Uppsteypu á Sjávarborginni á Kirkjusandi í Reykjavík er lokið.
Uppsteypu á Sjávarborginni á Kirkjusandi í Reykjavík er lokið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fasteignir Jónas Þór Jónasson, framkvæmdastjóri 105 Miðborgar, segir viðræður langt komnar um útleigu á tæpum þriðjungi gólfflatar Sjávarborgar, nýs skrifstofuhúsnæðis við Sæbraut.

Fasteignir Jónas Þór Jónasson, framkvæmdastjóri 105 Miðborgar, segir viðræður langt komnar um útleigu á tæpum þriðjungi gólfflatar Sjávarborgar, nýs skrifstofuhúsnæðis við Sæbraut.

Um er að ræða allt að sex hæða skrifstofubyggingu sem er alls sjö þúsund fermetrar og hönnuð af Schmidt Hammer Lassen og VA arkitektum. Þaðan verður gott útsýni út á sundin en húsið er markaðssett sem vandað atvinnuhúsnæði með útsýni í miðborginni.

Jónas Þór, sem er sjóðsstjóri verkefnisins hjá Íslandssjóðum, segir trúnað gilda um hvaða aðilar hafi lýst yfir áhuga á að leigja hluta af húsinu en staðfestir að þeir séu m.a. í heilbrigðis- og viðskiptaþjónustu.

Tilbúið á síðari hluta næsta árs

Að sögn Jónasar Þórs er áformað að taka húsið í notkun á síðari hluta næsta árs. Nú sé verið að opna útboð vegna klæðningar og frágangs utanhúss en búið sé að steypa upp húsið.

Margir hafi spurst fyrir um húsið.

„Við höfum ekki markaðssett það mikið því það var stutt komið og við flýttum okkur ekki mikið í ljósi tímabundinna aðstæðna,“ segir Jónas Þór um áhugann. baldura@mbl.is