[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni G. Stefánsson fæddist 2. desember 1950 í Reykjavík. Hann ólst upp hjá móður sinni í Reykjavík og dvaldist jafnframt löngum hjá afa sínum og ömmu vestur á Suðureyri við Súgandafjörð.

Bjarni G. Stefánsson fæddist 2. desember 1950 í Reykjavík. Hann ólst upp hjá móður sinni í Reykjavík og dvaldist jafnframt löngum hjá afa sínum og ömmu vestur á Suðureyri við Súgandafjörð. „Eins og siður var á þeim tíma fóru ungmenni að vinna við fiskvinnslu á Suðureyri um 11 til 12 ára aldur. Þegar ég var 14 ára fór ég á sjó með Bjarna afa og Eyjólfi móðurbróður mínum á fjögurra tonna trillu, og vann við það næstu fimm sumur.“

Bjarni gekk í fyrstu í Miðbæjarskólann í Reykjavík en síðustu tvö árin var hann í Barnaskólanum á Suðureyri. Síðan lá leiðin í Gagnfræðaskólann við Lindargötu þar sem hann lauk námi með 30 tonna skipstjórnarréttindi úr sjóvinnudeild. Bjarni varð stúdent úr eðlisfræðideild Menntaskólans við Hamrahlíð og loks cand.jur. úr lagadeild Háskóla Íslands árið 1983.

Íþróttir hafa átt stóran þátt í lífshlaupi Bjarna og þá helst frjálsar íþróttir. Hann tók þátt með góðum árangri í frjálsum íþróttum árið 1966 á Héraðsmóti á Núpi í Dýrafirði fyrir íþróttafélagið Stefni á Súgandafirði. Síðar gekk hann í KR og keppti lengi með þeim. Bjarni var landsliðsmaður í frjálsum íþróttum á árunum 1969-1976 og setti sjö Íslandsmet í spretthlaupum. Bjarni keppti á Ólympíuleikunum í München 1972 í 100 og 400 m hlaupi og komst þar í milliriðla í 400 m hlaupi og setti tvö Íslandsmet. Leikarnir komust á blöð sögunnar fyrir ódæðisverk arabíska hryðjuverkahópsins Svarta september sem ruddust inn í íbúð Ísraelsmanna og drápu tvo menn og níu voru teknir í gíslingu. Í skotbardaga á flugvellinum náðust þrír hryðjuverkamannanna, en þeir náðu að sprengja upp þyrluna og allir níu gíslarnir fórust. Eins og gefur að skilja var fólk harmi slegið á leikunum sem áttu að vera óður til gleðinnar, en snerust þarna upp í andhverfu sína. Fjórum árum síðar fór Bjarni á Ólympíuleikana í Montreal og keppti í 100 og 400 m hlaupi en náði ekki jafn góðum árangri og í München.

Eftir stúdentsprófið gekk Bjarni til liðs við lögregluna í Reykjavík árið 1973 og síðar í rannsóknarlögregluna í Reykjavík, sem heyrði þá undir Sakadóm Reykjavíkur, áður en hann hóf nám í lögfræði og vann áfram með náminu. Strax eftir útskrift 1983 flutti Bjarni með fjölskyldu sinni til Eskifjarðar og vann sem löglærður fulltrúi hjá sýslumanni í þrjú ár og fékk héraðsdómsréttindi. Síðar varð hann bæjarstjóri Eskifjarðar í eitt kjörtímabil, frá 1986. Jólin á Eskifirði 1986 urðu ansi eftirminnileg. Breska lýsisflutningaskipið Syneta, með tólf manna áhöfn, fórst við eyna Skrúð í mynni Fáskrúðsfjarðar. Þá var enginn sýslumaður staddur á Eskifirði og Bjarni settur sýslumaður og lögreglustjóri í fjarveru hans. „Þetta tók mikið á fjölskylduna og hafði mikil áhrif á byggðarlagið.“ Eftir kjörtímabilið, árið 1990, flutti fjölskyldan til Reykjavíkur í tvö ár þar sem Bjarni starfaði sem héraðsdómslögmaður á Málflutningsskrifstofu Guðmundar Péturssonar, föðurbróður Bjarna, og fleiri. Síðan var Bjarni skipaður sýslumaður í Neskaupstað 1992. Þar reyndi á þegar björgunarskipið Goðinn strandaði í Vöðluvík 10. janúar 1994, þegar var verið að reyna að losa togbátinn Bergvík VE-505. Landhelgisgæslan var kölluð út en varð frá að snúa vegna veðurs, einnig var leitað til varnarliðsins sem sendi tvær þyrlur og loks tókst að bjarga sex skipverjum af Goða. Annar ameríski flugstjórinn varð góður vinur Bjarna og hafa þeir haldið sambandi síðan. Þegar Neskaupstaður, Eskifjörður og Reyðarfjörður sameinuðust varð ljóst að fækka yrði sýslumönnum. Bjarni sótti þá um stöðu í Hólmavík og var skipaður sýslumaður þar árið 1998 og var þar næstu fjögur árin þar til hann réð sig til Blönduóss, þar sem hann hefur verið sýslumaður frá árinu 2002. „Það var dásamlegur tími að vera með Strandamönnum á Hólmavík og þegar ég fór til Blönduóss sögðu gárungarnir að nú væri ég kominn með fínt útsýni yfir Strandirnar.“ Bjarni unir sér afar vel á Blönduósi. „Í tíð Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, 1986, var ákveðið að stofna hér innheimtumiðstöð sekta- og sakarkostnaðar, sem áður hafði verið hjá 26 embættum úti um allt land. Þetta var mikil hagræðingaraðgerð og í dag eru 24 stöðugildi hjá sýslumanninum á Norðurlandi vestra.“

Fjölskylda

Eiginkona Bjarna er Hrefna Teitsdóttir, grunnskóla- og leikskólakennari, f. 20.2. 1951. Foreldrar hennar eru hjónin Teitur Þorleifsson, f. 6.12. 1919, d. 30.5. 2003, kennari og skólastjóri, og Inga Magnúsdóttir, f. 6.3. 1916, d. 1.9. 1997, kennari í Reykjavík.

Barn Bjarna og Hrefnu er Ása Bjarnadóttir, f. 27.5. 1974. Hún hefur lokið prófi í söng- og upptökustjórn frá Berklee College of Music í Boston, er nú húsmóðir í Marcy í New York-ríki. Eiginmaður hennar er William J. Confer „Amos“, prófessor í tölvunarfræðum við Suny Polytechnic Institute í Utica, NY, í Bandaríkjunum. Dóttir þeirra og barnabarn Bjarna og Hrefnu er Inga Babette Confer, f. 2014.

Albróðir Bjarna er Stefán S. Stefánsson, f. 28.7. 1957, tónlistarmaður og skólastjóri Tónlistarskóla Árbæjar í Reykjavík. Systkini samfeðra eru Einar Stefánsson, f. 19.5. 1952, augnlæknir í Reykjavík; Pétur Stefánsson, f. 2.6. 1955, rekstrarhagfræðingur í Reykjavík, og Þórunn Stefánsdóttir, f. 8.10. 1958.

Foreldrar Bjarna eru Ása Bjarnadóttir, f. 10.8. 1927, d. 30.11. 2019, sjúkraliði í Reykjavík, og Stefán Pétursson, f. 9.4. 1926, d. 18.2. 1998, hæstaréttarlögmaður og aðstoðarbankastjóri í Landsbanka Íslands í Reykjavík. Þau gengu ekki í hjúskap.