Byrjaði ung „Ég byrjaði að skrifa tólf ára gömul og það var eitt af mínum helstu áhugamálum,“ segir rithöfundurinn Kristín Björg Sigurvinsdóttir.
Byrjaði ung „Ég byrjaði að skrifa tólf ára gömul og það var eitt af mínum helstu áhugamálum,“ segir rithöfundurinn Kristín Björg Sigurvinsdóttir. — Morgunblaðið/Eggert
Dóttir hafsins heitir skáldsaga fyrir ungmenni eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur, sem er hennar fyrsta skáldsaga og fyrsta bókin í þríleik sem hún nefnir Dulstafi.
Dóttir hafsins heitir skáldsaga fyrir ungmenni eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur, sem er hennar fyrsta skáldsaga og fyrsta bókin í þríleik sem hún nefnir Dulstafi. Hún segist lengi hafa gengið með það í maganum að skrifa bók og reyndar lagt drög að henni þrettán ára gömul. „Ég byrjaði að skrifa tólf ára gömul og það var eitt af mínum helstu áhugamálum. Þegar ég var þrettán ára skrifaði ég fyrstu útgáfu af sögunni og hélt svo áfram að skrifa næstu bækur í þríleiknum alveg þar á síðasta ári í menntaskóla. Þá fór lífið einhvern veginn á fullt og svo byrjaði svo í lögfræði.

Ég varð að einbeita mér að fullu að lögfræðinni. enda mjög krefjandi nám og á meðan lagði ég skrifin nánast alveg til hliðar. Það var ekki fyrr en ég var búin að vinna sem lögfræðingur í tæp tvö ár að ég tók þetta gamla handrit upp úr skúffunni og las það aftur. Það kom mér svona líka skemmtilega á óvart og ég ákvað að endurskrifa alla bókina en byggja hana samt á hugmyndunum úr gamla handritinu.“

Dóttir hafsins segir frá Elísu, unglingsstúlku sem býr í sjávarplássi á Vestfjörðum. Kristín segir að Vestfirðir hafi orðið fyrir valinu þar sem veigamikil atburðarás eigi sér stað í Norður-Íshafi og henni hafi fundist Vestfirðir passa svo vel inn í sögusviðið. Elísa segir hún að sé að einhverju leyti byggð á henni sjálfri. „Þegar ég skrifaði bókina 13 ára þá studdist ég við hvernig ég sjálf hefði mögulega brugðist við í aðstæðum og reyndi að setja mig í hennar spor.“

— Þegar Elísa „týnist“ kemur vel í ljós að raun hugsar allt þorpið um hana, enda standa allir meira og minna jafnir, en samfélagið í sjónum er býsna ólíkt.

„Já, ég vildi hafa þau ólík. Ég vildi ekki einfaldlega færa menningu manna neðansjávar heldur vildi ég búa til eitthvað nýtt og öðruvísi, hafa aðrar reglur og hefðir. Eftir því sem maður kynnist marþjóðinni betur var það einmitt mín von að lesandi sæi að undir hörðu yfirborði leyndist hlýja og traust vinátta.“

arnim@mbl.is