Halldór Þór Grönvold fæddist í Reykjavík 8. mars 1954 og ólst þar upp. Hann lést á Landspítalanum þann 18. nóvember 2020 eftir stutt veikindi, 66 ára að aldri.

Foreldrar hans voru Kveldúlfur Grönvold, f. 12. mars 1901 á Siglufirði, d. 24. apríl 1962, og Emilía Oddbjörg Grönvold, f. 1. apríl 1912 í Litlu-Skógum í Stafholtstungum, d. 1. apríl 1996.

Halldór átti einn bróður: Karl Gústaf Grönvold, f. 28. október 1941 í Reykjavík.

Eiginkona Halldórs var Greta Baldursdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari, f. 30. mars 1954. Foreldrar hennar voru Baldur Guðmundsson, f. 11. apríl 1929 í Reykjavík, d. 21. mars 2016, og Anna Björg Ósk Jónsdóttir, f. 3. desember 1928 á Hafnarnesi í Fáskrúðsfirði, d. 27. mars 2012.

Halldór og Greta gengu í hjónaband 8. janúar 1982.

Börn þeirra eru: 1) Eva, f. 16. apríl 1979, gift Björgvini Inga Ólafssyni, f. 9. júní 1978. Börn þeirra eru Benedikt, f. 1. maí 2007, Baldur, f. 9. október 2011, og Hildur María, f. 5. september 2019. 2) Arnar, f. 27. febrúar 1991.

Halldór lauk námi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og meistaranámi í vinnumarkaðsfræðum við University of Warwick á Englandi. Halldór helgaði verkalýðshreyfingunni alla starfsævi sína eftir að hann lauk námi. Fyrst starfaði hann sem skrifstofustjóri hjá Iðju, félagi verksmiðjufólks í Reykjavík, en fluttist til ASÍ árið 1993 sem skrifstofustjóri. Frá 2001 var hann aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ og deildarstjóri félags- og vinnumarkaðsdeildar. Jafnframt hélt Halldór utan um störf miðstjórnar ASÍ frá því hann kom til starfa. Samhliða störfum sínum fyrir ASÍ kenndi Halldór vinnumarkaðsfræði við Háskóla Íslands.

Halldór vann alla tíð ötullega að réttindum launafólks og var mjög mótandi í þróun íslenska vinnumarkaðsmódelsins. Hann sat í stjórn Vinnumálastofnunar frá 1996 og beitti sér í fræðslumálum innan verkalýðshreyfingarinnar, einkum starfsmenntamálum, og var fulltrúi ASÍ í starfsmenntasjóði og síðar í stjórn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Halldór átti sæti í samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins hjá EFTA og voru Evrópumál honum hugleikin. Hann tók virkan þátt í samningum á Evrópuvísu um fjölskylduvænni vinnustaði og breytingu á vinnutímatilskipuninni. Halldór tók virkan þátt í breytingum á fæðingarorlofslöggjöfinni sem náðust árið 2000, þar á meðal rétti feðra til töku fæðingarorlofs. Á síðustu árum beitti Halldór sér sérstaklega gegn misnotkun á erlendu vinnuafli og tók þátt í gerð kjarasamninga og lagasetningar um málefni erlends vinnuafls. Jafnframt beitti hann sér fyrir aðgerðum til að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Útför Halldórs fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 7. desember 2020, kl. 13. Vegna aðstæðna geta aðeins nánir aðstandendur og vinir verið viðstaddir.

Athöfninni verður streymt á slóðinni: https://youtu.be/Ezc9enwZ3PY

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Ekki óraði mig fyrir því síðastliðið sumar að hrausti, sterki og, að ég hélt, ósigrandi pabbi minn ætti eftir að yfirgefa okkur áður en aðventuna bæri að garði. Og ekki grunaði mig þá að hann ætti eftir að verða svo veikur að hans einstaki styrkur og þrek nægðu ekki til að ráða niðurlögum vágestsins sem bankaði upp á hjá okkur í ágústmánuði.

Pabbi minn var snjall, duglegur, greiðvikinn og ósérhlífinn. Hann var réttsýnn og fylginn sér, og jafnaðarmaður af lífi og sál sem helgaði starfsævi sína baráttunni fyrir bættum hag hinna vinnandi stétta. Hann lét til sín taka í opinberri umræðu og ég fylltist stolti yfir því hvernig hann léði þeim rödd sem enga hafa. En pabbi minn lét ekki við það sitja að taka þátt í umræðunni heldur lét hann verkin tala. Þannig vakti það athygli og undrun fyrir rúmum 40 árum þegar hann tók að sér, samhliða ritgerðarskrifum í háskólanum, að gæta litlu dóttur sinnar svo nýbökuð móðirin kæmist til vinnu. Slík sjálfskipuð og ólaunuð feðraorlof voru fáheyrð á þeim tíma, en hann pabbi átti reyndar eftir að taka þátt í að breyta því mörgum árum síðar. Svo rölti hann með mig í kerru í vinnuna til mömmu til að gefa mér að drekka.

