ganga.

Þar minnti hún mig á Halldóru ömmu sína. Ég sagði henni það og ég held að henni hafi þótt vænt um að heyra það. En hún var ekki bara fagmaður; hún var líka ráðagóð, skemmtileg, minnug og fróð. Við spjölluðum margt og oft voru umræðuefnin gamlar minningar; um fólk sem við þekktum báðar, ömmu hennar á Enni og lífið þar og svo líka minningar um lífið í Reykjavík þegar við vorum að alast upp.

Nú er að koma aðventa og Þyri gerði alltaf dagamun úr henni; hún bauð viðskiptavinum upp á dásamlega handmaska og svo voru á boðstólum piparkökur og sælgæti úr konfektjólakransi sem hún hengdi upp. Það verður ekki núna.

Mig langar að þakka elsku Þyri fyrir góðar stundir á liðnum árum. Ég minnist hennar með söknuði og sendi fjölskyldu hennar samúðarkveðjur.

Katrín Guðmundsdóttir.