Áskell Bjarni Fannberg fæddist í Reykjavík 11. febrúar 1953. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 28. nóvember 2020.

Foreldrar hans voru Unnur Þyri Guðlaugsdóttir, f. 9.7. 1930, d. 16.9. 2010, og Eyþór Fannberg, f. 5.6. 1928, d. 20.8. 1999. Seinni eiginmaður Unnar var Hörður Ragnarsson, f. 14.8. 1928, d. 4.12. 2001.

Systkini Áskels eru: 1) Salóme Herdís, f. 24.2. 1951, 2) Kristjana Ólöf, f. 27.7. 1956, maki Gestur Helgason, og 3) Eyþór, f. 24.10. 1964, d. 24.1. 2015, maki Anna Þórunn Björnsdóttir.

Áskell var kvæntur Þóru Kristjönu Einarsdóttur, f. 13.11. 1955. Foreldrar hennar voru Margrét Guðrún Kristjánsdóttir, f. 3.6. 1931, d. 5.5. 2019 og Einar Jón Jónsson, f. 28.6. 1923, d. 19.11. 1997.

Áskell og Þóra bjuggu í Hafnarfirði. Þau hófu búskap í Köldukinn og fljótlega byggðu þau sér hús í Klausturhvammi þar sem þau bjuggu allt þar til á þessu ári þegar þau fluttu á Norðurbakkann.

Börn þeirra eru: 1) Unnur Björk, f. 9.10.1976, maki Matthew Peter Abrachinsky, 2) Eyþór Ingi, f. 15.4. 1982, maki Agnieszka Kolowrocka. Dætur þeirra eru Kría María og Klara Ýr, 3) Einar Már, f. 22.10. 1983, maki Helga Rún Gunnarsdóttir. Dætur þeirra eru Valdís Björk og Þórunn Margrét. Fyrir átti Áskell Áslaugu Dögg Martin, f. 22.8. 1974, maki Pétur Hreiðar Sigurjónsson. Börn þeirra eru Freydís Ósk og Anton Logi.

Áskell ólst upp með foreldrum sínum og systkinum í Vesturbænum í Reykjavík og í góðu atlæti með föðurafa og ömmu. Áskell gekk í Hagaskóla og eyddi sumrum í sveit á Bárustöðum í Borgarfirði.

Áskell stundaði nám við Iðnskólann í Reykjavík, fór á sjó á sumrin á Ísleifi IV og stundaði veiðar í Norðursjó. Hann var á samningi hjá Sveini Jónssyni og lauk meistaraprófi í útvarpsvirkjun. Síðar starfaði hann í tölvudeild Skagfjörðs og svo í GSS. Þá lá leiðin til Rarik þar sem hann starfaði í upplýsingatæknideildinni. .

Útför Áskels fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 7. desember 2020, og hefst athöfnin klukkan 13.

Streymi er á:

https://youtu.be/Zi2oGBb-etU

Virkan hlekk má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi, við trúum því ekki enn að þú sért farinn frá okkur. Síðustu daga höfum við rifjað upp ótalmargar minningar sem við áttum saman og rauði þráðurinn í þeim er hversu góða nærveru þú hafðir, hress og glaður, og alltaf tilbúinn til að gera hvað sem er fyrir okkur öll.

Það var alltaf frábært hve vel þú fylgdir okkur á íþróttamót og hafðir svo gaman af því, hvort sem það var í fótbolta, handbolta, skíðum eða siglingum. Þú sjálfur varst auðvitað svo mikið í íþróttum og hafðir mikinn áhuga alla tíð, hvort sem það var að fara í veiðitúra, spila golf eða sigla með góðum félögum í siglingaklúbbnum Þyt.

Það eru margar útilegurnar sem við höfum farið í saman. Þú hafðir brennandi áhuga á að ferðast um landið og oft var farið á breyttu fjallajeppunum um hálendið í góðum félagsskap, hvort sem var á sumri eða vetri. Útilegan á Vestfjörðum í fyrrasumar var ógleymanleg, enda við að koma þar í fyrsta skipti og þú hafðir sérstaka ánægju af að sýna okkur heimaslóðir afa þíns og ömmu. Einnig varst þú alltaf til í að koma með í allskyns ferðir - heimsmeistaramótið í Rússlandi, fótboltaleiki á Ítalíu og Englandi, formúlukeppni í Bandaríkjunum - að ótöldum öllum utanlandsferðunum sem við fjölskyldan fórum í. Ferðin til Danmerkur í fyrra þar sem afastelpurnar fengu að fara í Lególand og þú rifjaðir upp gamla tíma síðan þú varst á veiðum í Norðursjónum var ómetanleg.

