Aðalsalur Myndin er úr aðalsal Mannréttindadómstóls Evrópu.
Aðalsalur Myndin er úr aðalsal Mannréttindadómstóls Evrópu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Yfirréttur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) staðfesti í gær fyrri niðurstöðu dómstólsins í Landsréttarmálinu.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Yfirréttur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) staðfesti í gær fyrri niðurstöðu dómstólsins í Landsréttarmálinu. Yfirrétturinn var einróma um að brotið hefði verið gegn sjöttu grein mannréttindasáttmála Evrópu en dómstóllinn hafði áður klofnað í afstöðu sinni til málsins.

Í mars á síðasta ári komust fimm af sjö dómurum að þeirri niðurstöðu að íslenskra ríkið hefði gerst brotlegt og að skipun dómara við framangreindan rétt hefði brotið gegn mannréttindasáttmálanum. Tveir dómarar skiluðu sératkvæði og töldu ríkið ekki hafa gerst brotlegt.

Dómurinn varðaði mál Guðmundar Andra Ástráðssonar, sem stefnt hafði verið fyrir Landsrétt. Lögmaður hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, taldi að seta Arnfríðar Einarsdóttur sem dómara í Landsrétti hefði verið brot á lögum mannréttindasáttmálans. Var það rökstutt þannig að Arnfríður hefði verið ein fjögurra dómara sem skipaðir voru þvert á mat svokallaðrar hæfnisnefndar.

Hlaut ekki réttláta meðferð

Dómstóllinn taldi að brotið hefði verið gegn sjöttu grein sáttmálans, sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Í fyrri dómi dómstólsins var ekki tekin sérstök afstaða til þess hvort fyrrnefndur Guðmundur Andri hefði hlotið réttláta málsmeðferð fyrir íslenskum dómstólum.

Rök íslenska ríkisins voru á þá leið að þó einhverjir vankantar hafi verið á skipan dómara, væri ekki hægt draga í efa lögmæti skipanar dómarans í umræddu máli. Guðmundur Andri hefði þar af leiðandi hlotið réttláta málsmeðferð hjá dómstóli sem skipaður hafði verið lögum samkvæmt. Meirihluti dómara MDE taldi aftur á móti rök ríkisins ekki sannfærandi. Var það mat réttarins að ríkið hefði neitað Guðmundi Andra um rétt sinn til meðferðar hjá löglega skipuðum dómstóli.

Í kjölfar dómsins mun það falla á herðar íslenska ríkisins að draga nauðsynlegar ályktanir. Þannig er ríkinu gert að tryggja að sambærileg brot komi ekki upp aftur. Hins vegar á ekki að túlka dóm réttarins á þann veg að ríkinu sé skylt samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu að taka upp að nýju öll svipuð dómsmál.

Pólitískt at frá Strassborg

Þegar á framangreindu máli stóð var Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. Stóð hún fyrir tilnefningu 15 manns til að gegna embætti dómara, sem Alþingi staðfesti. Líkt og fyrr segir voru fjórir þessara dómara ekki tilnefndir af svokallaðri hæfnisnefnd, en hún hafði metið aðra hæfari.

Aðspurð sagðist Sigríður hafa átt von á niðurstöðu MDE. Sjálf var hún viðstödd málflutninginn í febrúar.

„Það sagði ég í ljósi þess að þetta er ekki hefðbundinn dómstóll í þeim skilningi sem við leggjum í það hugtak. Þarna er sami dómari að endurskoða eigin dóm og það er sá sem kemur frá Íslandi og hefur mest vægi í þessum dómi,“ sagði hún skömmu eftir að dómur hafði verið kveðinn upp.

Bætti hún við að um pólitískt at væri að ræða frá dómstólnum í Strassborg. „Það er að því leyti að dómstóllinn sjálfur er á einhverri vegferð við að víkka út gildissvið mannréttindasáttmálans. Þessi niðurstaða er auðvitað bara liður í þeirri vegferð.“

Niðurstaðan olli vonbrigðum

„Það virðist vera margt athyglisvert í þessum dómi og rökstuðningi með honum sem ber að skoða nánar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um dóm MDE í Landsréttarmálinu. Að hennar sögn er niðurstaðan vonbrigði. Þá hafi hún vonast til að fyrri úrskurði dómstólsins yrði snúið. „Þessi niðurstaða almennt veldur vissulega vonbrigðum, því við höfðum vænst þess að fyrri dómi yrði snúið við, til samræmis við okkar málflutning,“ segir Áslaug.

Sjálf kveðst hún munu rýna frekar í dóminn ásamt sérfræðingum. Þá segir hún að dómurinn haggi ekki sjálfkrafa úrlausnum eða túlkunum íslenskra dómstóla. Hins vegar verði niðurstaðan tekin mjög alvarlega.

Haggar ekki niðurstöðunni

• Bjarni Benediktsson segir að Hæstiréttur hafi þegar svarað stærstu lagalegu álitamálum um Landsréttarmálið Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir að engin ástæða sé til að hafa uppi stór orð um svartan dag í réttarsögunni vegna dóms MDE frá því í gær. Hann segir Hæstarétt þegar hafa svarað stærstu lagalegu álitamálunum að íslenskum rétti.

„Annars vegar í málum sem vörðuðu skaðabótaskyldu ríkisins gagnvart umsækjendum um stöðu dómara við Landsrétt. Hins vegar hafði verið dæmt um það, hvort skipan tiltekinna dómara sem ekki voru á lista hæfnisnefndar um 15 hæfustu hefði áhrif á niðurstöður þeirra mála, sem þeir höfðu dæmt,“ segir í færslu Bjarna á Facebook.

Um það atriði segi Hæstiréttur Íslands í maí 2018: „Er að þessu öllu virtu ekki næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að ákærði hafi, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum.“

Bjarni segi Hæstarétt, æðsta dómstól Íslands, hafa komist að skýrri niðurstöðu um þetta álitamál, fyrirfram hafi verið ljóst að það myndi ekki breytast með dómi MDE. Þannig segir Bjarni niðurstöður MDE ekki bindandi og ganga ekki framar íslenskum lögum.

„Í dóminum er komið aðeins inn á þetta atriði og bent á að ríki skuli, eftir atvikum, gera ráðstafanir til að bæta úr ágöllum í samræmi við niðurstöður dómsins. Í þessu tilviki sýnist mér, í þessu samhengi, ekki þurfa að gera neinar sérstakar ráðstafanir, m.a. vegna þess að þessi lög, þetta fyrirkomulag við skipan Landsréttar, var einskiptisatburður. Þó er sjálfsagt að dómsmálaráðuneytið leggi á þetta mat og bregðist við ef ástæða þykir til. Það breytir ekki hinu að ekkert fær haggað niðurstöðu Hæstaréttar sem rakin er að framan.“