Þannig var pabbi minn. Mikill fjölskyldumaður sem sinnti föðurhlutverkinu af alúð. Hann sýndi skólagöngu og tómstundum okkar systkina, og síðar barnabarnanna, mikinn áhuga og mætti til að mynda nánast undantekningarlaust á íþróttakappleiki hjá okkur öllum í hinum ýmsu íþróttum, hvert á land sem var. Þrátt fyrir að hann hafi ekki haft mjög hátt í stúkunni þá var gott að vita af honum þar og finna fyrir stuðningi hans.

Pabbi var allra besta fyrirmynd sem hægt er að hugsa sér og með verkum sínum innrætti hann okkur metnað, auðmýkt og náungakærleik. Hann bar virðingu fyrir öllum, átti ekki óvini og var svo vel liðinn af samferðarmönnum sínum að eftir var tekið.

Undanfarin ár áttu afabörnin hug hans allan og hann sá ekki sólina fyrir þeim. Afi Dóri átti sérstakt vinasamband við afastrákana sína, Benedikt og Baldur, og þótt litla Hildur María hafi ekki verði nema rétt tæplega eins árs þegar hann fór inn á spítalann þá hafði hún fyrir löngu heillað afa upp úr skónum og hann sat og stóð eftir hennar hentisemi.

En nú sjáum við á eftir sterka og trausta klettinum sem við reiddum okkur svo mikið á. Elsku besta pabba mínum sem fór allt of fljótt og næstum fyrirvaralaust frá okkur. Söknuðurinn er nánast óbærilegur og það er mér lífsins ómögulegt að útskýra fyrir litlu strákunum mínum, hans stærstu aðdáendum, hvernig það megi vera að afi þeirra og vinur sé farinn frá okkur og komi ekki aftur.

Ég kveð með orðum afastráksins Benedikts sem bárust mér í skilaboðum þegar við mamma og Arnar fylgdum elsku pabba síðasta spölinn: „Mamma, þú verður að lofa mér að segja afa hversu mikið ég elska hann og hversu mikið mér þykir vænt um hann og hversu þakklátur ég er að hafa fengið hann sem afa, því hann er besti afi í heimi.“

Hvíldu í friði elsku pabbi minn.

Þín,

Eva.

Fallinn er frá yndislegi mágur okkar Halldór eða Dóri hennar Gretu eins og við kölluðum hann þar sem sjaldnast var annað þeirra nefnt nema hitt nafnið kæmi með því þau hjónin voru afar samrýnd og miklir vinir.

Dóri kom við á Borgarspítalanum til að fara í blóðprufu á leið sinni til vinnu í lok ágúst en átti því miður ekki afturkvæmt úr þeirri heimsókn. Hann greindist með bráðahvítblæði og það felldi hann á innan við þremur mánuðum. Dóri var ávallt kletturinn í fjölskyldunni, rólegur, yfirvegaður, hlýr og kom fram af virðingu við allt fólk. Barnavinur mikill og þegar við stórfjölskyldan fórum í árlegt frí okkar til Ítalíu var enginn með áhyggjur af börnunum því þau voru jú að leika við Dóra sinn og væru okkar börn ekki til staðar þá komu bara önnur börn til skrafs og ráðagerða enda stafaði einstök hlýja af Dóra.

Dóri var ætíð bóngóður og hann var mjög verklaginn og hafði yndi af alls konar smíðavinnu. Eru æði mörg heimili í fjölskyldunni sem hann mætti inn á með bakpokann sinn, klyfjaður græjum, til að setja upp ljós og myndir og þess vegna skella parketi á gólf fyrir okkur. Aldrei neitt mál hjá Dóra.

Þegar þau hjón keyptu sér sumarbústað með sínum bestu vinum þá var nú Dóri í essinu sínu því það þurfti að laga pall, smíða, græja og gera. Dóri var verkalýðsmaður og óþreytandi að berjast fyrir réttindum verkafólks og munum við ekki eftir 1. maí öðruvísi en hann hafi verið úti á landi að flytja ræður eða þá í kröfugöngu. Dóttir hans Eva var ekki há í loftinu þegar hún sat á háhesti á pabba sínum í kröfugöngu.

Um leið og við kveðjum yndislega mág okkar sendum við elsku Gretu, Evu, Arnari og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jenný Anna, Ingibjörg Jóna, Guðlaug Björk, Ingunn, Guðmundur, Hilma Ösp og Steinunn.

