[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var árið 2013 sem tveir félagar í Lundúnum ákváðu að taka stökkið út í djúpu laugina. Þeir ákváðu að stofna tímarit um sameiginlegt áhugamál sitt – léttvín.

Það var árið 2013 sem tveir félagar í Lundúnum ákváðu að taka stökkið út í djúpu laugina. Þeir ákváðu að stofna tímarit um sameiginlegt áhugamál sitt – léttvín. Útgáfan fékk hið mjög svo andvirðulega heiti Noble Rot , sem helst mætti útleggja á íslensku sem Rotnað með reisn .

Þegar þeir fengu fyrsta heftið í hendurnar, sem prentað var í 1.000 eintökum og kostaði 500 pund í framleiðslu, hefur þá ábyggilega ekki órað fyrir því að innan fárra ára yrðu þeir eins konar stofnun í vínmenningunni – ekki aðeins í höfuðborg Englands heldur um heim allan.

Síðan þá hefur hver snilldarútgáfan rekið aðra þar sem umfjöllun um víngerð og allt sem henni tengist er sett í afslappað og um leið nokkuð rokkað samhengi og þá sýna aðstandendur tímaritsins að markalínurnar milli listagyðjunnar og Bakkusar (bestu birtingarmyndar hans) eru oft og tíðum mjög óljósar. Um það vitnar forsíðan hverju sinni og hönnunin öll sem er töffaraleg í meira lagi. Eftirminnilegust allra er án efa forsíðan þar sem Anslem Selosse og sonur hans Guillaume skjóta gertappa hvor úr sinni kampavínsflöskunni (taka af geri).

Einstök staða

Staða Noble Rot er orðin slík að þeir geta komið ungum og upprennandi víngerðarmönnum á kortið hjá öllum þeim sem láta sig vandaða víngerð varða og þeir geta einnig ýtt undir að koma reynsluboltum í frægðarhöll minninganna með því að fjalla um þá og ævistarfið á þann hátt sem þeim einum er lagið.

En það er ekki aðeins fyrir tímaritið góða sem frægðarsól útgefendanna, þeirra Dans Keelings og Marks Andrews, hefur risið svo hátt. Þeir tóku nefnilega upp á því að stofna Noble rot Wine Bar & Restaurant við Lamb's Conduit Street í Bloomsbury árið 2015. Hefur staðurinn síðan rakað að sér verðlaunum sem besti veitingastaður Bretlandseyja og einnig hlotið einróma lof og vegtyllur vegna sérlega girnilegs og vandaðs vínseðils. Í september síðastliðnum færðu þeir félagar út kvíarnar – á undarlegum tíma – og opnuðu annan sambærilegan stað í Soho undir sama nafni. Í millitíðinni stofnuðu þeir svo víninnflutningsfyrirtæki sem nefnist Keeling Andrew & Co en því er ætlað að miðla hágæðavínum á bari, veitingahús og til sjálfstæðra vínsala á Bretlandseyjum. Flest stefnir í að fyrirtækið verði stórveldi á sínu sviði eins og annað sem þessir drengir koma að.

Og nú er það enn eitt „kraftaverkið“ sem þeir ýta úr vör. Bókin Wine from another Galaxy kom út hjá forlaginu Quadrille fyrr á þessu ári og hefur hreinlega gert allt vitlaust og ekki að ástæðulausu.

Náskylt tímaritinu góða

Verkið, sem er náskylt tímaritinu fyrrnefnda, er töffaralegt og fer ótroðnar slóðir. Það er hins vegar nokkuð mikið að vöxtum og telur ríflega 350 blaðsíður.

Uppbyggingin er mjög aðgengileg og byggist í grunninn á tveimur meginköflum. Í fyrsta lagi umfjöllun um vín frá flestum hliðum og er henni skipt upp í marga stutta sjálfstæða kafla. Fjalla þeir um allt frá víngerðinni sjálfri, eðli helstu þrúgna, hernig best sé að velja það, kaupa það, geyma það, njóta þess og jafnvel selja það. Í öðru lagi segir í raun frá ferðalagi þeirra félaga til helstu vínræktarsvæða Evrópu og liggur leiðin allt til Tenerife, um Búrgúndí, Chablis, Champagne og allt austur til Þýskalands. Í eins konar eftirmála gefa þeir upp 100 uppáhaldsvínin sem þeir muna eftir og er þar ekki um neinn smálista að ræða.

Í verkinu tekst þeim að fjalla um vínið á þennan skemmtilega og afslappaða hátt og einhvern veginn eins og það sé frekar verið að tala um malarhjólreiðar og bjórsmökkun en hina hátimbruðu menningu sem umlykur framúrskarandi víngerð í Evrópu.

Einstök efnismeðferð

Af þeim sökum er verkið þarft enda færir það vínumfjöllun nær venjulegu fólki, opnar þennan heim fyrir ungu fólki sem kann að meta hispursleysi höfundanna. En skrifin eru líka mergjuð og færa efnistökin inn á annað og meira svið. Þeim tekst með töfrandi hætti að draga mann inn fyrir leyndarhjúpinn sem oftast umlykur þennan heim sem tekur okkur flest ævina alla að verða fullnuma í.

Óvænt bókabúð

Bókin hefur ekki verið á boðstólum íslenskra bókabúða en það var ánægjulegt að rekast á hana í hillunum hjá Arnari Sigurðssyni í Santé þegar ég átti þar leið hjá um daginn. Mér fannst hann reyndar með of mörg eintök fyrir einn mann í hillunni en veit nú svosem að hann á það til að gerast helst til stórtækur á innkaupasviðinu. En þá kom það mér skemmtilega á óvart að hann er orðinn bóksali – býður verkið á 7.000 krónur til áhugasamra. Það er gott verð og uppátækið er það líka – ekki síst frá manni sem hefur spáð dagblaðaprenti og bókaútgáfu dauða allt frá því ég hitti hann fyrst. Batnandi mönnum er best að lifa. ses@mbl.is