Mikilvægt Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur eftir að Berglind kom boltanum í netið í gær. Reyndist það eina mark leiksins.
Mikilvægt Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur eftir að Berglind kom boltanum í netið í gær. Reyndist það eina mark leiksins. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undankeppni EM Kristján Jónsson kris@mbl.is Ísland lauk keppni í undankeppni EM kvenna í knattspyrnu með 1:0-sigri í Ungverjalandi í gær og árangur liðsins tryggir því keppnisrétt í lokakeppni EM.

Undankeppni EM

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ísland lauk keppni í undankeppni EM kvenna í knattspyrnu með 1:0-sigri í Ungverjalandi í gær og árangur liðsins tryggir því keppnisrétt í lokakeppni EM. Ísland keppir á EM sumarið 2022 en lokakeppninni var frestað um eitt ár þegar dagskrá Knattspyrnusambands Evrópu tók að riðlast vegna heimsfaraldursins. Ísland komst í lokakeppnina í fyrsta skipti árið 2009 og hefur fylgt því eftir þrívegis því Ísland var einnig með 2013 og 2017. Svíþjóð vann F-riðil Íslands í undankeppninni en Ísland hafnaði í 2. sæti og rakaði saman 19 stigum í átta leikjum. Þau lið sem unnu sína riðla fara beint í lokakeppnina og þrjú þeirra liða sem höfnuðu í 2. sæti. Þegar árangur þeirra níu liða sem hafna eða geta hafnað í 2. sæti í riðlakeppninni er borinn saman er öruggt að Ísland er eitt þriggja liða með bestan árangur.

Skagamaðurinn Jón Þór Hauksson hefur lent í alls kyns mótvindi eftir að hann tók við starfi landsliðsþjálfara en þó sérstaklega vegna kórónuveirunnar. Hann stóðst prófið og skilar liðinu í lokakeppnina en með brotinn fingur og mögulega háan blóðþrýsting vegna spennunnar á hliðarlínunni. Jón Þór sýndi vissan kjark þegar hann setti unga leikmenn í byrjunarliðið í haust. Með þessu hugsaði hann ef til vill einhverja leiki fram í tímann því nú er eitt og hálft ár í lokakeppnina. Á þeim tíma geta leikmenn í kringum tvítugt tekið miklum framförum. Leikmennirnir úr Breiðabliki voru til dæmis frekar litlar í sér gegn París St. Germain fyrir ári en hafa styrkt sig töluvert líkamlega á einu ári. Hversu góðar verða Sveindís, Alexandra, Agla María, Hlín, Karólína Lea og fleiri orðnar eftir eitt og hálft ár?

Íslenska landsliðið gerði það sem þurfti til að vinna leikinn í Ungverjalandi í gær en leikurinn reyndist ekki auðveldur fyrir íslenska liðið. Lið Íslands er sannarlega sterkara en lið Ungverjalands en ungverska liðið nálgaðist leikinn skynsamlega. Liðið var agað og skipulagið nokkuð gott sem gerði það að verkum að íslenska liðið þurfti að hafa verulega fyrir því að skora.

Hafa þurfti fyrir sigrinum

Íslenska landsliðið hefur verið í þeirri stöðu í rúman áratug að vera fyrir fram sterkari aðilinn í leikjum sem þessum, þar sem andstæðingurinn er í lægri styrkleikaflokki. Leikir þar sem til þess er ætlast að Ísland vinni. Takist það ekki er strembið að komast í lokakeppni EM eins og liðið hefur ítrekað gert. Stundum er bara meira en að segja það að landa sigri í slíkum leikjum og leikurinn í gær var dæmi um það.

Þar spilar sjálfsagt margt inn í. Leikmenn á Íslandi hafa ekki getað æft með eða spilað í langan tíma ef frá er talin tímabundin undanþága sem Valur fékk. Leikið var í miklum kulda í gær sem gæti hafa haft áhrif en svo hefur spennan sagt til sín þar sem úrslitin í riðlakeppninni voru um það bil að ráðast. Við þessar aðstæður er ágætt að geta teflt fram leikmönnum úr sömu liðunum. Leikmenn sem þekkjast það vel að það vegur aðeins upp á móti skorti á leikæfingu. Fjórar úr Blikum tóku þátt í leiknum og fimm úr Val auk þess sem Berglind Björg lék með þeim í Breiðabliki fyrr í sumar.

Markið létti pressunni

Íslenska liðið hefur oft leikið betri knattspyrnu en að þessu sinni. Um það verður örugglega ekki deilt en liðið hafði þó völdin á vellinum. Þegar fyrsta markið lét bíða eftir sér fannst manni örla á óþolinmæði og taugaspenna jókst. Ekki hafði svo sem gripið um sig örvænting en maður gat lesið út úr látbragði leikmanna að pirringurinn var að aukast. Við þær aðstæður var afskaplega gott að fá mark frá Berglindi Björgu og það létti pressunni mjög af leikmönnum Íslands sem sumar hverjar eru ekki mjög sjóaðar í alþjóðlegum keppnum.

