Haukur Þorsteinn Pálsson fæddist í Sauðanesi í Austur-Húnavatnssýslu 29. ágúst 1929.

Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri þann 9. nóvember 2020 eftir skammvinn veikindi.

Haukur var næstyngstur af 12 systkinum. Faðir Hauks var Páll Jónsson frá Flatatungu í Skagafirði, fæddur 15. mars 1875, hann lést 24. október 1932. Móðir Hauks var Sesselja Þórðardóttir, fædd 29. ágúst að Steindyrum í Svarfaðardal, en hún lést 10. september 1942. Systkini Hauks eru Jón, Páll, Sigrún, Þórður, Gísli, Hermann, Helga, Þórunn, Ólafur, Anna og Ríkarður, sem öll eru látin.

Haukur kvæntist 7. júní 1952 Önnu Guðnýju Andrésdóttur ljósmóður, en hún var fædd á bænum Jórvík í Breiðdal 7. júní 1927, dáin 4. september 1998. Foreldrar hennar voru Lilja Kristbjörg Jóhannsdóttir, fædd 19. október 1896, látin 10. júlí 1977, og Bjarni Andrés Þórðarson, fæddur 17. febrúar 1896, látinn 3. febrúar 1980. Haukur og Anna eignuðust tvær dætur, Lilju, fædda 2. maí 1955. Fyrrverandi eiginmaður hennar er Garðar Skaptason og eignuðust þau þrjú börn, 1) Hauk, fyrrverandi eiginkona er Sonja Suska, 2) Valdísi Önnu, gifta Geir Arnari Marelssyni og 3) Heimi Hrafn, í sambúð með Marit van Schravendijk. Yngri dóttir Hauks og Önnu er Sesselja, fædd 15. apríl 1961. Eiginmaður hennar er Víkingur Viggósson. Þau eiga þrjá syni, 1) Víking Ara, í sambúð með Elvu Dögg Pálsdóttur, 2) Hákon Andra og 3) Hlyn Loga, í sambúð með Dagnýju Rós Elíasdóttur. Barnabarnabörn Hauks og Önnu eru 13 talsins.

Árið 2002 kynntist Haukur Guðlaugu M. Jónsdóttur og áttu þau gott samband í mörg ár.

Haukur ólst upp í Sauðanesi hjá móður sinni og systkinum. Hann byrjaði snemma að vinna hin ýmsu landbúnaðarstörf þess tíma auk vegagerðar. Haukur útskrifaðist úr Hólaskóla árið 1949. Eftir útskrift vann hann á Hólabúinu. Í framhaldinu vann hann á jarðýtu í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum. Árið 1952 stofna Anna og Haukur nýbýlið Röðul út úr Sauðanesi og hefur hann búið þar alla tíð síðan. Fyrst með blandaðan búskap en seinni ár átti hrossabúskapurinn hug hans allan. Samhliða búskapnum tók Haukur að sér ýmis störf svo sem girðingavinnu til fjalla, ökukennslu, gröfu- og vörubílaútgerð. Hauki var margt til lista lagt. Hann var mikill sögumaður og liðtækur skemmtikraftur. Hann sat í hinum ýmsu nefndum, t.d. samráðsnefnd Blönduvirkjunar og afmælisnefnd Hólaskóla.

Útför Hauks Pálssonar fer fram í Blönduóskirkju í dag, 14. nóvember 2020, kl. 14.

Í ljósi aðstæðna verða aðeins nánustu aðstandur viðstaddir en athöfninni verður streymt á facebooksíðu Blönduóskirkju


https://www.facebook.com/blonduoskirkjaNyja

Mig langar að skrifa nokkur orð til að heiðra minningu afa míns Hauks Pálssonar á Röðli.

Hann var einstakur maður og brasaði margt á langri ævi.

Ég ólst mikið upp á Röðli hjá afa mínum Hauki og ömmu minni Önnu Andrésdóttur en hún lést árið 1998. Hálfsmánaðargamall, þeirra fyrsta barnabarn, var ég mættur í sveitina. Eftir það varð ekki aftur snúið. Ég fór í sveitina hvert sumar og seinna meir í flestum skólafríum. Ég hlakkaði alltaf til að fara í sveitina og hjálpa til. Verkefnin, hver sem þau voru, voru unnin með ánægju. Mér fannst tilgangur í því sem ég var að stússa og það var holl og góð tilfinning fyrir ungan dreng. Ég er mjög þakklátur fyrir allt sem ég lærði hjá afa mínum og ömmu í sveitinni. Lífsviðhorfin, þrautseigjan og að finna ánægjuna í daglegum störfum.

Afi hafði mikinn áhuga á kveðskap og mundi vísur vel, ekki síst þær sem voru fullar af gríni og glensi um menn og málefni. Hann flaggaði ekki oft vísum eftir sjálfan sig nema þá helst ef hann fór með annála eða skemmtisöngva á þorrablótum eða sem veislustjóri. Hann var raunverulega uppistandari síns tíma. Mig langar að birta hér tvær vísur eftir afa sem komu fram í formála æviminninga hans. Æviminningarnar, sem skrifaðar voru af Birgittu H. Halldórsdóttur, voru nefndar Í fúlustu alvöru. Vísurnar lýsa vel hans persónu og lífsviðhorfum.

