Jónas Þór Þorvaldsson
Jónas Þór Þorvaldsson
Hlutafélag Heimild til að auka hlutafé verður borin upp á ný á hluthafafundi Kaldalóns næstkomandi mánudag vegna formgalla við fyrri samþykkt.

Hlutafélag Heimild til að auka hlutafé verður borin upp á ný á hluthafafundi Kaldalóns næstkomandi mánudag vegna formgalla við fyrri samþykkt.

Jónas Þór Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Kaldalóns, sem þróar fasteignir, segir heimildina munu veita félaginu svigrúm þegar tækifæri skapast á markaði til frekari uppbyggingar.

Láðist að tilkynna samþykkt

„Það var samþykkt að óska eftir þessari heimild við hluthafafund fyrir nokkrum mánuðum síðan, þ.e. að auka hlutaféð [um sex milljarða]. Sú heimild var samþykkt. Við erum með 3,6 milljarða í hlutafé og með aukningunni væri sex milljörðum bætt við það. Það láðist hins vegar að tilkynna niðurstöðu fundarins og því þarf að endurtaka þá staðfestingu,“ segir Jónas Þór og ítrekar að stjórn félagsins hafi engin áform um það í augnablikinu að auka hlutafé.

„Þetta er gert til að hafa heimildina frá hluthöfum ef til þess kemur að stór tækifæri skapast sem menn telja að kalli á aukið hlutafé,“ segir Jónas Þór.

Dregur hratt úr framboðinu

Hann segir aðspurður útlit fyrir að á næsta ári verði 30% minna framboð af nýjum íbúðum en í ár. Svo muni, að óbreyttu, ganga enn frekar á framboðið árið 2022.

Þá segir Jónas Þór félagið í viðræðum við verktaka um að hefja upp úr áramótum uppsteypu á fyrstu 70 íbúðunum af rúmlega 320 í Stefnisvogi í Vogabyggð. Það verkefni sé fullfjármagnað og óháð heimild til að auka hlutafé.

Enn fremur áformi félagið að hefja uppbyggingu 84 íbúða á Steindórsreit, gegnt JL-húsinu, í mars eða apríl. Hvað snertir Vesturbugt sé skipulagið enn í vinnslu. Nú sé gert ráð fyrir fleiri íbúðum á reitnum en minni. baldura@mbl.is