„Það er ósköp tómlegt hér við hliðina á mér,“ voru síðustu skilaboð mín ásamt baráttukveðjum til vinnufélaga míns og vinar Halldórs Grönvold á andlátsdegi hans þann 18. nóvember sl. Skömmu eftir að hann hóf störf hjá Iðju – félagi verksmiðjufólks í Reykjavík hóf ég störf sem lögmaður félagsins og nokkrum árum eftir að hann flutti sig yfir til ASÍ gekk ég til liðs við þann góða hóp sem þar vann. Þar völdumst við saman með skrifstofur hlið við hlið með kaffistofuna beint fyrir framan okkur. Þeirri skipan héldum við þrátt fyrir flutninga og ýmsar tilfæringar næstu áratugina og vörðumst staðfastlega öllum kröfum um aðskilnað, stutt í kaffi, stutt í spjall og fátt sem fram hjá fór. Ég held að við höfum notið ágætlega þekkingar og reynslu hvor annars, að minnsta kosti gátum við svarað hvor fyrir annan um flest það sem að störfum okkar laut og viðkom úrlausnarefnum kjarasamninga og vinnuréttar. Nú ef ekki, þá var auðvelt að taka stutt hlé í samtali, kíkja í gættina og tékka sig af. Það var einnig einkar gott að takast á við flókin og erfið verkefni með Halldóri og þar skipti mestu máli að hann hafði skýra sýn um hvert hlutverk hann hefði í störfum fyrir málstað launafólks og innan hreyfingarinnar, gat skipst á skoðunum um markmið og leiðir og leyft sér að vera ósammála en alltaf þannig að engum duldist hvaða hagsmuni hann var að verja. Hann vissi að á vinnumarkaði lýkur engri deilu, erfiðri eða léttri, fyrr en henni lýkur – með samningum. Annað er ekki í boði og þá stendur fólk upp frá borðum og leggur ágreininginn aftur fyrir sig. Á þeim áratugum sem við unnum saman skildumst við aldrei ósáttir og það er ekki lítils virði þegar litið er til baka. Í störfum mínum var Halldór mér því afskaplega mikilvægur ráðgjafi, félagi og vinur með sinn hafsjó af fróðleik, léttu lund, lausnamiðuðu hugsun og óbilandi áhuga á málefnum verkalýðshreyfingarinnar og íslensks vinnumarkaðar. Eftir hartnær 40 ára samstarf er því margra góðra stunda að minnast úr leik og starfi sem of langt er að telja. Þar falla í einn farveg minningar úr ferðalögum innanlands og utan, úr löngum samningalotum og stundum löngum rökræðum um landsins gagn og nauðsynjar. Halldór var að mörgu leyti dulur um sitt einkalíf en engum duldist hversu náin þau Greta voru og yndislegt að fá að fylgjast með þeim í gegnum árin og þeirri alúð og fegurð sem þau lögðu í samband sitt. Ég votta henni, börnum þeirra, barnabörnum og ættingjum mína innilegustu samúð. Þeirra missir er mikill. Nú skilur leiðir. Hafðu þökk kæri vinur, ég kveð þig með djúpri virðingu og söknuði.

Magnús M. Norðdahl.

Halldór Grönvold borðaði ekki skötu. Þess í stað sá hann staðfastlega til þess að þegar yngri kynslóðin hafði kyngt hinum skyldubundna smakkbita á ári hverju var okkur öllum tryggð pítsa, og það helst í öruggri fjarlægð frá kæstum kræsingum. Þegar við svo urðum eldri og þóttumst stórkarlaleg vera farin að hafa smekk fyrir þessu rammíslenska góðgæti þá kímdi Dóri bara, borðaði sitt rúgbrauð og rófustöppu og beindi góðlátlegum augum til okkar með svip sem kannski gaf til kynna að hann vissi eitthvað sem við ekki gerðum. Það er einmitt sá svipur, og þá sérstaklega hin lúmska glettni einstaklega hlýrra augna, sem er og verður það sem ég sé þegar ég hugsa til Dóra. Ég þekkti Dóra sem einstakan mann sem öll börn drógust að, sem grínaðist lúmskt og brosti oft og sem virtist aldrei tapa yfirvegun sinni og ró. Göfug störf í þágu íslensks verkalýðs voru nokkuð sem ég heyrði af síðar meir en þó aldrei frá honum sjálfum enda lét hann ekki hátt af átökum og afrekum á þeim vettvangi. Þegar ég fór svo sjálf síðar meir að máta mig við ólíkar hagfræðikenningar og stjórnmálahugmyndir hlustaði Dóri meira en hann talaði og spurði áleitinna spurninga sem fengu mig til að staldra við og hugsa málið aftur. Þannig skildi hann mikið eftir án þess nokkurn tíma að þurfa að hafa hátt um það. Þannig var hann einstakur.

Minning Dóra mun lifa í ótal gleðistundum sem einkenna uppvaxtarárin öll. Hann var fyrirmynd samkenndar og náungakærleika sem hann veitti af sér öllum þeim sem voru svo heppnir að fá að kynnast honum. Það er skrýtið að hugsa til hátíðanna handan við hornið án Dóra með okkur til að brosa yfir skötunni, sofa yfir skaupinu eða halda heita pottinum heitum alla páskana. Skarð hans verður ekki fyllt en við minnumst hans með gleði og þakklæti, og kannski jafnvel pítsu á Þorláksmessu. Mínar kærustu samúðarkveðjur til ykkar Greta, Eva, Arnar og fjölskylda.

Lilja Dögg Jónsdóttir.