Stundum þó í basli byggi
betri vitund sýndi annað.
Þó yfir manni eitthvað skyggi
eymdarvæl er jafnan bannað.

Njóta lífsins víst ég vil
og veita öðrum gleði.
Gömlum sögum gera skil
og greina það er skeði.

Nú þegar afi er horfinn á braut hugsa ég til baka og minnist ýmissa atvika, við leik og störf. Ofarlega er mér í huga tíminn í girðingarvinnunni með honum og fleiri góðum mönnum á húnvetnsku heiðunum. Afi vann í áratugi við uppsetningu, viðhald og jafnvel rif á girðingum á þessu svæði og víðar. Fyrsta verkefnið sem ég man eftir að hafa tekið þátt í, líklega um 12 ára gamall, var landgræðsluhólf austan í Helgufelli á Auðkúluheiði. Á þessum tíma var Gísli á Uppsölum orðinn þjóðþekkt persóna og afi hermdi gjarnan eftir honum, vel að merkja líkt og eftir mörgum öðrum. Eitt af orðtiltækjum Gísla, það er lurkur, varð til þess að stór steinn við girðinguna fékk nafnið Lurkur og þar með var girðingin aldrei nefnd annað en Lurksgirðing. Seinna tók afi að sér að taka þessa girðingu upp. Áhugi hans á örnefnum og eftirhermum var mikill og það var fróðlegt og skemmtilegt fyrir okkur í vinnuflokknum að vera með afa. Hann var útsjónarsamur, verkséður og sérlega góður í að rata og átta sig á staðháttum. Þetta voru góðir eiginleikar þegar verið var að girða í óbyggðum og velja þurfti girðingarstæði eftir fjallasýn og lýsingum á landslagi. Eins þurfti að velja leiðir til að komast um landið. Eftir á að hyggja finnst mér ótrúlegt hvernig hann komst á óbreyttum gömlum Daihatsu eða afturdrifs 135 Ferguson nánast um allt því ekki var búið að leggja neina vegi á þessu svæði. Hvort sem var norður á Svínadalsfjall eða fram á Ömrur við Hundavötn sem liggja rétt norðan við Langjökul. Allt gekk þetta og var mikið ævintýri þegar ég hugsa til baka.

Mig langar að nefna til gamans vistarverurnar á heiðinni í girðingarvinnunni og fyrsta skiptið sem okkur var boðin gisting í nýbyggðu starfsmannahúsi Blönduvirkjunar. Það er ekki hægt að segja að við höfum verið með nýjasta viðlegubúnaðinn sem í boði var í verslunum landsins. Afi var alltaf fremur nýtinn og þjóðlegur þegar kom að slíkum græjum. Í stað nútímasvefnpoka vorum við gjarnan með teppi og svo ullarreyfi til einangrunar. Þetta passaði auðvitað ágætlega þegar haldið var til í hestakerrunni, gömlu botnlausu vegavinnutjaldi eða fjallaskálum. Oft voru vinnudagar langir og lítið um þvottaaðstöðu í okkar vistarverum þannig að við litum jafnan út eins og nokkurs konar útlagar. Þegar starfsmannahús Blönduvirkjunar hafði nýlega verið tekið í notkun var okkur boðin gisting þar eitt fallegt sumarkvöld. Afi þáði það með þökkum að sjálfsögðu. Hann þekkti þar alla starfsmenn vel og þeir voru honum mjög vinveittir. Guðmundur Hagalín stöðvarstjóri sagði við afa að hann skyldi taka gestaherbergin á efri hæðinni. Afi, auðvitað enn í gamla tímanum, sendir mig út í jeppann og segir mér að sækja okkar þjóðlega viðlegubúnað sem var vandlega pakkað í strigapoka. Ég hljóp og sótti pokana með ullarreyfunum og teppunum, steinolíuprímusinn var þarna líka. Við skunduðum upp teppalagða eðalstigana upp á efri hæðina og ég fór að verða meira og meira tortrygginn hvort við þyrftum virkilega að drösla ullarreyfunum þarna inn. Svo opnar afi dyrnar á herbergjunum og við blasa uppbúin rúm í þessu rúmgóða fimm stjörnu starfsmannahóteli. Hann var í fyrstu alveg orðlaus, sem alla jafna gerðist ekki, en svo sagði hann nokkuð höstuglega, sem gerðist nánast heldur aldrei: Vviltu gjöra svo vel, drengur, að drífa þig út í bíl með þessa strigapoka og láta ekki nokkurn mann sjá þig! Við hlógum að þessu eftir á, þegar hann vissi hvernig ég laumaðist skömmustulegur með pokana út í bíl án þess að nokkur tæki eftir.

Mér þykir óendanlega vænt um afa og þakka fyrir þann góða tíma sem ég fékk að eiga með honum, og alla þá reynslu og lærdóm sem hann hefur gefið mér. Hann mun lifa í minningu minni um ókomin ár. Guð geymi þig afi minn.

Þinn nafni,

Haukur S. Garðarsson.