Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Hagsmunasamtök heimilanna telja það óréttmætt að þvinga neytendur í viðskipti við einkafyrirtæki í einokunarstöðu með því að krefjast auðkenningar með rafrænum skilríkjum svo þeir geti sótt réttindi sín á grundvelli laga.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Hagsmunasamtök heimilanna telja það óréttmætt að þvinga neytendur í viðskipti við einkafyrirtæki í einokunarstöðu með því að krefjast auðkenningar með rafrænum skilríkjum svo þeir geti sótt réttindi sín á grundvelli laga. Segja samtökin dæmi um að einstaklingar hafi orðið fyrir alvarlegum réttarspjöllum af þessum ástæðum.

Kemur þetta fram í umsögn samtakanna um drög að frumvarpi til laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda sem fjármálaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Spurður um dæmi um réttarspjöll af þessum ástæðum nefnir Guðmundur Ásgeirsson, sérfræðingur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, leiðréttinguna svokölluðu þegar skuldarar fengu endurgreiðslu á hluta fasteignalána sinna. Gert hafi verið að skilyrði að fólk staðfesti umsókn með rafrænum skilríkjum. Segist hann vita um fólk sem ekki hafi fengið leiðréttingu af því það var ekki með rafræn skilríki.

Segir Guðmundur að hópur fólks hafi ekki rafræn skilríki. Það geti bæði verið vegna skorts á nauðsynlegri tækniþekkingu, til dæmis hjá eldra fólki, en einnig vegna þess að fólk kæri sig ekki um að vera þvingað í viðskipti við eina fyrirtækið sem starfar á þessum markaði, Auðkenni hf. Sjálfur segist hann vera í síðarnefnda hópnum.

Ekki nóg að gera aðgengilegt

Í umsögn sinni gera Hagsmunasamtökin einnig athugasemdir við það ákvæði frumvarpsins að nóg sé að gera gögnin aðgengileg í rafrænu pósthólfi, svo það hafi sömu réttaráhrif og formleg birting með ábyrgðarsendingu eða stefnuvotti. Réttaráhrif slíkrar birtingar þurfi að vera háð því skilyrði að viðkomandi einstaklingur hafi raunverulega móttekið umrædd gögn, svo sem með því að opna tilkynningu í rafrænu pósthólfi, eða smella á hnapp til að staðfesta móttöku.

Guðmundur segir að þetta geti skipt máli við birtingu á stefnu og tilkynningu frá sýslumanni um fjárnám og nauðungarsölu. Ef fólk hafi ekki fengið örugglega til sinnar vitunar slíkar tilkynningar kunni það að tapa dómsmálum sjálfkrafa vegna þess að það hafi ekki vitað af stefnu og því ekki tekið til varna. Einnig kunni fólk að lenda á vanskilaskrá vegna árangurslauss fjárnáms með tilheyrandi afleiðingum eða jafnvel missa húsnæði sitt.

„Þetta eru ekki léttvægir hlutir. Það er rík ástæða fyrir því að í lögum eru strangar reglur um birtingu á stefnum og öðrum slíkum tilkynningum,“ segir Guðmundur.