Mögulega hefur skort á öflun upplýsinga um allar hliðar málsins, ekki síst að fá fram sjónarmið þeirra hagaðila sem málefni bakara varðaði.

Hvatinn að þessum pistli er skýrsla OECD um samkeppnismat á regluverki ferðaþjónustu og byggingariðnaðar sem kynnt var fyrir skömmu. Í grunninn mjög gott framtak enda reglubundnar greiningar og úttektir eitthvað sem ég hef vakið athygli á í fyrri pistlum. Ástæða þess að skýrslan varð hvati að þessum pistli var umræðan um hvernig skýrslan var unnin. Í skýrslunni sjálfri var tekið fram að hún væri unnin í náinni samvinnu við Samkeppniseftirlitið og önnur stjórnvöld, og fæli í sér ítarlega greiningu á gildandi regluverki á þeim sviðum sem áherslan beindist að. Við framkvæmd matsins hefði verið stuðst við leiðbeiningar og aðferðafræði OECD.

Ein af tillögum OECD var að afnema löggildingu bakara og ljósmyndara og það voru ekki síst þær tillögur sem vöktu hörð viðbrögð. Formaður Landssambands bakarameistara lýsti yfir óánægju sinni ekki síst með að OECD virðist ekki hafa kynnt sér aðstöðu bakaraiðnaðarins né aðgengi að námi og nemendasamningum þegar lagt var til að afnema löggildingu bakara. Formaðurinn vakti auk þess athygli á að það væri sérstakt að bakarar væru teknir fyrir í skýrslu um ferðaþjónustu og byggingariðnað og var svar ráðgjafa Samkeppniseftirlits frekar loðið og ósannfærandi. Það sem var trúlega alvarlegra í þessu sambandi var að formaðurinn sagði rangfærslur í skýrslunni þar sem því væri haldið fram að hvergi í Evrópu væri bakaraiðn lögvernduð, en hið rétta væri að hún væri lögvernduð í tíu Evrópulöndum. Að lokum áréttaði formaður að við vinnslu skýrslunnar hefði aldrei verið leitað til Landssambands bakarameistara eftir upplýsingum um starfsumhverfi iðnarinnar. Var því spurt um trúverðugleika skýrslu sem lagði til svo miklar breytingar á starfsumhverfi bakara.

Líkast til gerum við okkur öll grein fyrir þýðingu þess að vandað sé til verka. Að öll verkefni, stór sem smá, séu unnin af þeirri alúð, nákvæmni og fagmennsku sem verkefnið á skilið. Eðlilega er mismikið í húfi eftir því hvað verkefnið snýst um, en grundvallaratriði hverju sinni er að hvert verkefni fái þá áherslu og tíma sem það krefst, til að niðurstaðan verði vönduð og góð. Tvennt skiptir hér mestu máli.

Annars vegar byggist útkoma vinnu á persónulegum gæðum þeirra einstaklinga sem vinna verkið. Hvað þeir hafa til að bera sem verkefnið kallar á, hvort sem það er tæknileg verkkunnátta eða viðhorf einstaklinga til viðfangsefnisins. Það sem snýr beint að verkkunnáttu er oft á tíðum auðveldara að tryggja. Má þar nefna að fjármálastjóri þarf að kunna á hvern hátt hann metur fjárhagslega stöðu fyrirtækis. Kunna verklagið. Það sem snýr að viðhorfum einstaklings og einstaklingsbundnum eiginleikum er oft erfiðara við að tryggja góða vinnu. Hér spilar inn í almennt gildismat og afstaða einstaklings til hlutanna. Fjármálastjóri getur haft góða verkþekkingu, en skortir viðhorfsþáttinn sem birtist í óvandvirkni, slóðaskap og kæruleysi við að athuga hvort verkið sé vel unnið. Trúverðugleikinn er þá fljótur að fara.

Hins vegar byggist útkoma vandaðrar vinnu á að allir þættir sem hafa áhrif á góða og skynsamlega niðurstöðu séu þekktir og verkefnið hafi tekið tillit til þeirra. Í dæminu um fjármálastjórann þýðir þetta að hann eða hún þekki rekstur, tekjustreymi og kostnaðarmyndun fyrirtækisins. Til að átta sig á hvernig eigi að bera sig að við að meta fjárhagslega stöðu þarf að hafa yfirsýn yfir heildarstarfsemina og allar þær breytur sem mögulega þarf að taka tillit til eða hafa áhrif á fjármálin.

Nú þekki ég ekki verklag við vinnslu skýrslu OECD né veit hvaða upplýsingar lágu til grundvallar að úttekt og tillögum OECD um það sem sneri að bakaraiðninni. En út frá umræðunni að dæma virðist ekki hafa verið vandað nægilega vel til verka á öllum sviðum. Mögulega hefur skort á öflun upplýsinga um allar hliðar málsins, ekki síst að fá fram sjónarmið þeirra hagaðila sem málefni bakara varðaði. Það virðist hafa láðst að skoða stöðuna á næglega vandaðan hátt, bæði með því að skoða sögu og staðreyndir og hlusta á þá sem málefnið varðaði mest.

Lærdómurinn er sá, að í allri vinnu þarf að vanda til verka. Sjálfsögð sannindi sem byggjast á persónulegum gæðum einstaklinga sem vinna verkið, vinnubrögðum og viðhorfum, en ekki síður þeirri nálgun og verklagi að hlusta vel á þá hagaðila sem málefnið snertir.