Unnur Sverrisdóttir
Unnur Sverrisdóttir
Fyrstu tölur benda til þess að nýjar umsóknir um atvinnuleysisbætur í nóvember hafi verið færri en í október, að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar.

Fyrstu tölur benda til þess að nýjar umsóknir um atvinnuleysisbætur í nóvember hafi verið færri en í október, að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar. Hún tekur fram að ekki sé búið að vinna úr upplýsingunum og því of snemmt að segja til um hvert atvinnuleysið var í nóvember og leggja mikið út af þeim.

Sérstaklega spurð að því hvort fregnir af bóluefni hafi dregið úr uppsögnun eða stuðlað að ráðningum segist Unnur engar upplýsingar hafa um það, enn sem komið er.

Reynist fyrstu upplýsingar um nýskráningu atvinnuleysis í nóvember gefa rétta mynd af þróuninni sýnir það að þótt atvinnuleysi haldi áfram að aukast eykst það ekki eins hratt og í mánuðinum á undan. Unnur segir að þótt atvinnuleysi sé mikið núna sé það í grunninn árstíðabundið atvinnuleysi sem aukist á haust- og vetrarmánuðum og nái hámarki í janúar en fari þá að minnka aftur.

Almennt atvinnuleysi fór í 9,9% í október og þá fjölgaði verulega hópi þeirra sem eru í minnkuðu starfshlutfalli þannig að heildaratvinnuleysi á landinu var 11,1% í mánuðinum. Var það heldur meira en reiknað hafði verið með. Tölur um nóvember liggja ekki fyrir en Vinnumálastofnun spáði í byrjun nóvember að það myndi halda áfram að aukast, yrði 11,9% í nóvember og 12,2% í desember. helgi@mbl.is