— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Með samruna Kviku og TM verður til stórt fjármálafyrirtæki með efnahagsreikning sem getur þjónað stærri viðskiptavinum en fyrrnefnda fyrirtækið hefur verið í færum til fram til þessa.

Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Með samruna Kviku og TM verður til stórt fjármálafyrirtæki með efnahagsreikning sem getur þjónað stærri viðskiptavinum en fyrrnefnda fyrirtækið hefur verið í færum til fram til þessa. Marinó Örn Tryggvason segir að sameiningin feli í sér náttúrulega áhættudreifingu sem muni styðja við hagstæða fjármögnun félagsins til frambúðar.

Það má segja að fjármálafyrirtækið Kvika beri nafn með rentu. Félagið varð til úr samruna MP Banka og Straums og síðan hefur það hreyft sig hratt á markaði og vaxið stöðugt – bæði innri vexti og ytri þar sem smærri fjármálafyrirtæki hafa verið keypt og sameinuð inn í reksturinn. Nú þegar tilkynnt hefur verið um samruna Kviku og TM tekur félagið á sig enn nýja mynd og stærri.

„Frá því að ég kom til Kviku fyrir rúmum þremur árum höfum við sameinast Virðingu og keypt fyrirtæki á borð við Júpíter, Gamma og Öldu sjóði. Þá erum við á lokametrunum á væntanlegum kaupum á Netgíró svo dæmi sé nefnt,“ segir Marinó Örn þegar hann rifjar upp atgang síðustu ára.

„Samruninn nú er annars eðlis. Markaðsvirði TM hefur verið hærra en Kviku en félögin eru þó á flesta mælikvarða svipað stór. TM hefur þróast með áhugaverðum hætti með kaupunum á fjármögnunarfyrirtækinu Lykli. Það er sá hluti starfseminnar sem hefur verið í ætt við þá bankastarfsemi sem Kvika hefur sinnt og það verður áhugavert að tvinna þessa starfsemi saman, verði samruninn samþykktur.“

Nýjar víddir í starfseminni

Marinó viðurkennir hins vegar að tryggingastarfsemin slái nokkuð nýjan takt.

„Fram að þessu hefur áherslan verið sú að auka hlutdeild þóknanatekna í starfseminni hjá Kviku og ná ákveðinni stærðarhagkvæmni á því sviði. Það er byggt á því mati okkar að hér eins og erlendis muni eignastýring og fjármögnun gegnum hana vinna á í samanburði við hefðbundna bankastarfsemi. Samruninn nú er hins vegar af allt öðrum toga. Í fyrsta lagi er umfangið miklu meira og hér er umfangsmikil lánastarfsemi og tryggingastarfsemin. Núna aukum við vægi útlánastarfseminnar til muna. Það koma tvenns konar tekjustraumar úr þessari átt. Auknar vaxtatekjur og tekjur af tryggingum. Þeim má aftur skipta í tvennt, þ.e. iðgjaldatekjur og fjárfestingartekjur sem eru órjúfanlegur þáttur tryggingastarfseminnar.“

Hvað er unnið að ykkar mati með því að stækka lánabók bankans?

„Það hefur verið einn af veikleikum Kviku að við höfum verið með tiltölulega lítinn efnahagsreikning miðað við stóru bankana. Lánabókin hefur verið í kringum 30 milljarðar í nokkur ár. Það hefur því oft leitt til þess að öflug fyrirtæki sem við höfum unnið með og stutt við hafa vaxið upp úr bankanum. Þau þurfa hreinlega á ákveðnum tímapunkti stærri fyrirgreiðslu en við höfum getað veitt. Með sameiningunni nú eigum við að geta sinnt nánast öllum íslenskum fyrirtækjum, sem ekki sækja fjármögnun erlendis, þá þjónustu sem þau þurfa á að halda. Það er breytt staða. Samruninn mun því stækka markaðinn fyrir okkur og auka samkeppni á fjármálamarkaðnum.“

Hvaða stærðir ertu að tala um þegar þú vísar í aukna útlánagetu?

