Hryllileg aðkoma Að minnsta kosti tveir létust þegar bíl var ekið niður fjölfarna verslunargötu í borginni Trier.
Hryllileg aðkoma Að minnsta kosti tveir létust þegar bíl var ekið niður fjölfarna verslunargötu í borginni Trier. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Að minnsta kosti fjórir létust þegar bíl var ekið í gegnum mannþröng á fjölfarinni verslunargötu í borginni Trier í suðvesturhluta Þýskalands um eftirmiðdaginn í gær.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Að minnsta kosti fjórir létust þegar bíl var ekið í gegnum mannþröng á fjölfarinni verslunargötu í borginni Trier í suðvesturhluta Þýskalands um eftirmiðdaginn í gær. Náði bíllinn að keyra á ofsahraða um eins kílómetra leið áður en lögreglan gat neytt hann til að stöðva. Ökumaður bílsins var handtekinn á staðnum, en hann er sagður 51 árs gamall Þjóðverji sem búi í nágrenni borgarinnar.

Staðarfjölmiðlar í Trier greindu frá því í gær að a.m.k. 15 hefðu slasast, en lögreglan sagði einungis að „fjölmargir“ hefðu slasast og „nokkrir“ látist við ofsaaksturinn.

Þá taldi lögreglan ekki hægt að segja að svo komnu máli hvort um hryðjuverk hefði verið að ræða, en heimildarmenn AFP-fréttastofunnar töldu ólíklegt að stjórnmálaskoðanir lægju að baki ódæðinu og nágranni mannsins sagði að hann hefði átt við geðræn vandamál að stríða.

Að sögn lögreglunnar var maðurinn einn í bíl sínum, silfurgráum jepplingi, og hættan væri liðin hjá. Engu að síður var fólk hvatt til þess að halda sig fjarri miðborginni, en þar var lögregla enn að störfum við rannsókn málsins.

Lítil stúlka meðal fórnarlamba

Wolfram Leibe, borgarstjóri Trier, sagði hins vegar að svo virtist sem hinn grunaði hefði ákveðið að ganga berserksgang. Leibe táraðist á blaðamannafundi sínum. Hann staðfesti að barnung stúlka hefði verið á meðal hinna látnu og sjónarvottar sögðu að bílnum hefði meðal annars verið ekið á barnavagn, sem hefði henst í loft upp. „Þetta er hryllingur,“ sagði Leibe um atvikið og bætti við að margir hefðu orðið vitni að því og bæru nú ör á sálinni vegna þessa. Stúlkan var níu mánaða.

Steffen Seibert, talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara, sagði að atvikið væri hræðilegt og þjóðin öll hugsaði nú til ættingja hinna látnu, þeirra mörgu sem slösuðust og til þeirra sem væru að sinna þeim.

Malu Dreyer, forsætisráðherra sambandslandsins Rínarlands-Pfalz, sagði við fjölmiðla að þetta væri hræðilegur dagur, ekki síst vegna ungbarnsins sem hefði látist í hinni grimmilegu árás.

Mildi að ekki voru fleiri á ferð

Sjónarvottar sögðu við AFP-fréttastofuna að tiltölulega margir hefðu verið á ferli í miðborginni að sinna fyrstu jólainnkaupum sínum, en þó hefðu mun færri verið á ferðinni en búast hefði mátt við vegna kórónuveirunnar. Þannig hefði formlegum jólamarkaði verið lokað vegna sóttvarna og mætti það teljast mikil mildi.