[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is 66 starfsmenn bílaleigunnar Hertz verða endurráðnir. Gengið verður frá síðustu ráðningunum í þessari viku, en umræddu starfsfólki hafði áður verið sagt upp í septembermánuði.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

66 starfsmenn bílaleigunnar Hertz verða endurráðnir. Gengið verður frá síðustu ráðningunum í þessari viku, en umræddu starfsfólki hafði áður verið sagt upp í septembermánuði. Þetta segir Sigfús Bjarni Sigfússon, forstjóri Hertz, í samtali við Morgunblaðið.

Líkt og hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum var tekjufall Hertz algjört í kjölfar faraldurs kórónuveiru. Segir Sigfús að fyrirtækið hafi því neyðst til að ráðast í hópuppsögn. Alls starfa á áttunda tug starfsfólks hjá fyrirtækinu, en nær öllum var sagt upp í kjölfar faraldursins. Að sögn Sigfúsar eru bjartari tímar fram undan. „Það er miklu bjartara yfir öllu. Maður finnur fyrir rosalegri bjartsýni á markaðnum. Það er ljós við enda ganganna,“ segir Sigfús og bætir við að vonir séu bundnar við að ferðaþjónustan taki við sér á næsta ári. Þá hafi fregnir af bóluefni jákvæð áhrif á markaðinn.

140 starfsmenn þegar mest lét

Aðspurður kveðst hann þó eiga erfitt með að spá fyrir um hvenær á næsta ári ferðamenn byrja að ferðast hingað til lands. „Það er alveg rosalega erfitt að spá í þetta. Maður veit ekki hvaða lönd taka við sér fyrst þannig að það er mjög erfitt að gera áætlanir,“ segir Sigfús.

Hann segir að stjórnendur bílaleiga viti síðastir af ferðalögum komandi mánaða. Af þeim sökum eigi hann erfitt með að spá fyrir um fjölda ferðamanna á næsta ári. „Í áætlun Íslandsbanka er gert ráð fyrir um 800 þúsund ferðamönnum. Fólk bókar auðvitað flug fyrst og svo tekur hitt við sér þegar nær dregur,“ segir Sigfús sem gerir ráð fyrir að starfsmönnum muni fjölga í sumar. Þegar mest lét voru 140 manns starfandi hjá Hertz. Eftir endurráðningu er starfsmannafjöldinn 74.

Margir bílar í Covid-leigu

Ljóst er að fjöldi þeirra sem leigja bíla um jólin verður umtalsvert minni en síðustu ár. Þó er Hertz með margar bifreiðar í langtímaleigu. „Það er mikið hjá okkur í langtímaleigu, enda eru svo miklu fleiri í landinu en hafa verið. Við erum náttúrulega með margar bifreiðar í svokallaðri Covid-leigu. Hins vegar er það svo að jólatraffíkin er eiginlega engin miðað við síðustu ár.“