Lestur Þórunn Hjartardóttir, til vinstri, og Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðumaður Hjóðbókasafns Íslands.
Lestur Þórunn Hjartardóttir, til vinstri, og Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðumaður Hjóðbókasafns Íslands. — Ljósmynd/Marinó Flóvent
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Skýrmæli og að finna rétta raddblæinn sem er í anda efnisins eru mikilvæg atriði við upplestur.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Skýrmæli og að finna rétta raddblæinn sem er í anda efnisins eru mikilvæg atriði við upplestur. Þetta segir Þórunn Hjartardóttir sem í gær fékk viðurkenningu Hljóðbókasafns Íslands fyrir að hafa lesið alls 500 bækur fyrir safnið, sem sinnir þörfum blindra og sjónskertra og annara sem ekki geta nýtt sér prentað letur. Sérstök áhersla er lögð á námsbækur en jafnframt að bókakostur sé fjölbreyttur.

Tilfinningin komist til skila

Fyrir safnið starfa að jafnaði um 30 lesarar í verktöku og hefur Þórunn verið í þeirra hópi frá árinu 1992. Á þeim tíma hefur hún lesið til upptöku bækur af ýmsum toga; skáldverk, ljóð, ævisögur, námsbækur og svo mætti lengi telja. Upplesturinn fer fram í húsakynnum Hljóðbókasafnsins í Kópavogi, þar sem eru fjórar hljóðstofur og fullkominn upptökubúnaður.

„Sérhver bók er ákveðin ögrun og koma þarf réttu skilaboðunum og tilfinningunni til skila. Námsbækur, til dæmis í raungreinum, geta verið vandasamar þegar þarf að segja frá alls konar táknum og myndrænum atriðum. Samt tekst þetta allt að lokum,“ segir Þórunn sem hefur nýlokið lestri á 500. bókinni sem er Nýsköpun og frumkvöðlafræði eftir Óttar Ólafsson.

„Ég var ung stúlka þegar ég las fyrst fyrir Ríkisútvarpið, þar sem faðir minn starfaði. Það verkefni átti heldur betur eftir að vinda upp á sig,“ segir Þórunn, sem auk þess að vinna fyrir Hljóðbókasafnið starfar einnig fyrir Storytel og Hljóðbók. Er myndlistarmaður að mennt og segir þá skólagöngu og störf sín fara vel saman. „Allt snýst þetta um að vinna úr ákveðnum efnivið og búa til myndir úr málinu, þótt með ólíkum hætti sé,“ segir upplesarinn snjalli.

Nær 14 þúsund virkir lánþegar

Virkir og skráðir lánþegar hjá Hljóðbókasafni Íslands eru í dag 13.722. Ítarleg skilyrði gilda um útlán hjá safninu, sem aðeins fólk sem ekki getur lesið eða haldið á bókum nýtur. Þarna geta átt í hlut blindir, lesblindir eða fólk með aðrar fatlanir. Verður að skila inn sérstöku vottorði til safnsins til að komast í hóp lánþega og fá þjónustu. Stofnunin hét lengi Blindrabókasafn Íslands en nafninu var breytt fyrir nokkrum árum.

„Safnkosturinn er fjölbreyttur og það sem er vinsælast hér er mjög svipað og á öðrum söfnum landsins,“ segir Marín Guðrún Hrafnsdóttir sem tók við sem forstöðumaður fyrr á þessu ári. „Stafræn þjónusta hjá okkur færist mjög í vöxt og um 85% allra útlána hjá okkur eru yfir netið. Sú tækniþróun leiðir til þess að við kaupum í ríkari mæli hljóðbækur frá útgefendum og setjum í útlán. Það er svo einkum elsta fólkið í hópi lánþega sem fær bækur lánaðar sem geisladiska. Sú breyting að fá hljóðbækurnar frá útgefendum ræður því að við hér á safninu getum aftur sett meiri kraft í til dæmis námsbækur.“

Nýjar bækur komnar

Og jólabækurnar eru komnar í Hljóðbókasafn Íslands og þar nefnir Marín nýjar skáldsögur Ragnars Jónassonar, Yrsu Sigurðardóttur, Stefáns Mána og Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Þá eru barnabækur eftir hjónin Gunnar Helgason og Björk Jakobsdóttur einnig komnar á safnið og í útlán.