Lagalegu mörkin sem okkur eru sett eru mun hærri en þau mörk sem við höfum sjálf sett. Í grófum dráttum má þó segja að við höfum ekki verið með mörg útlán yfir milljarði króna. Það er auðvitað stórt í íslensku samhengi en það eru til fyrirtæki sem þurfa meiri fyrirgreiðslu en sem þessu nemur.

Fleiri stór lán möguleg

Mun þá tvöföldun efnahagsreikningsins gera ykkur kleift að lána einstaka fyrirtækjum tvo milljarða króna?

„Og í raun meira en það. En í grunninn er þetta þannig að við getum veitt fleiri stór lán. Nú munum við sjaldnar sjá efnahagsreikning bankans verða takmarkandi þátt í að sinna stærri fyrirtækjum. Þetta þýðir að fyrir þá sem eiga í viðskiptum við fjármálafyrirtæki verða fleiri kostir í stöðunni og þar með virkari samkeppni.“

Má segja sem svo að sameining TM og Kviku hafi verið fyrirsjáanlegt eða sjálfsagt skref í framþróun fjármálamarkaðarins hér á landi?

„Ég tel að þetta sé jákvætt skref en ekki sjálfsagt. En ef við horfum aðeins til baka má sjá að þessi leið er skynsamleg. Kvika var eitt af fáum félögum sem skilaði hagnaði á fyrsta ársfjórðungi. Það er með fjóra megintekjustofna. Í fyrsta lagi er það eignastýringin, sem er stærst og er hlutfallslega lítið háð hagsveiflunni. Þá er það lánastarfsemin sem er mun háðari henni, einkum þegar verða útlánatöp. Svo er það verðbréfamiðlunin sem er lífleg bæði þegar gengur vel en einnig þegar mikil óvissa er uppi. Í þriðja lagi er það fyrirtækjaráðgjöfin. Hún getur tekið á sig ákveðið högg þegar illa gengur en hún er mjög öflug bæði þegar er mikill gangur í hagkerfinu en einnig þegar endurskipulagning í kjölfar áfalla er í gangi. Þetta eru breiðir tekjugrunnar og reksturinn er tiltölulega stöðugur. Það sem mun gerast núna ef samruninn verður samþykktur er að tryggingastarfsemin bætist við. Sögulega séð er hún andstæð hagsveiflunni, þ.e. gengur betur þegar hægir á í hagkerfinu en tjón aukast því miður almennt mikið þegar hagkerfið er á mikilli siglingu. Með tryggingastarfseminni verður náttúruleg dreifing áhættunnar meiri og það ætti að tryggja meiri stöðugleika í afkomunni hjá okkur. Það ætti aftur að gera okkur kleift að fá betri kjör á okkar fjármögnun sem síðan gerir okkur samkeppnishæfari á markaði þar sem við getum boðið betri kjör til okkar viðskiptavina.“

Er markmið sameiningarinnar í grunninn að geta boðið betri kjör á markaði?

Í grunninn eru hlutirnir einfaldari en maður telur sér oft trú um. Eina hlutverk fjármálakerfisins, hvort sem í hlut eiga lífeyrissjóðir, bankar, tryggingafélög eða verðbréfamiðlarar, er að miðla fé. Þessi miðlun á sér annaðhvort stað milli aðila eða í tíma. Eignastýringin snýst um að spara, fresta neyslu eða fjárfestingu en með lánveitingum er verið að flýta neyslu eða fjárfestingu. Hlutverk okkar sem störfum í fjármálakerfinu er að hanna kerfið þannig að það uppfylli þetta eina hlutverk sitt með sem hagkvæmustum hætti. Það er misskilningur að fjármálakerfið sé til fyrir sjálft sig. Það hefur aðeins það hlutverk að þjóna viðskiptavinum á sem hagkvæmastan hátt og það hefur verið meginstefið hjá okkur að byggja upp fjármálafyrirtæki sem getur sinnt þessu með sem bestum hætti fyrir íslenskt samfélag.“

Stærðarhagkvæmnin kemur víðar fram

Þið segið að stærri lánabók og sameinuð geri annað og meira en að auka útlánagetu sameinaðs félags. Fjármögnun stærra félags verður einnig hagfelldari?