Berglind afgreiddi boltann í netið af fagmennsku. Boltinn barst óvænt til hennar. Þegar boltinn skoppaði fyrir framan hana er ég nokkuð viss um að Berglind hafi í fyrstu ætlað að taka hann á lofti og hamra á markið. En með varnarmann í sér tók hún boltann þess í stað niður og skoraði með góðu skoti.

Berglind hefur víkkað sjóndeildarhringinn sem knattspyrnukona og leikið á Ítalíu og í Frakklandi. Mun það örugglega koma sér vel fyrir landsliðið. Þegar hún var hjá AC Milan síðasta vetur bárust af því fréttir með vorinu að hún hefði æft í bílakjallara í fjölbýlishúsinu þar sem hún bjó á meðan útgöngubann var í landinu. Eigum við ekki bara að segja að stífar æfingar Berglindar í bílakjallara í Mílanó hafi skilað sér fyrir Ísland í gær?

UNGVERJALAND – ÍSLAND 0:1

0:1 Berglind Björg Þorvaldsdóttir 65.

Ungverjaland : (4-3-3) Mark : Réka Szöcs. Vörn : Barbara Tóth (Virág Nagy 86), Boglárka Horti, Hanna Németh, Evelin Mosdóczi. Miðja : Petra Kocsán, Diána Csányi (Sára Pusztai 65), Anna Csiki. Sókn : Fanni Vágó, Bernadett Zagor.

Ísland : (4-5-1) Mark : Sandra Sigurðardóttir. Vörn : Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir. Miðja : Agla María Albertsdóttir (Svava Rós Guðmundsdóttir 61, Hlín Eiríksdóttir 77), Sara Björk Gunnarsdóttir, Elín Metta Jensen (Rakel Hönnudóttir 61), Alexandra Jóhannsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir (Barbára Sól Gísladóttir 90). Sókn : Berglind Björg Þorvaldsdóttir.

M

Sandra Sigurðardóttir

Glódís Perla Viggósdóttir

Ingibjörg Sigurðardóttir

Alexandra Jóhannsdóttir

Sveindís Jane Jónsdóttir

Berglind Björg Þorvaldsdóttir

Rautt spjald : Engin.

Dómari : Iuliana Demetrescu, Rúmeníu.

Áhorfendur : Ekki leyfðir.

* Barbára Sól Gísladóttir , leikmaður Selfoss, lék sinn fyrsta A-landsleik í gær þegar hún kom inn á sem varamaður seint í leiknum.

* Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði sjötta mark sitt fyrir A-landsliðið í gær en hún hefur leikið 48 A-landsleiki.

* Frekari staðreyndir um leikinn – sjá mbl.is/sport/fotbolti.

Vilja ná alvörumarkmiðum

• Sara Björk á leið á sitt fjórða Evrópumót • Góður tími til undirbúnings Undankeppni EM

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Þetta er bara geggjuð tilfinning. Þessi undankeppni er búin að taka sinn tíma. Eftir leikinn í dag hefði verið skemmtilegt að fagna en við þurftum að bíða í nokkra tíma þannig að við fögnum í kvöld.“

Þetta sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, eftir að það var orðið ljóst í gærkvöldi að liðið færi á sitt fjórða Evrópumót í röð.

Sara Björk hefur tekið þátt í öllum þremur Evrópumótunum til þessa og vill gera betur á því fjórða. „Við erum búnar að fara þrisvar áður á EM og í þetta skiptið viljum við ná einhverjum alvörumarkmiðum og gera eitthvað almennilegt á mótinu,“ sagði hún og bætti því við að þau markmið væru ekki endanlega orðin ljós. Farið yrði yfir þau í góðu tómi en að nú yrði fagnað.

EM kvenna á Englandi var frestað um eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins og fer því fram sumarið 2022. Sara Björk sagði að leikmenn landsliðsins settu það ekki fyrir sig.

„Það er löng bið en þetta eru bara kringumstæðurnar í heiminum í dag. Ég tel að við höfum verið með ótrúlega sterkan hóp í þessari undankeppni og við tökum næsta ár í góðan undirbúning.“

Hún sagði leikmenn mjög spennta fyrir mótinu á Englandi og það væri spennandi tilhugsun að spila á sögufrægum leikvöngum á Englandi. „Ég held að þetta verði geggjað mót,“ sagði Sara Björk að lokum.

Erfiður leikur

Hallbera Guðný Gísladóttir, vinstri bakvörður landsliðsins, var ánægð með sigurinn sem varð á endanum til þess að liðið tryggði sér sæti á EM.

„Ég er rosalega glöð með það að við náðum að sækja þessi stig af því að þær gerðu okkur erfitt fyrir,“ sagði hún að leiknum loknum.

„Þær voru rosalega agaðar og skipulagðar, vörðust mjög vel og við þurftum alltaf að vera á tánum. Það var erfitt að brjóta þær á bak aftur. Svo hittum við greinilega ekki alveg á okkar besta dag þannig að ég er mjög sátt með að við skyldum vinna þennan leik. Það var það sem við lögðum upp með,“ sagði Hallbera einnig.