Bráðamóttaka Arnar segir að það virðist skipta gríðarlega miklu máli hvernig langvinnur nýrnasjúkdómur sé skilgreindur í rannsóknum.
Bráðamóttaka Arnar segir að það virðist skipta gríðarlega miklu máli hvernig langvinnur nýrnasjúkdómur sé skilgreindur í rannsóknum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Ný íslensk rannsókn á algengi langvinns nýrnasjúkdóms er sögð tímamótarannsókn sem gæti átt eftir að kollvarpa núverandi skilgreiningu á sjúkdómnum. Tvær milljónir kreatínínmælinga úr fullorðnum Íslendingum voru greindar í rannsókninni. Rannsóknin var birt í vísindaritinu Kidney International.

Baksvið

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Ný íslensk rannsókn á algengi langvinns nýrnasjúkdóms er sögð tímamótarannsókn sem gæti átt eftir að kollvarpa núverandi skilgreiningu á sjúkdómnum. Tvær milljónir kreatínínmælinga úr fullorðnum Íslendingum voru greindar í rannsókninni. Rannsóknin var birt í vísindaritinu Kidney International.

Á meðal þess sem rannsóknin leiddi í ljós er að algengi langvinns nýrnasjúkdóms hefur verið ofmetið í fyrri rannsóknum þar sem ekki hefur verið staðfest að um viðvarandi skerðingu á nýrnastarfsemi sé að ræða og að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til aldurstengdra breytinga á nýrnastarfsemi. Því hefur samfélagsleg byrði sjúkdómsins verið ofmetin.

Langvinnur nýrnasjúkdómur er regnhlífarhugtak yfir margvíslega langvinna nýrnasjúkdóma og einkennist af skerðingu á nýrnastarfsemi eða öðrum teiknum um nýrnaskemmdir í þrjá mánuði eða lengur. „Þegar við metum nýrnastarfsemi metum við það út frá því sem kallast gaukulsíunarhraði. Í nýrunum eru gauklar sem sía blóðið og búa til þvag. Við reynum að áætla hversu vel nýrun gera þetta. Til þess mælum við efni í blóði sem heitir kreatínín og út frá því þá reiknum við þennan gaukulsíunarhraða og þá getum við séð hvernig starfsemi nýrnanna er, hvort hún sé skert eða eðlileg,“ útskýrir Arnar Jan Jónsson, læknir og doktorsnemi við Háskóla Íslands. Hann fór fyrir rannsókninni undir handleiðslu Ólafs Skúla Indriðasonar nýrnalæknis og Runólfs Pálssonar, nýrnalæknis og prófessors.

Mikilvæg kortlagning

Langvinnur nýrnasjúkdómur getur leitt til lokastigs nýrnabilunar sem getur þýtt að fólk þurfi á blóðskilunarmeðferð að halda. Hún er bæði íþyngjandi fyrir þann sem á henni þarf að halda og kostnaðarsöm fyrir samfélagið.

„Þetta er líka mjög stór áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma sem er náttúrulega ein af algengustu dánarorsökum í okkar samfélagi. Þannig að það er mjög mikilvægt að kortleggja mjög nákvæmlega hversu algengt þetta er og hversu mikil byrði þetta er á samfélagið,“ segir Arnar.

Fyrri rannsóknir á faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms hafa bent til þess að heildaralgengi sjúkdómsins sé á bilinu 10 – 16%. Algengið fer hækkandi með vaxandi aldri. Arnar segir að það sé vafasamt að skilgreina væga skerðingu á nýrnastarfsemi sem langvinnan nýrnasjúkdóm hjá eldra fólki.

„Vegna þess að það verður ákveðin hnignun í nýrnastarfseminni með hækkandi aldri. Það sem fyrri rannsóknir hafa heldur ekki tekið tillit til er að til þess að staðfesta að um langvinnan nýrnasjúkdóm sé að ræða þá verður þú að staðfesta að það sé sannarlega um að ræða langvinnt ástand. Þú verður að vera með skerðingu á nýrnastarfsemi í þrjá mánuði eða lengur,“ segir Arnar og heldur áfram:

„Til þess þarftu að minnsta kosti tvær mælingar. Fyrri rannsóknir hafa bara notað eina mælingu. Við vildum sem sagt meta algengi langvinns nýrnasjúkdóms með því að taka tillit til annars vegar aldurstengdrar hnignunar á nýrum og líka að maður taki tillit til þess að það sé um langvinnt ástand að ræða, að það séu að minnsta kosti til tvær mælingar fyrir hvern einstakling með þriggja mánaða millibili.“

Í umræddri rannsókn rannsökuðu Arnar og samstarfsfólk hans tvær milljónir kreatínínmælinga sem voru gerðar á árunum 2008 – 2016 hjá fullorðnum Íslendingum. Þá náðu þau í upplýsingar um aldur, kyn, allar skráðar sjúkdómsgreiningar viðkomandi og fleira. Út frá gögnunum gátu þau svo metið algengi langvinns nýrnasjúkdóms á tímabilinu. Þá kom í ljós að aldursstaðlað algengi, þ.e. algengi þar sem leiðrétt er fyrir mismunandi aldursdreifingu í mismunandi þýðum, var ekki nema 6%.

„Þetta sýnir að ef þú staðfestir að sannarlega sé um langvinnt ástand sé að ræða með tveimur mælingum þá er algengið sennilega mun lægra heldur en fyrri rannsóknir hafa sýnt. Við tókum þá líka tillit til þess að um aldurstengda hnignun væri að ræða og þá var algengið enn þá lægra eða 3,6%,“ segir Arnar.

Með rannsókninni staðfestu rannsakendur að fyrri rannsóknir hafi ofmetið algengið, að sögn Arnars.

„Næstu rannsóknir þurfa líka að taka tillit til þess að um langvinnt ástand sé að ræða. Fleiri rannsóknir þurfa þá líka að taka með í reikninginn aldurstengda breytingu, hvert algengið er þá. Það virðist skipta gríðarlega miklu máli hvernig þú skilgreinir þetta.“

Rannsóknin var einn liður í doktorsverkefni Arnars um sjúkdóminn. Næst sér hann fyrir sér að meta nýgengi og áhættuþætti og að lokum afdrif þeirra sem eru með langvinnan nýrnasjúkdóm.