Missir og söknuður. Þessi orð hafa leitað á okkur að undanförnu þegar við syrgjum Halldór Grönvold sem var tekinn frá okkur allt of snemma. Hann sem hafði svo mikið að lifa fyrir, hann sem hafði svo mikið að gefa öðrum, hann sem var svo vandaður og traustur. Hann sem hefur staðið okkur svo nærri svo lengi og á svo þægilegan hátt.

Fyrstu kynnin voru fyrir um fjörutíu árum. Við bjuggum í sama húsinu við Hraunbæ og hann tók af skarið þegar átti að mála, við gætum vel gert það sjálf, sem við gerðum og þar með hófust tengslin. Með okkur tókst einlæg vinátta og samgangur í húsinu varð líkari því sem ein fjölskylda væri. Við komum úr ólíkum áttum, höfðum ólíkan bakgrunn og stunduðum ólík störf en sameinuðumst í gleði og vináttu. Oft var kátt á hjalla í Hraunbænum og börnin okkar erfðu vinskapinn.

Árin liðu og við fluttum úr Hraunbænum en tengslin héldust. Saman allar verslunarmannahelgar í tjaldútilegum hér og þar. Saman á þorrablótum í einhverjum bústaðnum. Saman í páskabústað alltaf. Saman margar aðrar helgar á hverju ári í bústöðum. Saman í smurbrauði og ákavítissnafsi á aðventunni. Saman í skötunni á Þorláksmessu. Saman í öllum viðburðum í fjölskyldunum. Saman öll gamlárskvöld. Saman í ferðalögum innanlands og erlendis. Greta og Dóri, Magga og Ómar, Hildur og Jón Baldvin. Saman flestum stundum í vinskap, trausti og gleði. Börnin þekktu ekki annað og annað kom aldrei til greina hjá þeim.

Líklega var það skrifað í skýin að við færum alla leið – keyptum saman bústað á Flúðum. Við vorum búin að vera í sama bústaðnum þar mjög oft og urðum hálfumkomulaus þegar hann var ekki lengur í boði. Drógumst eins og í leiðslu að Ásabyggðinni og festum kaup á bústað sem varð „óðalið okkar“. Þar höfum við í fjögur ár bætt fjölmörgum stundum í dýrmætt safn samverustunda. Nýr kafli hófst í sögu sem við höfðum væntingar um að yrði löng og sameiginleg. Í óðalinu höfum við notið þess að vera en líklega ekkert okkar eins mikið og Dóri. Þar fékk hann útrás fyrir enn eina hæfileikana sem hann bjó yfir en hafði fengið fá tækifæri til að þroska. Dóri hefði allt eins getað lagt smíðar fyrir sig. Hann var ekki aðeins laginn með tommustokk, hamar, nagla og sög heldur með afbrigðum útsjónarsamur, vandvirkur, nákvæmur og með næmt auga fyrir fegurð í vönduðu verki. Millimetri til eða frá var slæm skekkja í hans augum. Svo var það potturinn að loknu góðu dagsverki – Dóri oftar en ekki í honum fram á nótt!

Dóri var ekki maður sem fór mikið fyrir. Hann var ljúfmennið sem lætur verkin tala en miklast ekki af þeim sjálfur. Við sem stóðum honum nærri kynntumst líka vel umhyggju hans, elsku og hjálpsemi í erfiðleikum annarra. Hann var barnagæla, börnin soguðust að honum og ekki bara vegna þess að hann fór með þeim í pítsu þegar við hin hámuðum í okkur skötu á Þorláksmessukvöldi – Dóri var ekki skötumaður!

Minningar um Halldór Grönvold hafa fyllt huga okkar að undanförnu. Fallegar minningar um góðan dreng og sannan vin.

Jón Baldvin, Svanhildur (Hildur), Ómar og

Margrét (Magga).

Við Jana kynntumst Dóra fyrst í Menntaskólanum í Hamrahlíð þar sem hann var litríkur marxisti og bóhem og áberandi í skólalífinu, virkilega klár strákur sem oftar en ekki ræddi mismunandi sjónarmið við kennara. Síðar lágu leiðir okkar Dóra saman á vettvangi Alþýðusambandsins þegar ég hóf störf þar og Dóri var að vinna hjá Iðju, félagi verksmiðjufólks. Nokkru síðar hóf Dóri svo störf hjá ASÍ og þar unnum við saman í rúm 15 ár, góður félagi að öllu leyti.

Dóri var eldhugi í störfum sínum hjá ASÍ og hafði mikinn félagslegan áhuga. Hann var þar að auki mjög fróður um sögu og þróun hreyfingarinnar og tengsl hennar við stjórnmálin. Mér er minnisstætt þegar við Dóri fórum einu sinni með Benedikt Davíðssyni forseta ASÍ í heimsókn til ritstjóra Morgunblaðsins, þeirra Matthíasar og Styrmis. Þarna vorum við stráklingarnir innan um þessa stóru menn sem ræddu söguna og baráttuaðferðir fyrr á tímum. Það leið ekki á löngu áður en Dóri blandaði sér í umræðuna og auðvitað af mikilli þekkingu. Ég man að hann ræddi um ræðu Bjarna Benediktssonar á Varðarfundi sem hafði skipt miklu máli á sínum tíma. Þar að auki var rætt um júnísamkomulag og fleira og ég sá að þessir eldri menn horfðu með aðdáun á þennan unga mann sem var svo vel að sér í þeirra áhugamálum og sýndi svona mikinn skilning á sögunni.

