Sjálfsagt er að Íslendingar fylgist vel með umbrotunum í Brussel vegna útgöngu Breta

Enn er reglubundið verið að tala um að samningar Breta við ESB vegna útgöngu þeirra séu komnir í öngstræti. Þó er komið að ögurstund og það raunar fyrir nokkru.

Almennt séð er það heldur lakara og stundum miklu verra þegar samband aðila brestur, og þá auðvitað ekki síst þegar ríkar tilfinningar spila inn í og ætlað var að tryggja sambúð sem héldi. Þegar slíkt samband endar með hatrömmum skilnaði þeirra sem fyrrum áttu samleið er ekki óþekkt að aðilar, jafnvel þeir sem heitast unnust áður, leitist við að gera hver öðrum sem mestan miska. Og þegar verst gegnir virðast slík markmið stundum lenda efst á óskalista aðila og jafnvel þeirra beggja. Heilbrigð skynsemi ætti þó að draga langt til skilnings á því að báðir hljóta skaða af slíku. Iðulega er það síðbúin heift sem tilfinning um svik, óheilindi og brotin fyrirheit kyndir undir. Tilfinningaþrungnar ástæður af slíku tagi ættu ekki að geta verið skýringin á augljósri hörku og stífni í viðræðum ESB og Breta. Og sú óbilgirni verður eingöngu skrifuð á reikning Evrópusambandsins.

ESB er ekki með þeirri framgöngu sinni að eiga við viðsemjandann. Búrókratarnir eru að tala við baklandið sitt, hin aðildarlöndin sem þeir umboðslausu óttast að kynnu að fara að hugsa sér til hreyfings um útgöngu ef Bretar mæti lágmarkssanngirni. Aðildarlöndin hafa með löngum aðdraganda getað ákveðið útgöngu sína úr ESB, og var oft hamrað á að þetta væri grundvallarréttur þeirra og um leið helsta sannindamerki þess að fullveldið hyrfi ekki smám saman. Vera eða útganga hlyti að vera helgur réttur þjóðanna og sambandið gæti aldrei leyft sér að leggja stein í götu þjóðar sem vildi fara samkvæmt ákvörðun sem þjóðin sjálf hefði tekið eins og í tilviki Breta.

Sá veruleiki, sem hefur sést glitta í að undanförnu, ætti að hafa kennt þeim mikla sögu sem hafa viljað að Ísland seldi sig inn í ESB. En vandinn er sá að þeir sömu eru margir komnir handan við þau mörk að geta nokkuð lært. En það er sérlega athyglisvert fyrir Íslendinga sem fylgjast með togstreitu Breta við Brussel að sjá hvaða mál dúkkar reglulega upp efst á síðurnar um það sem harðast er deilt um. Það eru fiskveiðiréttindi þjóðanna. Edward Heath og Macmillan á undan honum veifuðu fiskveiðiréttindum framan í meginlandsþjóðirnar. Á heimavelli þóttist hvorugur kannast við að þeir væru að selja hagsmuni fiskveiðanna fyrir lítið, og voru þeir hagsmunir þó smámál miðað við þá íslensku. Einkum var framganga Edwards Heaths honum til ævarandi skammar. Og það var ekki laust við að forsætisráðherrann viðurkenndi það fyrir sjálfum sér, því að hann lét 30 ára þagnarreglu gilda um allar samningaviðræður sem lutu að fiskveiðum þegar vélað var um aðild. Enda kom á daginn að þau vinnubrögð þoldu ekki dagsins ljós.

Þegar Jóhanna og Steingrímur höfðu ákveðið svikaleiðangurinn inn í ESB, í krafti þess að þjóðin væri hnípin í vanda sínum eftir fall bankanna, þá voru fengnir menn í „samningaviðræður“ við ESB. Á daginn kom að engar „viðræður“ fóru þó í gang. „Samningamenn Íslands“ mættu fyrir búrókratana, sem settu þeim fyrir hvar og hvernig bæri að laga reglur að því sem gilti í ESB og næsta fund á eftir var mætt, eins og börn fyrir kennara sína, og fengin (ESB)stjarna í kladdann og klapp á bak. Þessir gerviviðsemjendur hafa aldrei þorað að sýna hvar þeir voru staddir varðandi sjávarútveginn í landinu þegar botninn datt úr bröltinu þegar hratt fjaraði undan hreinu vinstristjórninni, sem þessir höfðu gerst hlaupastrákar fyrir.

En gauragangurinn út af sjávarútvegnum nú, þegar Bretar eru að fylgja eftir ákvörðun um brottför, segir mikla sögu. Þó liggur í augum uppi að þegar Bretar fara út þá gengur það til baka sem þeir neyddust til að borga með sér. Hitt er annað mál, að sagan af þeim Macmillan og Edward Heath áréttar að stjórnmálamönnum og diplómötum er illa treystandi í samskiptum við þetta samband.

En það er sjálfsagt að fylgjast með, þótt úr fjarlægð sé, hvernig þessi mál kunna að þróast núna, enda verður snúið upp á hendur fulltrúa bresku þjóðarinnar svo lengi sem þeir una því.