Þú sagðir okkur svo skemmtilegar sögur frá því að þú varst lítill í bústaðarferðum með afa þínum og ömmu í Lækjarbotnum og eigum við sjálf skemmtilegar minningar um bústaðarferðir til afa og ömmu í Grímsnesinu, þannig að þegar hugmyndin kom upp um að við myndum byggja saman bústað þá vorum við meira en lítið til í það. Skóflustungan að bústaðnum okkar í Ásskógum var tekin á sextugsafmælinu þínu og síðustu árin vorum við mikið saman að byggja, og sá tími er okkur mjög dýrmætur. Þú kunnir öll handtökin og naust þess að kenna okkur. Við munum halda áfram að njóta þess að vera í bústaðnum sem við byggðum öll saman.

Þér þótti svo vænt um afastelpurnar og þær nutu þess að vera hjá þér, og sérstaklega fannst þeim skemmtilegt þegar þær náðu að plata afa á trampólínið.

Elsku pabbi, missirinn er mikill en við munum halda í þær mörgu, góðu minningar sem við eigum um þig. Góða ferð, við munum sakna þín. Takk fyrir allt.

Einar, Eyþór og Unnur.

Við kveðjum Áskel mág okkar og svila með söknuði. Áskell var lífsglaður húmoristi, sem hafði yndi af samveru fjölskyldunnar. Við áttum margar góðar stundir saman bæði í bústaðnum í Hraunborgum, hjá mömmu og pabba eða á ferðalögum innan lands sem og utan landsteinanna með fjölskyldum okkar.

Þegar við komum frá Danmörku úr námi voru Áskell og Þóra flutt inn í fallega húsið sitt í Klausturhvammi sem þau höfðu með dugnaði byggt frá grunni. Áskell var laghentur og duglegur við húsbygginguna þó svo tengdamóðir hans væri stundum með óþarfa aðfinnslur, eða ábendingar eins og hún kallaði það. Það var gaman að fylgjast með þeirra fallega sambandi en hann var alltaf boðinn og búinn að aðstoða hana og hún hann ekki síður.

Þegar við vorum með börnin ung var oft glatt á hjalla í bústaðnum hjá mömmu og pabba þar sem við komum oft saman systkinin með maka og börn. Þá var ýmislegt brallað; grillað læri, teflt og spilað, farið í golf eða mínígolf, dyttað að eða gróðursett. Þá var Áskell í essinu sínu, hress og kátur og oft sá hann um að vera yfirgrillari.

Minnisstæð er fyrsta ferð okkar saman með krakkana litla til Majorka. Síðar kom svo jeppadellan og þá var þeyst á fjöll í tíma og ótíma, farið inn í Þórsmörk, Fjallabak eða upp á jökla. Eftirminnileg er ferð þar sem við vorum tvíbíla, báðir bílar með fjölskyldurnar innanborðs og komið var að Kaldaklofskvísl ansi ógurlegri. Yfir fóru báðir bílar og í minningunni var ferðin góð og allt fór vel.

Á jólum vorum við vön að hittast á jóladag, njóta samvista og borða hangikjöt með uppstúi, grænum og rauðkáli. Það voru yndislegar samverustundir sem við fjölskyldan geymum í hjarta okkar.

Fyrir nokkrum árum fóru Áskell og Þóra að byggja bústað í Grímsnesi. Áskell var þar aðalmaðurinn og naut þess að spá og spekúlera hvernig best væri að hafa hlutina. Hann naut þar dyggrar aðstoðar kjarnafjölskyldunnar en í sameiningu byggðu þau fallegan griðastað. Við kíktum á þau einn góðviðrisdag í sumar og áttum góða stund saman.

Fyrir rúmu ári greindist Áskell með sinn illvíga sjúkdóm. Þrátt fyrir að vera á sjúkrahúsi og nýlega greindur með sjúkdóminn tók hann ekki annað í mál en Þóra færi í hina árlegu kvenna-jólaljósaferð til Glasgow. Þegar heim var komið var tekið til við að undirbúa breytingar en þau Þóra ákváðu að selja húsið og fluttu í gullfallega íbúð við Norðurbakka í Hafnarfirði. Áskell tók áföllunum með ótrúlegu æðruleysi og vildi aldrei neitt væl og stundaði vinnuna af sömu elju og fyrr, svo lengi sem heilsan leyfði.