Svona var Dóri, það voru fáir sem stóðust honum snúning hvað varðaði þekkingu á sögu verkalýðshreyfingarinnar, þróun hennar og möguleikum og hann átti alltaf auðvelt með að tengja saman sögu og stöðuna í nútímanum. Með honum er horfinn afburðastarfsmaður og eldhugi sem skilur eftir sig stórt skarð. Við Jana vottum Gretu, Evu, Arnari og aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Ari Skúlason.

Ég hef aldrei kynnst annarri eins vinnuelju eins og hjá Halldóri Grönvold félaga mínum. Hann helgaði sig baráttu launafólks fyrir betra lífi og varði allri starfsævinni innan verkalýðshreyfingarinnar. Hann setti baráttuna ofar eigin frama, alltaf með nýjar hugmyndir, alltaf til í samstarf, alltaf harður þegar kom að því að tala fyrir bættum réttindum. Launafólk á honum að þakka baráttu fyrir lögum um keðjuábyrgð, um kennitöluflakk, um ný og bætt lög um starfskjör, baráttuna gegn mansali, um vinnustaðaeftirlit og um fæðingarorlof beggja foreldra, svo fátt eitt sé nefnt. Hann skildi mikilvægi þess að halda til haga sögu launafólks og sögu baráttunnar af því að hann vissi að sú saga mætti aldrei gleymast.

Þegar ég var kjörin forseti ASÍ var hann boðinn og búinn að veita mér alla þá hjálp sem ég þurfti, þröngvaði ekki hjálpinni upp á mig og reyndi aldrei að segja mér fyrir verkum en var til staðar og ég naut leiðsagnar hans í hvívetna. Alltaf hafði hann tíma og alltaf var hugsunin skýr og markviss. Aldrei nokkurn tímann varð ég vör við að hann setti mig niður vegna kynferðis eða aldurs enda var hann maður sem bæði skildi mikilvægi jafnréttis og endurnýjunar ásamt hinni sögulegu arfleifð. Hann var hrygglengja og hann var traust.

Stundum kom hann á skrifstofuna á morgnana og hafði „aðeins verið að hugsa málið í gærkveldi“. Það boðaði alltaf góðar hugmyndir og nýja hugsun. Í fordómum mínum varð ég alltaf jafn hrifin af því að „miðaldra maður“ hefði til að bera þessa fersku nálgun.

Þegar hugmynd kviknaði um að við myndum sýna félögum okkar í Palestínu samstöðu með ferð þangað og eftirfylgni þá sökkti hann sér í verkefnið af alúð og eldmóði og lét sig meira að segja hafa það að skrá sig á Facebook til að komast í samband við þá sem við vildum ná tengingu við. Hann vissi sem var að verkalýðsbaráttan er alþjóðleg og stuðningur við þá sem höllum fæti standa skilgreinir okkur sem samfélag og hreyfingu, hvort sem það er innanlands eða utan.

Eftir fráfall Halldórs hefur ein minning sótt sérstaklega á mig og það er þegar ég sat við hlið hans í flugvél á leið utan vegna vinnu og var að lesa bókina Gráskinnu eftir Arngrím Vídalín. Þar kemur fyrir setningin: „En Jóhannes var aldrei kallaður Grönvold. Það fæddist enginn með slíkt nafn; maður aflaði sér þess.“ Halldór Grönvold aflaði sér sannanlega nafnsins og hafði mjög gaman af þessari setningu líka. Heiðursmaður, húmoristi en fyrst og fremst einn besti félagi og baráttumaður sem ég hef kynnst. Það er okkar að taka við kyndlinum sem Dóri Grön bar alla starfsævina í þágu vinnandi fólks.

Ég votta Gretu, Evu og fjölskyldu og Arnari mína dýpstu samúð.

Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Það er stundum sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp eitt barn og það á svo sannarlega við um lífið í Hraunbæ 166 þegar við ólumst þar upp.

Íbúar stigagangsins urðu miklir vinir. Börnin gengu milli íbúða eins og þau byggju í þeim öllum og stundum var kvöldmatur borðaður á fleiri en einum stað eða þar sem hann var bestur. Þegar foreldrarnir voru í heimsókn hvert hjá öðru voru símarnir, sem þá voru með snúru, gjarnan settir fram á gang og dyrnar hafðar opnar. Stigagangurinn var leiksvæði okkar barnanna en segja má að hann hafi verið eins og eitt stórt heimili og í einni íbúðinni bjuggu Dóri, Greta og Eva, áður en Arnar fæddist. Þau voru hluti af stóru fjölskyldunni á stóra heimilinu í Hraunbænum. Við kunnum vel að meta þetta fjölskyldumynstur og það lýsti sér kannski best þegar eitt okkar sagði 7 ára gamalt: mikið átti ég góða æsku.

