Flugferðir og bensín hafa lækkað í verði, enda hefur eftirspurn minnkað.
Flugferðir og bensín hafa lækkað í verði, enda hefur eftirspurn minnkað. — Morgunblaðið/Eggert
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Verðbólgumælingar á tímum kórónuveirunnar, bæði hér á landi og á evrusvæðinu, eru snúnari en í venjulegu árferði vegna breytinga á neyslu.

Líkt og gerst hefur hér á landi hafa ýmsar vörur og þjónusta sem vinsælar hafa orðið á evrusvæðinu í kórónuveirufaraldrinum hækkað hraðar í verði en verðbólgutölur segja til um, t.d. matvara og húsbúnaður ýmiss konar. Á móti hafa vörur sem ekki er eins mikil eftirspurn eftir lækkað töluvert í verði, vörur eins og flugfargjöld og bensín.

Á evrusvæðinu byrjaði að mælast verðhjöðnun í ágúst sl., og í grein í breska blaðinu Financial Times í gær er því velt upp hvort verðbólgan á svæðinu sé mögulega vanmetin. Ef hún væri reiknuð öðruvísi væri mögulega smávægileg verðbólga í stað verðhjöðnunar.

Bent er á að fyrrnefndar vörur, eins og flugfargjöld og bensín, sem hafa lækkað í verði um á annan tug prósenta, sé að keyra verðbólguna niður, á tíma þar sem mun færri eru að kaupa viðkomandi vörur og þjónustu.

Verðbólgumæling á evrusvæðinu byggir á því hvaða vörur og þjónustu og í hvaða magni fólk keypti þær vörur árið 2018 og endurspeglar því ekki breytingar á hegðun neytenda sem orðið hafa í faraldrinum nú í ár.

Vinna náið saman

Hagstofa Íslands vinnur náið með hagstofum á evrusvæðinu, og eru aðgerðir að miklu leyti samræmdar. Segir Hjalti Óskarsson, sérfræðingur á vísitölusviði, að Hagstofan hafi í vor birt svör við sömu álitaefnum og viðruð eru í greininni, og þau séu enn í gildi.

Í svari við spurningunni: Hvernig er brugðist við ef verslun er lokað?, sem gæti átt við um það þegar flugfélög fljúga ekki eins og nú er að gerast, segir á vef Hagstofunnar: „Ef verslun lokar varanlega eru notaðar verðbreytingar á vörum í þeim verslunum sem eftir eru í úrtakinu. Hagstofan leitast við að bæta úrtakið jafnóðum og búðir eða vörur detta út.“

Í svarinu segir einnig að Hagstofan líti svo á að ástandið, eins og það sem nú hefur skapast í faraldrinum, sé tímabundið og gengur út frá því að verslanir og fyrirtæki verði opnuð á ný að því loknu. Því verði ekki farið í vinnu við að skipta út búðum í úrtaki nema sýnilegt sé að þær verði ekki opnaðar á ný.

Þá segir í svari við því hvort það valdi bjaga á vísitölu neysluverðs að fjarlægja ekki vogir á neyslu sem hverfur vegna Covid-19, að bjagi af völdum samdráttar í neyslu geti til skamms tíma leitt til vanmats á verðlagi en fari neyslan aftur í sambærilegt horf sé slíkur bjagi óverulegur.