Páll Pétursson bóndi, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, fæddist 17. mars 1937. Hann lést á 23. nóvember 2020. Páll var jarðsunginn 5. desember 2020.

Páll Pétursson var skemmtilegur maður sem gott var að vinna fyrir. Hann var hreinn og beinn svo menn vissu hvar þeir höfðu hann og fyrir það var hann virtur eins og margt annað. Hann hafði þann magnaða hæfileika að geta sest niður með penna í hönd og ritað grein í blað eða minningargrein án þess að leiðrétta eða breyta því sem hann hóf að skrifa. Hann var líka þægilegur í umgengni og hlustaði á fólk sem fékk oftast viðbrögð hratt og örugglega. Páll hafði skoðanir og lá ekki á þeim og Páll talaði íslensku við fólk, ekkert rósamál. Hann notaði orð sem notuð voru í sveitinni, orð sem hann ólst upp við og aldrei voru sögð til að meiða eða særa en kannski ekki „nútímaleg“. Hann talaði oft um sveitina fyrir norðan þar sem hann var kóngur í ríki sínu, þekkti hverja þúfu og hvern mann enda voru ekki margar göngurnar sem hann missti af.

Páll var glaðsinna og hafði gaman af því að segja sögur en líka að hlusta á aðra. Páll gat líka tekið rökum þótt það væri stundum löng leið að því að sannfæra hann. En ekki alltaf. Eitt sinn þurfti að skipa hóp til að taka út nektardansstaði borgarinnar, m.a. með það að markmiði að þá mætti e.t.v. banna og vildi Páll að ég færi fyrir þeim hópi. Einn morguninn er ég geng inn til Maríu ritara þá sitja þau þar, Páll og María, og Páll segir „Gunnar þú ferð ekki á þessa nektarstaði, María segir ekki hægt setja fjölskyldumann í þetta.“ Svipnum á honum gleymi ég aldrei enda ljóst að hann skemmti sér vel yfir ákveðni ritarans. Hann sagði líka skemmtilega frá og stundum með mikilli stríðni. Í rútuferð um ónefndan dal sagði hann frá mönnum og búskap, hverjir bjuggu vel og hverjir ekki. Fljótlega áttuðum við okkur á því að góðu búmennirnir voru framsóknarmenn en hinir ekki.

Hann var líka vinur sem gott var að tala við og Páll sýndi mér mikið traust. Hann veiktist á þessum tíma og er lagður inn á sjúkrahús og fer í aðgerð. Ekki kom til greina að fara í leyfi eða segja af sér þótt einhverjir hefðu kosið það heldur fórum við Sigrún í það að hjálpa honum að fjarstýra öllu af sjúkrahúsinu og hefja kosningabaráttuna. Páll var heppinn að kynnast Sigrúnu og eins ólík og þau voru á margan hátt þá voru þau samt svo lík. Ákveðin, hreinskiptin og börðust saman í gegnum þykkt og þunnt fyrir hugsjónum sínum, ekki síst jafnréttismálum.

Ég á góðar minningar um Pál og það sem hann gerð fyrir land og þjóð, hans hugsjónir og baráttumál sneru ekki síst að velferð landsmanna. Hann var húmoristi og hagyrðingur góður, hann var umbótasinni en um leið íhaldssamur, skildi vel nauðsyn framþróunar en líka mikilvægi þess að halda í traust og góð gildi og hefðir. Páll gaf mér eitt sinni ráð eftir eitthvert glappaskotið sem ég hugsa oft um. „Gunnar, þegar deginum er lokið og við förum að sofa þá skiptir mestu að hafa gert fleira rétt en rangt því við munum alltaf gera einhver mistök.“

Traustur og góður maður er horfinn með Páli en verk hans lifa hann sem og minningin um gæði hans og dugnað. Sigrúnu og fjölskyldunni allri sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Gunnar Bragi.

„Drífðu þig nú að borða drengur, við náum ekki nema örfáum bæjum ef þú ert svona lengi.“ Páll Pétursson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, var að reka á eftir mér þar sem ég sat í eldhúsinu að Höllustöðum fyrir tæpum 10 árum og rétt nýbyrjaður að bragða á nýbökuðum pönnukökum með rjóma. Páll var staðinn upp og vildi að við næðum sem fyrst að heimsækja óákveðna kjósendur sem við og gerðum. Það væri ástæðulaust að dvelja lengi við á Höllustöðum, er standa á fallegu bæjarstæði og tilkomumiklu.

Húnvetningnum Páli Péturssyni var falið vandasamt hlutverk, að vera fulltrúi síns héraðs, þar sem stjórnmál voru af mörgum, sem þá byggðu landið, talin vera viðfangsefni yfirburðamanna. Þar gilti að hafa tilfinningu fyrir flóknum pólitískum línum og geta greint með sérstakri gáfu sem ekki væri öllum gefin. Páli var falið að taka við móðurbróður sínum, Birni á Löngumýri, merkum og eftirtektarverðum stjórnmálamanni á Alþingi í áratugi. Páll var 37 ára er hann tók sæti á Alþingi að loknum kosningunum 1974. Hann hafði tekið að sér ýmis félagsmálastörf í héraðinu fljótlega eftir að hafa hafið búskap 1957. Hann var strax kosinn í stjórn Félags ungra framsóknarmanna í Austur-Húnavatnssýslu og varð svo formaður þess félags. Þá átti hann sæti í stjórn kjördæmissambands framsóknarmanna í Norðurlandskjördæmi vestra og miðstjórn flokksins.

Páli voru frá upphafi byggðamál hugleikin, lagði hann sig fram við að jafna rétt landsmanna til atvinnuuppbyggingar og styrkja trú fólks á dreifbýlinu og möguleikum til lífsbjargar. Páli var það hugleikið að ungt og duglegt fólki hefði tækifæri til að stofna framtíðarheimili í héraði og styrkja með því íslenskan landbúnað. Af mörgum framfaramálum sem Páll beitti sér fyrir má nefna bætta símaþjónustu á landsbyggðinni en hann hafði sjálfur búið við mikið öryggisleysi í sinni heimasveit af þeim ástæðum. Páli voru falin mörg vandasöm og mikilvæg verkefni á tíma hans á Alþingi. Hann starfaði mikið á norrænum vettvangi, hann var m.a. forseti Norðurlandaráðs 1985 og 1990. Páll var formaður þingflokks framsóknarmanna frá 1980 til 1994. Páll var félagsmálaráðherra árin 1995 til ársins 2003. Sem félagsmálaráðherra kom Páll mörgu til leiðar og meðal annars því að stigið var risastórt skref hér á landi í átt að jafnrétti kynjanna og að aukinni velferð íslenskra barna með fæðingarorlofslöggjöfinni. Svo framsækin þóttu þessi lög fyrir 20 árum að lönd víðs vegar um heiminn hafa litið til þeirra sem fyrirmyndar fyrir jafnréttissamfélag sem lætur sig hag fjölskyldna varða. Það var vel við hæfi að ég mælti fyrir nokkrum dögum fyrir frumvarpi að endurskoðaðri fæðingarorlofslöggjöf sem bætir enn frekar á þann góða grunn sem Páll heitinn Pétursson lagði fyrir samfélag okkar.

Ég vil senda Sigrúnu og fjölskyldu Páls innilegar samúðarkveðjur og um leið þakka Páli fyrir framsækin störf í þágu lands og þjóðar.

Ásmundur Einar Daðason,

félags- og barnamála-ráðherra.