Sumum okkar barnanna þótti mjög merkilegt að Dóri ætti tölvu og væri í námi erlendis. Dóri var góð fyrirmynd, hann var fróður, réttsýnn og fylginn sér. Hann var með góða nærveru, fyndinn og skemmtilegur. Það var ekki fyrr en við urðum eldri að við áttuðum okkur á hvert starf hans var. Hann var mikill baráttumaður verkalýðsins og þar fengu persónueinkenni hans að blómstra. Stolt horfðum við á Dóra í sjónvarpsviðtölum vegna vinnu sinnar. Dóri var einn af pöbbunum sem sköpuðu endalaust skemmtilegar minningar á æskuárum okkar og verður hans sárt saknað.

Höggvið er nú skarð í stórfjölskylduna úr Hraunbænum og er þakklæti okkur efst í huga fyrir ógleymanleg ár í Hraunbænum sem færðu okkur minningar sem aldrei gleymast.

Elsku Greta, Eva, Arnar, Björgvin, Benedikt, Baldur og litla Hildur María, við og fjölskyldur okkar sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur, minning um góðan mann lifir.

Fyrir hönd barnanna í Hraunbæ 166,

Halldóra Ingvarsdóttir (Hádína) og Ingunn Heiða Kjartansdóttir (Inga Sama).

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ og einn öflugasti baráttumaður fyrir réttindum launafólks í áratugi, er fallinn frá í blóma lífsins eftir skammvinn og hastarleg veikindi. Halldór hefur verið náinn samstarfsmaður okkar starfsfólks í félagsmálaráðuneytinu um langt skeið um fjölmörg framfaramál á vinnumarkaði og handbragð hans er víða að finna á þeim baráttumálum sem leidd hafa verið í lög síðustu áratugi. Sérstaklega mætti þar nefna lagasetningu um fæðingar- og foreldraorlof en þess er minnst um þessar mundir að 20 ár eru liðin frá því að þau tóku gildi. Þá hefur varla nokkrum lögum eða reglum um atvinnuleysistryggingar eða eftirlit með vinnuaðstæðum erlends starfsfólks í landinu verið breytt án þess að Halldór hafi þar komið nærri. Halldór var óþreytandi í starfi sínu og afar fylginn sér en ávallt sanngjarn og lausnamiðaður. Með því vann hann sér traust og virðingu samstarfsfólks og það er því með mikilli sorg og trega sem við kveðjum þennan góða félaga. Það verður mikill missir að honum.

Við sendum fjölskyldu Halldórs og öðrum sem eiga um sárt að binda innilegar samúðarkveðjur á erfiðri stundu og biðjum Guð að blessa minningu hans.

F.h. félagsmálaráðuneytisins,

Gissur Pétursson.

Í minningu vinar.

Það voru mikil sorgartíðindin þegar ég fékk fréttir af því að Halldór Grönvold, félagi minn og afar náinn samstarfsmaður til margra ára, væri fallinn frá langt um aldur fram. Dóri var mikill hugsjónamaður og hafði bæði djúpan skilning og brennandi áhuga á réttindabaráttu launafólks, en hann hafði helgað alla sína starfsævi að málefnum þess. Innsýn hans og skilningur á gangverki vinnumarkaðarins og mikilvægi þess að standa vörð um bæði stöðu og sjálfstæði hins almenna launamanns var mikil og hæfileiki hans til að miðla þessu til okkar sem unnum með honum var aðdáunarverð. Þetta innsæi hans skilaði sér við mótun starfsmenntamála og námstækifæri fyrir þá sem minnsta menntun hafa, uppbyggingu og þróun fæðingar- og foreldraorlofs bæði mæðra og feðra, stöðu erlendra starfsmanna og baráttu gegn hvers konar brotastarfsemi á vinnumarkaði og misnotkun. Fáir ef nokkur hefur haft eins mótandi áhrif á uppbyggingu og þróun íslenska vinnumarkaðsmódelsins með sín sterku tengslu við hina norrænu samfélagsgerð, enda var hann afar duglegur að minna okkur á arfleifð okkar úr hreyfingu norrænna jafnaðarmanna. Ég naut þess að geta unnið með Dóra undanfarna mánuði að mótun tillagna um vinnumarkaðsaðgerðir fyrir þá sem misst hafa vinnuna í kjölfar Covid-19-faraldursins og var framlag hans að venju bæði mikið og verðmætt. Hans verður mikið saknað en mun jafnframt lifa áfram í minningunni sem góður félagi. Ég sendi Grétu, Evu og Arnari og aðstandendum mínar dýpstu og innilegustu samúðarkveðjur.

Gylfi Arnbjörnsson.

