Róbert Trausti Árnason fæddist 24. apríl 1951. Hann lést 23. október 2020.

Útför Róberts Trausta fór fram 9. nóvember 2020.

Þekking og lífsafstaða Róberts Trausta Árnasonar var svo sérstök að það var engu líkara en hann hefði lifað víðs vegar um Norðurálfu undanfarnar þrjár aldir eða svo. Því miður kynntist ég honum alltof seint en síðustu misserin áttum við af og til löng samtöl sem voru mér sem opinberun, hvort sem umfjöllunarefnið var kjarnorkuvígbúnaður eða valdaskeið Friðriks mikla Prússakonungs.

Róbert Trausti greindi mér frá ótalmörgu í trúnaði en tiltók það aldrei sérstaklega enda ættu „vandaðir menn að kunna að grisja úr samtölum það sem segja mætti frá“ eins og hann orðaði það. Góð dómgreind þeirra sæi um að annað yrði varðveitt.

Ég á Róbert Trausta margt að þakka. Hann kynnti mér meðal annars hina stórkostlegu bók Ernsts Jüngers, In Stahlgewittern, og Il Gattopardo eftir Giuseppe di Lampedusa.

Fyrir rúmu ári var ég beðinn að skipuleggja heimsókn þýskra stjórnmálamanna úr flokki Kristilegra demókrata hingað til lands. Þá kom sér vel að geta leitað til Róberts Trausta og hann hafði ráð undir rifi hverju. Við áttum það sameiginlegt að vera aðdáendur Þjóðverja sem hann sagði „hlaðkalda en baðstofuhlýja“ og reglulega áminnti hann mig um mikilvægi djúprar og víðtækrar tungumálaþekkingar. Án hennar stæðu menn kaldir úti á hlaði.

Róbert Trausti átti viðburðaríka ævi. Einhverju sinni hafði hann lokið verkefni í Þýskalandi sem þarlendir embættismenn vildu gjarnan þakka honum alveg sérstaklega fyrir og spurðu hvort hann hefði uppi einhverjar óskir. Önnur þeirra tveggja óska sem hann bar fram var að fá að líta á skrifstofu Friðriks mikla Prússakonungs í Schloss Sanssouci. Fúslega var orðið við þeirri bón og einn varði hann klukkustund með vofu „der alte Fritz“, leit yfir bækur hans og handlék flautu hans og penna. Ég sé Róbert Trausta fyrir mér þar sem hann situr íhugull í hægindastól sjálfs Friðriks mikla, stólnum þar sem hinn frægi herkonungur og heimspekingur andaðist 17. ágúst 1786.

Guð blessi minningu Róberts Trausta Árnasonar.

Björn Jón Bragason.