Örn Þórðarson
Örn Þórðarson
Eftir Örn Þórðarson: "En við sem þekkjum framtaksleysi meirihlutans vitum að þarna er, enn og aftur, meira verið að tala en gera."

Nú hillir undir að hægt verði að ná tökum á Covid-faraldrinum. Bólusetning er fyrirhuguð á nýju ári, en ljóst er að áhrifin eiga eftir að vara talsvert lengur. Efnahagslegu áhrifin hverfa ekki með bóluefninu, atvinnuleysið fer ekki strax og rekstrarvandi fyrirtækjanna heldur áfram. Öll þekkjum við fólk í kringum okkur sem glímir við kvíða, óöryggi, vanmátt og vanþekkingu á tegundum úrræða sem bjóðast eða réttindum sínum. Af því tilefni lögðum við fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavik fram nokkrar tillögur um viðspyrnu gegn þessu alvarlega ástandi. Þeim var öllum hafnað af meirihlutanum. Tillögurnar snerust um að verja störf og örva atvinnulíf, auk þess að veita aukna og fjölbreyttari ráðgjöf til þeirra sem eru í tímabundnum vanda vegna faraldursins. Öllu þessu var hafnað. Það töldum við vera til marks um að meirihlutinn í borgarstjórn skilaði auðu í þeirri viðspyrnu sem við teljum nauðsynlega.

Eins og vanalega svaraði meirihlutinn fyrir sig með því að gera lítið úr tillögum okkar, taldi þær óraunhæfar, ómarkvissar, falla ekki undir hlutverk borgarinnar eða of kostnaðarsamar miðað við ávinning. Annað væri þegar í fullri vinnslu og engu við það að bæta. Það er auðvitað fjarri lagi. Á lokuðum fundum innan borgarkerfisins þorir fólk að horfast í augu við slíkar staðreyndir, þótt út á við sé látið eins og allt sé í góðu standi.

Ómarkviss en ágætur hugur

Á einum slíkum lokuðum fundi var nýlega lögð fram skýrsla, þar sem farið var yfir aðgerðir borgarinnar í efnahagsmálum vegna Covid-19. Þær aðgerðir eru taldar upp í þremur liðum. Fyrsti liður er „borgarvakt sem ætlað er að safna tölulegum gögnum um þróun aðstæðna hjá borgarbúum til að vera grunnur að frekari tillögum um aðgerðir“. Annar liður er „markvissar vinnumarkaðsaðgerðir sem viðbrögð gegn atvinnuleysi sem þróa á tímanlega eins og tilefni verður til“. Og þriðji og síðasti liðurinn í efnahagsaðgerðum borgaryfirvalda gegn Covid er „jafnréttismat allra aðgerða Reykjavíkurborgar“.

Þessir þrír liðir, þótt nokkuð óljósir séu, lýsa góðum hug. En við sem þekkjum framtaksleysi meirihlutans vitum að þarna er, enn og aftur, meira verið að tala en gera. Almenningur og fyrirtæki í borginni bíða eftir að þessi gagnasöfnun og viðbragðaþróun skili einhverju áþreifanlegra, skýrara, skjótvirkara og gagnlegra í baráttunni við erfiðar aðstæður í Covid-faraldrinum. Vinna við „jafnréttismat allra aðgerða“ gengur hægt, það þekki ég sem fulltrúi minnihlutans í stýrihópi um kynjaða fjárhags- og starfsáætlun, sem er ætlað að halda utan um það starf.

Ekki alltaf satt og rétt

Vonandi er það rétt sem meirihlutinn hefur hingað til haldið fram að fjárhagsstaða borgarinnar sé sterk og rekstur hennar góður. Þá ætti að vera hægt að setja meiri kraft í að safna gögnum og þróa viðbrögð og þannig stytta í að koma aðgerðum til viðspyrnu í framkvæmd. Ég er samt ekki viss um að svo verði. Það er ekki alltaf hægt að treysta því að það sem meirihlutinn segir sé satt og rétt. Það er hins vegar jákvætt að ríkið og flestar stofnanir þess hafa tekið á þessu ástandi með öðrum hætti, þar er minna talað og meira gert. Nýjar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til viðspyrnu hafa vandlega verið kynntar og eru öllum ljósar.

Höfundur er borgarfulltrúi og fyrrverandi sveitarstjóri.