Þegar ég hóf störf hjá Alþýðusambandi Íslands sl. vor var ég sérstaklega meðvituð um að hlutverkum okkar Halldórs Grönvold væri dálítið skringilega skipt, eins og stundum vill verða þegar kynslóðaskipti standa fyrir dyrum. Hann bjó yfir yfirburðaþekkingu og menntun á sviði vinnumarkaðsmála og tæplega þriggja áratuga starfsreynslu innan ASÍ. Ég var nýgræðingur á þessu sviði og langt frá því að komast með tærnar þar sem hann hafði hælana. Á okkar fyrsta fundi lagði Halldór línurnar: „Ég vil að þér gangi vel í starfi,“ sagði hann, „vegna þess að ég vil að ASÍ gangi vel.“ Við þetta stóð hann, hann studdi við bakið á mér – skilyrðislaust en ekki gagnrýnilaust – og ekki vegna þess að ég hefði á einhvern hátt áunnið mér tryggðina, heldur vegna þess að ASÍ átti tryggð hans alla.

Halldór tileinkaði verkalýðshreyfingunni starfsferil sinn og líf. Hann gjörþekkti hreyfingu launafólks á Íslandi og allt umhverfi hennar og lét einnig til sín taka í alþjóðastarfi fyrir hönd ASÍ. Halldór ritaði fundargerðir miðstjórnar ASÍ nánast óslitið frá árinu 1993 og fram í ágúst á þessu ári, en það hlutverk gat krafist mikillar lagni í eldfimu umhverfi. Halldór átti ríkan þátt í að móta þau réttindi sem launafólk nýtur á Íslandi í dag og var þekktur fyrir að mæta því af hörku ef hann taldi að þeim réttindum vegið.

Í tilfelli sumra leiðir langur starfsaldur til stöðnunar, en það átti sannarlega ekki við um Halldór. Hann var uppfullur af hugmyndum og eldmóði, opinn fyrir nýjum straumum og fylgdist sérstaklega vel með þróun verkalýðsmála á alþjóðavettvangi.

Eftir að hann var lagður inn á spítala í lok ágúst sl. vorum við reglulega í sambandi eða þar til veikindin urðu til þess að hann átti erfitt með að tala í síma. Á sjúkrabeðinum las hann yfir drög að frumvarpi til nýrra starfskjaralaga sem innihélt sum af baráttumálum hans til langs tíma og ég veit það fyrir víst að hann las fundargerðir af miðstjórnarfundum sér til skemmtunar.

Halldór var farinn að leggja drög að starfslokum. Sú fyrirætlan þótti okkur á skrifstofunni skiljanleg en um leið kvíðvænleg, enda vissum við hreinlega ekki hvernig við ættum að fara að án hans. Nú höfum við víst ekki val um annað. En verkefni okkar er skýrt: að halda áfram með ævistarf Halldórs Grönvold.

Kæri félagi, takk fyrir samfylgdina, farðu í friði. Við munum gera okkar besta og starfa áfram í þínum anda.

Gretu, Evu og fjölskyldu og Arnari votta ég mína dýpstu samúð.

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ.

Það er sárt að kveðja góðan félaga allt of snemma. Halldór var sannur baráttumaður fyrir málefnum launafólks. Hafði mjög yfirgripsmikla þekkingu á öllu því umhverfi og hvernig þurfti að bæta það. Réttsýnn og einstaklega mikill fagmaður sem var óstöðvandi í vinnu, samviskusamur með eindæmum. Ég er afar þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa með honum þau ár sem ég hef komið að verkalýðsmálum. Eðli máls samkvæmt þá vorum við ekki alltaf sammála á öllum sviðum en með samtalinu og samvinnu var hægt að finna réttu leiðina áfram. Ég vissi það að ef ég vildi fræðast um hin ýmsu málefni þá kom ég aldrei að tómum kofunum, Halldór hafði mjög mikla ástríðu fyrir því að segja frá og upplýsa fólk um málefnin og gerði það vel.

Halldór helgaði verkalýðshreyfingunni sitt ævistarf og á stóran þátt í mörgum sigrum sem við höfum náð á undanförnum áratugum. Ég get talið upp ótal málefni en rétt er að nefna eitt það stærsta sem snýr að því að stöðva brotastarfsemi á vinnumarkaði, en réttindabarátta og það lykilatriði að komið sé fram við launafólk með réttum hætti átti hug hans allan. Hann leiddi einnig vinnu við stuðning við atvinnuleitendur og að standa vörð um þeirra hagsmuni, alþjóðamál svo örfá dæmi séu nefnd. Halldór fylgdist ekki bara vel með öllum þessum málum heldur lét hann til sín taka á öllum vígstöðvum.

Ég minnist mikils baráttumanns, einstaklega góðs félaga sem kvaddi okkur allt of snemma.

Ég sendi fjölskyldu Halldórs innilegar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum. Blessuð sé minning Halldórs.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ og 1. varaforseti ASÍ.

Það er þungt að skrifa um Dóra í þátíð. Við Eva vorum bara unglingar þegar við tókum saman og Greta og Dóri því verið mér sem önnur fjölskylda í yfir tvo áratugi.