„Ef þú horfir á reikninga Lykils þá sést að fjármögnunarkostnaður hans er mun hærri en Kviku. Við teljum að við getum tryggt starfsemi Lykils sömu kjör á markaði og Kvika hefur nú og langstærstur hluti þeirrar hagræðingar sem við gerum ráð fyrir í okkar plani kemur til vegna þessa. Í reikningum Kviku sést að bankinn er yfirfjármagnaður og það fjármagn er ódýrara en það sem nú er nýtt til fjármögnunar Lykils. Við eigum svo eftir að sjá hvort þetta fjármagn verði notað til þess að greiða af skuldbindingum Lykils eða hreinlega að greiða þær upp í einhverjum tilvikum.“

En varla ræður fjármögnunarþátturinn einn för. Er ekki tekjusamlegð af því að splæsa þessum stóru félögum saman?

„Við höfum ekki lagt mat á tekjusamlegðina af völdum samrunans. Það kann vel að vera að hann verði einhver og þá er það jákvætt fyrir hluthafana og viðskiptavinina. Það er hins vegar fugl í skógi. Við höfum í fyrri sameiningum lagt áherslu á að segja hluthöfum frá því sem við getum haldið fram um hverju þær skili og síðan höfum við upplýst um hvernig til hefur tekist. Í þessu máli höfum við lagt höfuðáherslu á kostnaðarsamlegðina og við höfum útlistað hvernig við teljum hana munu þróast og þar er langstærsti liðurinn hagstæðari fjármögnun á starfsemi Lykils.“

Stærra félag með meiri slagkraft

En gerið þið ráð fyrir að þau fjármögnunarkjör sem Kvika býr við núna muni ekki breytast, þrátt fyrir stækkun efnahagsreikningsins og aukna áhættudreifingu í starfseminni?

„Í matinu sem við höfum gefið út þá erum við ekki að gera ráð fyrir betri fjármögnunarkjörum en þeim sem Kvika er með nú þegar. Við erum hins vegar að byggja upp breiðari rekstrargrunn og almennt ætti það að gera það að verkum að markaðurinn vildi fjármagna bankann með hagkvæmari hætti. Ef það verður reyndin verður það einfaldlega bónus.“

Útilokar ekki uppsagnir starfsfólks

Þið minnist ekki á kostnaðarsamlegð sem fælist í fækkun starfsfólks. Er ekki búið að leggja mat á rekstrarhagkvæmni í þessu tilliti. Væri ekki undarlegt ef það yrði ekki lendingin?

„Í matinu sem við gáfum út er langstærstur hluti hagræðingarinnar fjármögnunarkostnaður en ekki allur. Hún felst líka í samnýtingu tölvukerfa, húsnæðis og í sameinuðu félagi sem telur 320-330 starfsmenn er einhver skörun á verkefnum en hún er fremur lítil að okkar mati. Ég segi ekki að það verði engar uppsagnir en ég held að það verði alltaf innan eðlilegra marka miðað við hversu stórt fyrirtækið er. Hitt er mikilvægt að hafa í huga að félagið er með litla markaðshlutdeild á flestum sviðum nema í skaðatryggingum. Ef við sækjum fram og náum að láta tekjur vaxa, sem er markmiðið, þá þurfum við fólk til þess að vinna að því.“

Þú nefnir húsnæðismálin. Þið eruð með starfsemi Kviku í Höfðatorgi en TM er með stórt húsnæði í Síðumúla. Ætlið þið undir sama þak?

