Sóttvarnaráðstafanir haldast óbreyttar til 9. desember nk. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá þessu í gær en reglugerðin er í fullu samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.

Sóttvarnaráðstafanir haldast óbreyttar til 9. desember nk. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá þessu í gær en reglugerðin er í fullu samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Þar með er ljóst að áfram verður tíu manna samkomubann í gildi auk takmarkana á skólastarfi. Í tilkynningu sem birt var á vef Stjórnarráðsins kemur fram að upphaflega hafi sóttvarnalæknir lagt upp með varfærnar tilslakanir á gildandi sóttvarnalögum. Hins vegar hafi tillögurnar verið endurskoðaðar með hliðsjón af þróun faraldursins.

Alls greindust 18 kórónuveirusmit innanlands í fyrradag. Þar af voru sjö utan sóttkvíar, eða rétt um 38%. Nú eru 689 í sóttkví og 898 í skimunarsóttkví. Einn sjúklingur lést á Landspítala vegnu kórónuveiru og því eru alls 27 látnir úr sjúkdómnum hér á landi. Langflestir þeirra sem látist hafa í þriðju bylgju faraldursins smituðust í hópsýkingu tengdri Landakoti.

Óánægja með ákvörðunina

Að sögn Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra var hæfilegt að halda sóttvarnaaðgerðum óbreyttum í viku til viðbótar. Þannig sé jafnframt hægt að endurmeta stöðuna reglulega. Spurð sagðist hún ekki finna fyrir auknum þrýstingi um afléttingar umfram það sem áður var. „Mér finnst þó skiljanlegt að það færist meiri þungi í vangaveltur og efasemdir eftir því sem faraldrinum vindur fram,“ sagði Svandís.

Mikil reiði er innan íþróttahreyfingarinnar með ákvörðunina í gær. Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfuknattleik, sagði m.a. við mbl.is að enginn skilningur væri á íþróttum innan raða Vinstri-grænna.

Hreyfðu sig minna en áður í fyrstu bylgju faraldursins

• Minna borðað af ávöxtum • Munur á körlum og konum Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þegar fyrsta bylgja kórónuveirunnar gekk yfir í mars og apríl sl. virðist hún hafa haft neikvæð áhrif á bæði hreyfingu og mataræði fullorðinna Íslendinga. Þetta má lesa út úr reglulegum mælingum landlæknisembættisins á heilsuhegðun og líðan Íslendinga, sem greint er frá í Talnabrunni landlæknis.

„Niðurstöðurnar benda til að fyrsta bylgja Covid-19, í mars-apríl 2020, hafi almennt haft merkjanleg, neikvæð áhrif á hreyfingu fullorðinna. Á heildina litið eru vísbendingar um að hlutfallslega fleiri fullorðnir hafi stundað litla eða enga miðlungserfiða og erfiða hreyfingu í mars-apríl árið 2020 heldur en á sama tíma árið 2019,“ segir þar.

Í ljós kemur að í mars og apríl fjölgaði þeim hlutfallslega frá árinu á undan sem sögðust hreyfa sig lítið sem ekkert. Tæplega fjórðungur fullorðinna stundaði miðlungserfiða og erfiða hreyfingu í eina klukkustund eða minna á viku í fyrstu bylgju faraldursins samanborið við 20% á síðasta ári. Þá eru vísbendingar um að þeim hafi fjölgað í öllum aldurshópum sem stunduðu nánast enga miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í mars og apríl. Kannanir á síðasta ári og í janúar-febrúar sl. sýndu að konur voru líklegri en karlar til að hjóla eða ganga í vinnu eða skóla. Þetta snerist við í mars og apríl þegar margir þurftu að vinna heima vegna samkomutakmarkana. Þá fækkaði konum sem ferðuðust með þessum hætti eða úr 23% í fyrra í 13,5% en hlutfall karla sem hjóluðu eða gengu breyttist nánast ekkert milli ára.

Könnun á mataræði Íslendinga frá janúar til ágústloka bendir til að Íslendingar hafi borðað minna af ávöxtum og berjum en á sama tíma í fyrra og dró sérstaklega úr daglegri neyslu ávaxta og berja meðal karla í fyrstu bylgju faraldursins. Hins vegar dró ekkert úr neyslu á grænmeti miðað við neysluna í fyrra. omfr@mbl.is