Rakel Ólafsdóttir fæddist í Arnarfirði 29. maí 1936. Hún lést á Landspítalanum 23. október 2020. Foreldrar hennar voru Berta Björnsdóttir, f. 23.04. 1929, d. 01.03. 1996, og Ólafur Jónsson, f. 03.07. 1908, d. 06.07.2000. Systkini Rakelar eru Gunnhildur, Sjöfn, Ólöf, Kjartan og Edda sem er látin og tvær hálfsystur, Jónína og Lára.

Rakel giftist Ásgeiri Magnússyni, f. 22.09. 1933, d. 11.05. 2007. Börn þeirra eru: 1) Bertha Kolbrún, f. 09.03. 1955, 2) Magnús Ómar, f. 11.08. 1957, 3) Ólafur Hrafn, f. 03.09. 1962 og 4) Ásgeir Brynjar, f. 15.03. 1969. Barnabörnin eru 14 og barnabarnabörnin 15.

Rakel átti heima á Patreksfirði til fimm ára aldurs. Fjölskyldan flutti þá til Reykjavíkur og gekk hún í Laugarnesskóla til 15 ára aldurs en þá fluttu þau í Álfsnes á Kjalarnesi og gekk þá Rakel í Skógarskóla.

Rakel kynntist Ásgeiri manni sínum þegar hún var 17 ára gömul og hófu þau búskap sinn í Reykjavík. Árið 1970 flutti fjölskyldan til Svíþjóðar. Rakel fór þar í nám og lærði hjúkrun og svo síðar meir lærði hún fótaaðgerðafræði og setti upp sína eigin stofu. Rakel flutti svo aftur til Íslands árið 2004.

Rakel var virk í eldriborgarastarfi og stundaði línudans og lærði útskurð. Einnig var hún í leikfélagi eldri borgara, Snúði og Snældu.

Útför Rakelar fór fram 6. nóvember, frá Fossvogskapellu, í kyrrþey.

Elsku mamma.

Mikið er erfitt að horfa á eftir þér þar sem þú varst okkar stoð og stytta, sama hvað bjátaði á. Nú er gott að staldra við og hugsa um okkar dýrmætu stundir saman.

Þú gafst okkur gott veganesti inn í lífið enda mikil fyrirmynd. Þú tókst alltaf hagsmuni annarra fram yfir þína og vildir hjálpa þeim sem minna mega sín. Þú varst mikil húsmóðir, snillingur í eldhúsinu og sérstaklega handlagin.

Allt var heimasaumað hvort sem það voru fermingarföt eða skátabúningar. Fyrir nokkrum árum ákvaðst þú að læra útskurð og gerðir það auðvitað með glæsibrag. Þú skarst út fallegar gestabækur sem þú gafst okkur ásamt mörgum öðrum fallegum hlutum og er það mjög dýrmætt að eiga það núna. Þú varst mikil félagsvera og tókst upp á því, á gamals aldri, að ganga í leikfélag eldri borgara og taka þátt í leiksýningu.

Þú elskaðir að dansa og var það línudansinn sem heillaði þig síðustu árin.

Þú varst sterkur karakter og sagðir svo skemmtilega frá, þeir sem kynntust þér gleyma þér aldrei.

Þú varðir ófáum stundum með barnabörnunum og munu þau sakna skemmtilegu, fínu, flottu og síungu ömmu sinnar.

Elsku mamma okkar, við söknum þín sárt en minning þín mun ávallt lifa í hjörtum okkar.

Bertha, Magnús, Ólafur og Ásgeir.

Rakel og ég vorum systradætur og varð hún mín allra besta vinkona við sex ára aldur.

Rakel var glæsileg, hjartahlý og dugleg. Þessir mannkostir Rakelar einkenndu allt hennar líf. Þegar kveðjustundin er komin er mér efst í huga þakklæti fyrir vinskap og trygglyndi Rakelar. Vinátta sem gerði líf mitt betra og auðugra.

Börnum Rakelar og öðrum aðstandendum bið ég og fjölskylda mín blessunar guðs. Ég veit að minning um góða móður og elskulega konu lifir áfram í hjörtum allra þeirra sem kynntust henni.

Anna Sigríður Valgasdóttir.

Við kveðjum nú góða vinkonu og viljum þakka henni fyrir góðan vinskap sem hefur haldist síðan upp úr 1960 þegar báðar fjölskyldurnar bjuggu í vesturbæ Kópavogs og einnig síðar þegar þær fluttu báðar árið 1970 til Svíþjóðar, á sömu götu í Malmö. Rakel og Geiri urðu áfram í Svíþjóð þegar við fluttum heim aftur en gott samband hélst öll þessi ár. Rakel kaus að búa á Íslandi eftir að Geiri féll frá og hafði hún Óla son sinn sér til halds og trausts hér á landi. Rakel var glæsileg kona og góð. Hún var alltaf vel tilhöfð. Hún var mjög heiðarleg og vildi aldrei skulda neinum neitt og gat verið svolítið föst á sínu hvað það varðaði en var svo innilega þakklát þegar henni var greiði gerður. Hún var ung í anda og gaman að tala við hana um nánast allt enda fylgdist hún mjög vel með öllu sem var í gangi á hverjum tíma og hafði sínar skoðanir en hún þoldi illa óréttlæti.

Hún var mjög listræn, hafði gaman af útskurði og gerði fallega hluti, sem dæmi má nefna klukkur og gestabækur sem prýða nú veggi hjá afkomendum. Hún hafði gaman af að tala um andleg málefni enda mjög næm og maður gat alveg gleymt sér í þeirri umræðu við hana. Rakel og Geiri skilja eftir sig stóran og fallegan afkomendahóp bæði hér heima og í Svíþjóð.

Elsku Berta, Maggi, Óli, Ásgeir, makar og afkomendur, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Megi minning um góða konu lifa.

Þórir, Álfheiður, Gerður

og Brynjólfur.