„Nú erum við að setja af stað vinnuhópa til þess að fara ofan í stór mál varðandi samrunaferlið. Þar eru húsnæðismálin meðal annars undir. Það hefur ekkert verið ákveðið í þessum efnum en mín skoðun er sú að ef við ætlum að byggja upp öflugt sameinað félag sé best að gera það undir einu þaki.“

Nýjar höfuðstöðvar inni í myndinni

Og ætlið þið þá að flytja starfsemi TM í Höfðatorg?

„Það er einn möguleikinn sem við höfum og erum með forleigurétt að meira rými hér í húsinu. En við erum að skoða alla möguleika og höfum t.d. ekki útilokað þann kost að reisa einfaldlega nýjar höfuðstöðvar. Þetta mun hins vegar allt koma í ljós síðar og að því gefnu að hluthafar félaganna, FME og Samkeppniseftirlitið samþykki samrunann.“

Hvaða stöðu verðið þið í gagnvart stóru viðskiptabönkunum þremur að samrunaferlinu loknu?

„Það sem sker okkur úr á markaðnum er að stóru viðskiptabankarnir eru allir reistir á grunni miklu stærri fyrirtækja sem voru með mikla erlenda starfsemi. Það er ekki hægt að taka svo djúpt í árinni að þeir séu af sögulegum ástæðum undir alþjónustukvöð en það er mjög erfitt fyrir þá að fækka útibúum og laga reksturinn að breyttum veruleika. Okkar forréttindi og forskot um leið er að við getum mótað fyrirtækið algjörleg að þörfum hagkerfisins. Sniðið starfsemina að veruleikanum eins og hann blasir við í dag.“

En eruð þið ekki að færast nær og nær því að sinna öllu því sem hinir bankarnir gera? Getið þið dregið skýra línu í sandinn eða þurfið þið að fara að bjóða upp á húsnæðisfjármögnun og annað slíkt líkt og hinir bankarnir?

Það getur vel verið að við munum gera það en við þurfum ekki að gera allt það sem stóru bankarnir gera. Við ætlum að veita þjónustu þar sem við getum raunverulega keppt og sníða viðskiptamódelið okkar eftir því. Þar kemur fjártæknin mjög við sögu. Margir halda að fjártækni sé eitthvert svakalega flókið fyrirbæri en hún er það í raun ekki. Hún er í raun aðeins leið til þess að nýta tæknina til að einfalda fjármagnshreyfingar. Þegar við lítum til þeirra sem hafa náð raunverulegum árangri í fjártækni þá eru það gríðarlega vel fjármögnuð risafyrirtæki í tæknigeiranum á borð við Google og Apple og svo fjármálafyrirtækin sem eru með alla fjármálainnviðina til staðar til þess að ráðast í innleiðingu fjártæknilausna. Það er erfitt fyrir nýja aðila að bjóða upp á góða þjónustu á þessu sviði. En við getum það og við hyggjumst nota fjártæknina til þess að bjóða upp á snjallar lausnir sem eru hagkvæmar fyrir okkar viðskiptavini. Við erum með nokkur slík mál til skoðunar á hverjum tíma og stefnum að því að ýta nýjungum á þessu sviði úr vör á 12 til 18 mánaða fresti.“

Stöðug upplýsingagjöf var styrkur

Hluthafar TM eignast meirihluta í sameinuðu félagi. Var það einfaldlega niðurstaðan út frá skráðu markaðsvirði félaganna eða voru aðrir útreikningar að baki þeirri niðurstöðu?

„Það einfaldar mjög ferlið að félögin eru bæði skráð á markað. Þau eru undir stífum kröfum um upplýsingagjöf og verðmyndunin á þeim er mjög virk. Í stórum dráttum er það markaðsvirðið sem ræður þessari skiptingu. Það verður líka að hafa í huga að hvort félag um sig er með nokkur hundruð hluthafa og nokkrir tugir prósenta hlutafjár í hvoru félagi fyrir sig eru í eigu sömu aðila.“

Sér ekki augljós tækifæri til sameininga

Eruð þið að horfa til fleiri sameininga á komandi misserum?