Við vorum svo bjartsýn að halda að við gætum hist í desember þegar covid-bylgjan færi að róast og Áskell kominn heim af spítalanum, en sú varð því miður ekki raunin.

Elsku Þóra, Unnur, Matti, Eyþór, Agga, Einar Már, Helga, Áslaug og litlu afastelpurnar, ykkar missir er mikill, minningin lifir í hjarta okkar og hugur okkar er hjá ykkur.

Hvíl í friði elsku vinur.

Sigrún og Gunnar.

Það er með sorg í hjarta sem við kveðjum vin okkar og vinnufélaga, Áskel Fannberg. Meðal samstarfsmanna hjá RARIK gekk hann undir nafninu Ási, en hann hóf störf á tölvudeild RARIK í október 1998 og hefur verið einn af máttarstólpum í umsjón og rekstri tölvukerfis fyrirtækisins síðan. Hann var alltaf til staðar og alltaf tilbúinn til að hjálpa hverjum þeim sem þurfti aðstoð. Ef einhver vandamál komu upp varðandi tölvubúnað eða tölvukerfi var leitað til hans. Og vegna þess hvað hann var einstaklega opinn og að hann kom alltaf eins fram við alla var vinsælt að leita til hans, jafnvel þótt vandamálið væri ekki endilega á hans sérsviði. Ási var með meistararéttindi í rafeindavirkjun og tölvusalurinn var hans ríki, en þangað fengu aðeins útvaldir að koma. Og hann var í essinu sínu þegar verið var að uppfæra búnað í vélasalnum, eða ef glíma þurfti við bilanir eða árásir á kerfið. Þá var hann eins og lítill strákur í leikfangabúð og fyrirtækið naut góðs af hinum mikla og brennandi áhuga hans á þeim verkefnum sem hann var að fást við. Og þó honum fyndist skemmtilegra að fást við vélbúnaðinn og geta þannig handfjatlað hlutina, þá var hann jafn áhugasamur um hugbúnað og sýndarveruleika og var mjög tilbúinn til að fræða áhugasama um þá veröld. Það skipti Ása engu máli hvar á landinu verkefnin voru, hann gerði það sem til þurfti, fór þangað sem fara þurfti og var þá ekki að velta fyrir sér hvaða tími sólarhringsins var. En Ási var ekki bara áhugasamur um vinnuna, hann var einnig mikil félagsvera og tók virkan þátt í félaglífi okkar starfsmanna RARIK og setti sinn svip á það. Einnig átti hann sér fleiri áhugamál sem skipuðu stóran sess í lífi hans og hafði gaman af að ræða þau við samstarfsfélagana. Siglingarnar og starfsemi siglingaklúbbsins í Hafnarfirði, sem var honum mikið hjartans mál, komu oft til umræðu. Eins var með bygginguna á sumarbústaðnum í Grímsnesi á nýliðnum árum. Ási var alltaf tilbúinn til að ræða áhugamál sín og verkefni og eigum við eftir að sakna slíkra gæðastunda. Þegar hann veiktist tók hann því eins og hverju öðru verkefni, með jákvæðum huga og barðist eins og hetja, en varð því miður undir í þeirri miklu glímu. Við sem eftir sitjum syrgjum góðan vin og einstakan vinnufélaga. Það verður langt þangað til hægt verður að venja sig af þeirri hugsun sem hefur innprentast í hugann á liðnum árum, þegar eitthvað bjátar á í tölvumálum og mikilvægt er að fá lagfært, sama hvenær sólarhringsins er, sem er: Ég hringi í Ása. Minningin um góðan dreng mun hins vegar lengi lifa.

Ég vil fyrir mína hönd og annarra samstarfsfélaga á RARIK til fjölda ára þakka fyrir hans miklu vináttu, trúnað og traust sem hann sýndi starfi sínu og öllum vinnufélögum og þá alúð og fagmennsku sem hann sýndi í öllum sínum verkum. Ási var okkur öllum mjög kær. Þóru og fjölskyldu hans sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Áskels Fannbergs.

Fyrir hönd samstarfsmanna hjá RARIK,

Tryggvi Þór Haraldsson.