— Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Ágætt veður var á landinu í gær og leiðir greiðar. Þegar komið er fram í desembermánuð er mikilvægt að nýta vel hverja þá stund sem birtu nýtur.

Ágætt veður var á landinu í gær og leiðir greiðar. Þegar komið er fram í desembermánuð er mikilvægt að nýta vel hverja þá stund sem birtu nýtur. Í eftirmiðdaginn breytist veröldin svo í blóðrautt sólarlag, eins og sjá mátti á vesturhimni í gær í þann mund sem áætlunarbíllinn frá Akureyri renndi inn á Húsavík. Tvær vikur eru í dag uns daginn fer aftur að lengja og eru flest mannanna börn orðin, að ætla verður, óþreyjufull eftir þeim umsnúningi.

Ágætt veður og stillt var fyrir á Norðurlandi gær eins og víðast annars staðar á landinu. Veður verður á þeim nótum allra næstu dagana og því fín skilyrði til þess að fara í gönguferðir.

Þegar kemur svo fram í miðja vikuna fer að hlýna með slyddu og rigningu svo snjó á láglendi mun yfirleitt taka upp. Að baki er því grimmur frostakafli, með nærri 10 stiga gaddi í efri byggðum Reykjavíkur, að viðbættri vindkælingu sem bætti um betur. Almennt þykir ástandið í afstaðinni kuldatíð ekki hafa orðið jafn alvarlegt og varað var við, en talsverður viðbúnaður var hjá hitaveitum og öðrum ef í óefni færi sem ekki varð. sbs@mbl.is