„Ef ég verð að svara þessu beint þá verð ég að viðurkenna að það eru ekki nein stór augljós tækifæri.“

Nú er hagkerfið í dýpri lægð en dæmi eru um. Það er varla uppörvandi að stýra banka í slíku ástandi?

„Fyrir tveimur þremur mánuðum hafði ég verulegar áhyggjur af hagkerfinu, ekki síst atvinnuleysinu og stöðu margra atvinnugreina. Það er óvissan sem hefur ráðið för. Núna sjáum við hins vegar að bóluefnin eru á leiðinni og það gerir það að verkum að við sjáum ljós við enda ganganna. Við mat á stöðunni tel ég best að leita vísbendinga um hvernig hlutirnir muni þróast fram í tímann. Á húsbyggingamarkaði sjáum við það t.d. á verkefnastöðu arkitekta. Þeir eru fremstir í framleiðsluferlinu á þeim markaði. Ef það er mikið að gera hjá þeim þá er mikið í pípunum á byggingamarkaðnum.

Og nú sjáum við á síðustu vikum mikla breytingu innan bankans. Þar hefur orðið gjörbreyting síðustu daga. Þar er ég að vísa í möguleg verkefni sem eru í pípunum á vettvangi fyrirtækjaráðgjafarinnar og eins sjáum við aukna eftirspurn eftir lánsfjármögnun sem benda í sömu átt. Ég hef persónulega aldrei upplifað eins mikinn viðskiptavilja hjá mörgum og við vitum að það mun að lokum leiða til aukinna umsvifa, skapa hagvöxt og þar með fjölga störfum á ný. Við erum sannarlega á mjög alvarlegum stað núna en ef við horfum aðeins fram úr því þá er ástæða til þess að vera mjög bjartsýnn. Hlutirnir munu breytast til betri vegar hratt.“

Gerist það strax á næsta ári?

„Já ég held að á síðari hluta næsta árs munum við sjá mjög hraðan viðsnúning. Það má í raun líkja þessu við ástandið síðastliðið sumar. Þá kláraðist allt pallaefnið í byggingavöruverslununum því allir voru að vinna í garðinum. Núna ætla mjög margir að taka þátt í endurreisn hagkerfisins og það mun tryggja þennan viðsnúning. Tækifærin eru mörg.“

Minnka þarf óvissuna sem mest

En hvað þarf að gera nú meðan við erum á þessum viðkvæma stað á vaðinu?

„Núna skiptir öllu máli að minnka óvissuna eins mikið og mögulegt er. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram hafa komið í máli framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins um þetta efni. Fyrirsjáanleiki í aðgerðum gerir fyrirtækjum og einstaklingum kleift að taka réttar ákvarðanir. Það þarf að halda áfram að sinna sóttvörnum, þær skipta mjög miklu máli en ef fólk veit hvað ákvarðanir yfirvalda fela í sér og til hvers það leiðir ef við náum ákveðnum árangri þá er það mikils virði. Það er ekki hægt að stýra fyrirtækjum og hvað þá heilu hagkerfi á grundvelli minnisblaðs sem gildir í tvær vikur. Ef við aukum fyrirsjáanleikann núna þá er ég sannfærður um að sagan muni dæma þær aðgerðir sem gripið hefur verið til með jákvæðum hætti. Það hefur gengið frábærlega að halda smitum niðri og ef okkur tekst að undirbúa eftirleikinn vel þá mun þetta reynast mikill sigur fyrir samfélagið.“

Vextir muni haldast lágir lengi

Vaxtastigið er sögulega lágt í hagkerfinu og verið er að veita gríðarlegu magni lánsfjár út í kerfið á breytilegum vöxtum. Er að byggjast upp kerfisáhætta vegna þessa ef vextir taka að hækka á ný?

