Steinþór Jónsson
Steinþór Jónsson
Eftir Steinþór Jónsson: "Auk þess er vínmenning Íslendinga sífellt í þróun og má segja í dag að víns sé notið á Íslandi en ekki bara neytt."

Mánudaginn 24. nóvember sl. rita tveir andans menn, þó ekki vínandans, þeir Kalle Dramstad og Emil Juslin, grein í Morgunblaðið með sínar tillögur til handa Íslendingum um hvernig þeir skuli haga sölu áfengis í landinu. Benda þeir dómsmálaráðherra á þá lausn, vilji hún jafna samkeppnisstöðu gagnvart erlendum netverslunum sem selja áfengi yfir landamæri, að hreinlega banna Íslendingum að eiga viðskipti við þær. Þar með séu Íslendingar jafnsettir sem áður, eingöngu hið opinbera mætti skaffa þeim hina almennu verslunarvöru sem áfengið sannarlega er. Umræddir greinarhöfundar titla sig sem fulltrúa IOGT í Svíþjóð og Brussel. Sé það rétt munað hjá mér eru IOGT samtök þeirra sem neyta ekki áfengis og vilja síður leyfa nokkrum öðrum það að gera. Með það í huga er ekki skrýtið að fá slíkan pistil umvöndunar úr þeirri áttinni.

Ungmenna þarf að gæta enn á ný

Tiltaka þeir félagar ýmis rök fyrir banninu eins og gæta þurfi að lýðheilsu og æsku landsins. Þeim félögum mætti benda á að unglingadrykkja á Íslandi hefur verið á stöðugri niðurleið yfir langt tímabil og helsta ógn sem steðjar að ungu fólki í dag kemur úr annarri átt. Auk þess sem vínmenning Íslendinga er sífellt í þróun og má segja í dag að víns sé notið á Íslandi en ekki bara neytt. Skiljanlega er erfitt fyrir hóp fólks, sem hefur kannski aldrei drukkið yfirhöfuð eða drakk svo mikið að það olli sjálfum sér og öðrum skaða, að skilja að hægt sé bæði að drekka hóflega og njóta þess um leið. Og það að fortíðarsaga áfengisneyslu á Íslandi eða hvar sem er annars staðar eigi að stýra framtíðarneyslu og fyrirkomulagi áfengissölu er nokkuð langsótt miðað við þá jákvæðu þróun sem orðið hefur í þessum málum. Netverslun með áfengi er nútímavæðing verslunar. Ég sjálfur hef engar skoðanir á því hvernig Svíar selja hver öðrum vín. Kalle og Emil fylgjast með því, beintengdir við Brussel.

Höfundur rekur fyrirtæki.