Sól og skuggar Há og þétt byggð getur hindrað birtuna í að ná til nágranna á neðstu hæðum. Lýsingarfræðingur telur að endurskoða þurfi regluverkið.
Sól og skuggar Há og þétt byggð getur hindrað birtuna í að ná til nágranna á neðstu hæðum. Lýsingarfræðingur telur að endurskoða þurfi regluverkið. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Skuggavarp á dagvinnutíma eitt og sér er ekki nógu góð aðferð til að meta aðkomu dagsljóss að byggingum,“ segir dr. Ásta Logadóttir, verkfræðingur og lýsingarsérfræðingur. Hún hvetur til þess að skýrt verði kveðið á um rétt fólks til dagsbirtu og sólarljóss í byggingarreglugerð og skipulagi.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Skuggavarp á dagvinnutíma eitt og sér er ekki nógu góð aðferð til að meta aðkomu dagsljóss að byggingum,“ segir dr. Ásta Logadóttir, verkfræðingur og lýsingarsérfræðingur. Hún hvetur til þess að skýrt verði kveðið á um rétt fólks til dagsbirtu og sólarljóss í byggingarreglugerð og skipulagi.

Ásta var starfsmaður Álaborgarháskóla í Danmörku og vann m.a. ásamt fleirum tillögur að breytingum á byggingarreglugerð fyrir danskt ráðuneyti. „Verkefnið var að tryggja að næg dagsbirta kæmist inn í byggingar án þess að því fylgdi óþarfa byggingarkostnaður,“ sagði Ásta. „Þegar ég kom aftur til Íslands sá ég hvað við vorum aftarlega á merinni í þessum efnum.“

Hún segir að byggingarreglugerð hér kveði á um að flatarmál glugga skuli vera minnst 10% af gólffleti. Það eitt og sér er ekki nóg því svo margt annað hefur áhrif. Hún segir vandann aukast eftir því sem byggðin er þéttari og hærri. „Þá þarf að skoða hvað í umhverfinu hindrar aðkomu dagsljóssins; háar byggingar í nágrenninu, fjarlægð í næsta hús, svalir ofan við glugga eða veggir sem hindra ljósið? Það þarf að skoða aðstæður á hverjum stað,“ segir Ásta.

Við þéttingu byggðar og þegar byggt er ofan á hús þarf að gæta þess að ekki sé verið að taka dagsbirtu og skin sólar frá nágrönnum. „Það er ekki gott að íbúar missi kvöldsólina, þótt skuggavarp á dagvinnutíma sé í lagi. Kvöldsólin á Íslandi er eitt það dýrmætasta sem við eigum,“ segir Ásta.

Hún kveðst hafa áhyggjur af hugmyndum að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2040 sem nú eru til kynningar. Einkum snúa áhyggjur hennar að flokki 5-8 hæða húsa og að ekki sé tryggt að íbúar á neðri hæðum þeirra fái notið sólarljóss og nægrar dagsbirtu.

Íslendingar ættu að taka mið af hinum Norðurlandaþjóðunum. „Það væri skynsamlegt að skoða hvaða kröfur þeir gera í sínum byggingarreglugerðum og skipulagsmálum,“ segir Ásta. „Hjá okkur vantar að tryggja aðkomu dagsljóss í skipulaginu og að byggingarreglugerð tilgreini lágmarkskröfur til dagsbirtu.“ Hún telur það mistök að við höfum ekki fylgt fordæmi nágrannalanda okkar í þessum efnum og að hér sé réttur fólks til að njóta dagsljóss í íbúðum ekki tryggður eins og þar. „Ég hvet til þess að lýsingarmálin verði skoðuð og þess gætt að við gerum jafn vel í þeim efnum og nágrannaþjóðirnar. Við stöndum þeim langt að baki.“

Ásta segir að það þurfi að vera meiri tengsl á milli skipulags og byggingarreglugerðar svo hægt sé að tryggja lágmarkskröfur um að dagsljósið komist að gluggum íbúða og birtan komist inn um gluggana. Ekki sé hægt að vinna bara með annað hvort. Dagsljósið og ekki síst sólarljósið sé mönnum mjög mikilvægt.