„Það hefur mikil breyting orðið í því hversu mikið er fjármagnað í breytilegum og óverðtryggðum vöxtum. Hér áður voru fólk og fyrirtæki ónæmari fyrir vaxtabreytingum vegna verðtryggingarinnar. Vaxtabreytingar nú munu hafa töluvert mikil áhrif – bæði til hækkunar og lækkunar. En ef við skoðum söguna þá þekkjum við mörg dæmi um að fjárhirslur hins opinbera hafi verið opnaðar upp á gátt. Þetta hefur reyndar oftast gerst á stríðstímum. Þessar aðstæður fela ekki í sér endalok sögunnar en þetta þýðir að ríkin eru flest hver gríðarlega skuldsett. Út úr því ástandi eru tvær leiðir. Annars vegar að borga ekki skuldirnar og það er leið sem enginn vill fara. Hitt er að vaxa út úr vandanum. Þá þarf vöxturinn að vera meiri en sem nemur vaxtakostnaðinum. Í hagvexti minnkar vandi ríkjanna og það verður mikill þrýstingur á það í þessu ástandi að vextir haldist lágir.“

En er það ekki mótsögn í sjálfu sér að spá þenslu og mikilli framleiðsluaukningu en að vextir muni haldast lágir?

„Hagstjórn er alltaf erfið og flókið verkefni, ekki síst í óvissu. En við erum í nokkuð sterkri stöðu. Við fórum inn í þessar aðstæður með litlar skuldir og þjóðin á gjaldeyri. Við getum hins vegar ekki horft einangrað á vaxtastigið hjá okkur. Staðan erlendis er víðast hvar mun verri en hér og þar munu vextir haldast lágir lengi. Það þarf því ekki mjög háa vexti hér heima til þess að halda uppi vaxtamun. Það gera sér allir grein fyrir því að ef við gerum mistök í hagstjórninni og vextir hækka mikið þá mun það taka okkur lengri tíma að vinna okkur út úr þessu áfalli. Ég trúi því að allir muni leggjast á eitt um að koma í veg fyrir að það gerist.“

Komu að útboði Icelandair án þóknunar

Til að undirstrika mikilvægi þess að lágmarka óvissuna í hagkerfinu hafði Marinó forgöngu um að Kvika veitti Icelandair Group aðstoð í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins og hlutafjárútboð sem heppnaðist vonum framar í september síðastliðnum.

„Ég taldi ekkert félag vera jafn þjóðhagslega mikilvægt og Icelandair og sem betur fer er félagið núna í stakk búið til þess að grípa tækifærin þegar þau skapast. Mér þótti mikilvægt að sýna fjárfestum fram á að Kvika taldi endurreisn Icelandair gríðarlega mikilvægt verkefni og við sömdum því við félagið um að vinna án greiðslna. Ég vildi geta sagt við fjárfesta að við værum ekki að verja aðra hagsmuni bankans en starfsumhverfi hans, íslenska hagkerfið.“

Bendir Marinó á að beinir hagsmunir Kviku af starfsemi Icelandair Group hafi verið takmarkaðir, enda útlán bankans til ferðaþjónustunnar takmörkuð.

„Mitt mat er að útlitið í hagkerfinu væri allt annað og dekkra ef félagið hefði verið nýfallið áður en jákvæðar fréttir af bóluefni bárust. Vel heppnuð endurfjármögnun Icelandair er líklega mikilvægasta verkefni sem ég hef komið að og ég er stoltur af því að ég og starfsmenn Kviku lögðum okkar lóð á vogarskálina. Það er líka ánægjulegt hversu margir tóku þátt í útboði félagsins og í kjölfar þess hafa viðskipti á hlutabréfamarkaði aukist mikið.“