Óskar Þorgeir Þorgeirsson Kemp fæddist í Vestmannaeyjum 12. september 1926, hann lést á Hrafnistu Sléttuvegi, Reykjavík, 23. október 2020.

Foreldrar Óskars voru Ragnhildur Bjarnadóttir, fædd 18. apríl 1893, dáin 9. nóvember 1986 og Þorgeir Daníel Lúðvíksson Kemp, fæddur 27. júlí 1900, dáinn 3. mars 1967.

Óskar átti 10 systkini.

Óskar giftist Ásbjörgu Helgadóttur Kemp, fulltrúa hjá TR, 31. maí 1952. Ásbjörg er fædd 23. ágúst 1932. Dætur þeirra eru: 1) Helga Ragnheiður Óskarsdóttir fiðlukennari, f. 26. október 1951, börn hennar eru Jóhanna Dögg Pétursdóttir, f. 1970, Búi Baldvinsson, f. 1975, Ragnar Pétursson, f. 1983, Gunnar Pétursson, f. 1985 og Ariel Pétursson, f. 1987. 2) Kolbrún Ósk Óskarsdóttir píanókennari, f. 24. desember 1953, dóttir hennar er Ásrún Hildur Kolbrúnardóttir, f. 1981. 3) Sigurbjörg Ása Óskarsdóttir fjármálastjóri, f. 20. febrúar 1958, gift Kristmundi Rafnssyni bifvélavirkja, sonur þeirra er Baldur Már Kristmundsson, f. 1980.

Í barnæsku bjó Óskar á Selalæk og síðar í Höfnum, en flutti síðan til Reykjavíkur árið 1939 þar sem hann bjó eftir það. Hann stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni.

Hann starfaði við verslunar- og sölustörf lengi og var m.a. verslunarstjóri hjá Mál og menningu. Óskar var með heildverslun og flutti inn timbur síðustu 35 ár starfsævinnar.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Ásbjörg frænka mín og vinkona fór að vinna í fyrirtæki Ásbjarnar Ólafssonar þegar hún var 16 ára. Þar var margt ungt fólk, meðal annars unnu þrír ungir menn í húsgagnaversluninni á Hverfisgötu og kom ég nokkrum sinnum með henni þangað. Þeir voru kátir og skemmtilegir og ég vissi að hún var skotin í einhverjum þeirra, en trúði mér ekki fyrir hver það væri. Það kom þó í ljós ári seinna þegar Óskar flutti inn á heimili þeirra. Þá kynntist ég Óskari og ég er þakklát fyrir að hafa átt hann að vini í 70 ár. Óskar var fyrst og fremst góður maður sem vildi öllum vel og mátti ekkert aumt sjá. Hann hafði orðið fyrir lífsreynslu sem hlýtur að hafa haft mikil áhrif á hann. Hann horfði á húsið sem hann átti heima í brenna, móður hans var bjargað út en stjúpi hans og systir brunnu inni, ekki tókst að bjarga þeim.

Allt sem Óskar gerði gerði hann vel, hann hafði gott verksvit og gat sagt manni hvernig væri best að standa að hverju verki. Hann kunni á mörgu góð skil, var vel að sér í bókmenntum, sögu og tækni, en tónlist var þó aðaláhugamál hans og hann spilaði á píanó. Hann sagði manni hvernig mörg verk gömlu meistaranna urðu til og gat sagt sögur af þeim.

Ásbjörg og Óskar bjuggu á heimili foreldra hennar í sex eða sjö ár og þar fæddust þeim þrjár efnilegar dætur, Helga Ragnheiður, Kolbrún Ósk og Sigurbjörg Ása. Þær hlutu allar útgeislun pabba síns og eru hver annarri yndislegri. Ein af mínum kæru minningum er þegar Ásbjörg og Óskar giftu sig og létu jafnframt skíra Helgu Ragnheiði. Ég fór með þeim heim til séra Jakobs Jónssonar á laugardaginn fyrir hvítasunnu árið 1952 og passaði Helgu meðan þau voru gefin saman. Þetta var mjög yndisleg stund sem ég er þakklát fyrir. Það var Óskari mikils virði að þær systurnar fóru allar í tónlistarnám og tvær af þeim höfðu tónlist að ævistarfi.

Ásbjörg og Óskar ferðuðust mikið um landið og eftir að þau eignuðust Land Rover-jeppa eyddu þau öllum fríum í óbyggðum og notuðu þjóðvegina sem minnst. Þegar þau heimsóttu mig til Húsavíkur komu þau yfir hálendið, enda höfðu þau enga ánægju af að ferðast í ryki og umferð. Þessar heimsóknir fjölskyldunnar voru mjög ánægjulegar og ég man sérstaklega eftir hvað ég var montin af þessum frænkum mínum þegar systurnar fóru í gönguferð um bæinn.

Söknuður Ásbjargar eftir 70 ára samleið hlýtur að vera sár og dæturnar misstu mikið við fráfall föður síns.

Ég sendi þeim innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Óskars Þorgeirs.

Helga Karlsdóttir.

Kæra fjölskylda. Það er sárt að sitja hérna megin hnattar og geta ekki verið með ykkur að kveðja hann elsku Óskar afa, en ég get þó huggað mig við að við lifum á þannig tímum að ég get verið með ykkur, þó ekki sé nema á skjánum og í anda. Ég man eftir gráhærðum kolli, þykkum gleraugum og vinalegum róm í hvert skipti sem ég hitti afa. Þétt faðmlag tók alltaf á móti mér og ekkert nema góðmennskan sem hann sýndi okkur barnabörnunum. Ótal stundir í Goðheimum og síðar meir í Sóltúninu, og núna síðast á Landakotsspítala þegar ég kvaddi hann í síðasta skipti sitja eftir í minningunni, og alltaf er það brosið hans sem ljómaði í hvert skipti sem ég sá hann. Þannig þekkti ég afa, og þannig mun ég alltaf muna eftir honum.

Það skrýtna við að vera barnabarn einhvers er að maður þekkir ekki alltaf manneskjuna í þaula, en einhvern veginn var hann alltaf það sem ég ímyndaði mér að afi gæti verið. Hlýlegur, fullur af alls konar fróðleik og lífreynslusögum, og umfram allt bara góður kall við mig og bræðurna. Þannig vil ég muna eftir honum, og þannig mun ég halda áfram að lýsa honum fyrir mínum eigin börnum. Afa á ég margt að þakka, og þá sérstaklega fyrir mömmu – því án hans hlutverks í að búa hana til hefðum við systkinin aldrei orðið. Það er því partur af afa í mér og mínum börnum, og sá partur mun halda áfram um ókomna tíð.

Elsku afi, ég er svo þakklátur fyrir að hafa náð að kveðja þig í janúar, og ég er svo þakklátur fyrir lífið sem þú lifðir. Í dag er sorgardagur, en jafnframt á sama tíma lít ég á þetta sem tilefni til að fagna þér og lífinu.

Eða eins og Alfaðirinn mælti:

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Takk fyrir allt elsku afi minn, hvar sem þú ert.

Gunnar Pétursson,

Björn Tómas, Chiara Ingibjörg og Bianca, Sydney, Ástralíu.