Tugir sveitarfélaga og félagasamtaka um allt land hafa sótt um starfsleyfi fyrir brennur um áramót og á þrettándanum til viðkomandi heilbrigðiseftirlits. Enn er allt á huldu hvort brennur verða heimilaðar.

Tugir sveitarfélaga og félagasamtaka um allt land hafa sótt um starfsleyfi fyrir brennur um áramót og á þrettándanum til viðkomandi heilbrigðiseftirlits. Enn er allt á huldu hvort brennur verða heimilaðar. Það ræðst af því hvaða reglur verða í gildi og túlkun yfirvalda.

Heilbrigðiseftirlit viðkomandi umdæma gefa út starfsleyfi fyrir brennur. Áður en til þess kemur þarf umsókn að hafa verið auglýst í fjórar vikur. Tugir slíkra auglýsinga frá sveitarfélögum og félagasamtökum um allt land eru nú í kynningu og rennur frestur til athugasemda vegna áramótabrenna í flestum tilvikum út fyrir jól. Þar á meðal eru tíu áramótabrennur sem Reykjavíkurborg hefur sótt um.

Í núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir segir að ekki sé heimilt að veita tímabundið leyfi fyrir skemmtunum, þar með töldum brennum, sem ætla megi að dragi að sér hóp fólks eftir klukkan 21. Í vikunni verður reglugerðin endurskoðuð og enginn veit hvaða reglur verða í gildi um áramót, hvað þá á þrettándanum. Aðgerðastjórn á Austurlandi hefur beint því til sveitarfélaga þar að vera ekki með brennur þessi áramótin. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri og framkvæmdastjóri almannavarna á höfuðborgarsvæðinu, hyggst funda með fulltrúum heilbrigðiseftirlita á höfuðborgarsvæðinu í dag til að taka stöðuna og samræma verklag.

helgi@mbl.is