Dóri var einstakur baráttumaður. Til áratuga barðist hann fyrir bættum hag hinna vinnandi stétta. Hann var trúr sínum gildum og bar jafnframt gott skynbragð á samhengi samfélagsins. Hann var hreinn og beinn og vissi að ekki var tjaldað til einnar nætur í samningum. Hann naut því ekki einungis virðingar sinna samherja heldur ekki síður þeirra sem voru í forsvari vinnumarkaðarins í heild.

Þótt hann hafi barist fyrir alþýðuna minnist ég hans sem baráttumannsins okkar. Fjölskyldan var í forgrunni. Hann dreif okkur áfram með jákvæðni og einstakri blöndu af rósemi og galsa. Við treystum á hann og hann var traustsins verður.

Ég lærði mikið af Dóra og það á fjölbreyttari hátt en ég gerði mér alltaf grein fyrir. Í mörg ár mættum við Eva í sunnudagsmat í Fannafoldina. Jafn oft rökræddum við Dóri málefni hversdagsins. Nánast hvern sunnudag heyrðist frá mæðgunum úr eldhúsinu: „Djöfull er þetta leiðinlegt, æi nenniði að hætta þessu!“ Ég viðurkenni að við vorum ekki mjög áheyrilegir. Dóri naut samtalsins, þótt honum þætti ég eðlilega svolítill jólasveinn. Ég var ekki orðinn tvítugur en þó viss um að ég vissi allt. Hann vissi betur og smám saman áttaði ég mig á því líka. Með aukinni gagnkvæmri virðingu skildum við hvor annan betur og á endanum hættum við þessu sunnudagsröfli. Ég man ekki hvernig það gerðist en ég veit þó að þá glöddust mæðgurnar.

Greta og Dóri voru fyrirmyndarhjón með sínar krúttlegu hefðir, íhaldssemi og samheldni. Við áttuðum okkur ekki á því hvers vegna þau fóru ár eftir ár á sama hótelið, sömu ströndina og sömu veitingastaðina í sumarfríinu á Ítalíu. Þetta var samt ekkert svo flókið. Þarna leið þeim vel saman og engin ástæða til að breyta því sem gaf þeim svona mikið. Þau breyttu þó til á endanum því í vor fórum við öll saman til Tenerife. Við hugsuðum það ekki þá en nú er ómetanlegt að eiga þessar minningar af yndisfríi með afa og ömmu.

Þegar Benedikt, svo Baldur og að lokum Hildur María komu til sögunnar blómstaði Dóri sem aldrei fyrr. Afi Dóri var uppáhalds-Dórinn minn. Barnabörnin fengu alltaf fyrsta sætið. Hann var barnabarnagóður með eindæmum þótt okkur Evu þætti stundum nóg um fíflalætin. Krakkarnir voru ósammála. Dóri naut sín best með þeim. Afa Dóra og þessara fíflaláta mun ég sakna ósegjanlega.

Strákarnir eiga margar góðar minningar um afa Dóra. Mikið hefði ég óskað þess að þeim minningum hefði fjölgað og Hildur María hefði líka eignast þær. Það verður erfitt fyrir krakkana að eiga ekki afa Dóra en þau munu hugsa vel um ömmu sína, verða dugleg að heimsækja hana og veita henni lit í líf sitt.

Við vorum og erum alls ekki undir þessi örlög búin. Að Dóri sé farinn innan við þremur mánuðum eftir að hann mætti upp á spítala er einfaldlega þyngra en tárum taki. Lífið án Dóra verður tómlegt og skrýtið. Við kunnum ekkert á það líf en við munum takast á við það. Dóri sagði við Evu á spítalanum í haust: „Við gerum þetta saman.“ Þótt liðið sé einum manni færra, miklu fyrr en við gerðum ráð fyrir, þá stöndum við sem eftir erum saman sem eitt og gerum þetta saman. Dóri vildi það og það gerum við fyrir hann og fyrir okkur.

Elsku besti Dóri okkar, takk fyrir allt.

Björgvin Ingi.

Í ár kvíði ég Þorláksmessukvöldi, ekki vegna þess að ég þarf að smakka skötuna eins og alltaf heldur af því ég hef ekki Dóra til að gretta mig framan í á meðan ég borða þennan skyldubita. Dóri sem ég vissi ekki að væri nafni minn fyrr en ég varð eldri (af því að fyrir mér var hann bara Dóri, ekki Halldór Grönvold, það var svo formlegt) var einstakur maður og ég gæti ekki verið þakklátari foreldrum mínum fyrir að hafa eignast svona góða vini eins og Dóra og Gretu. Að hafa fengið að alast upp með þessum vinahópi voru algjör forréttindi. Það var alltaf stuð og mikið hlegið og þar lék Dóri stórt hlutverk, sérstaklega fyrir okkur krakkana. Hann var alltaf til í leik með okkur þrátt fyrir að það gæti þýtt að á hann yrði gegnvotur eftir vatnsbyssuárás eða marinn eftir einhvern hnoðleikinn.

Dóri skilur eftir sig stórt skarð í þessum einstaka vinahópi foreldra minna sem ég veit að aldrei verður hægt að fylla. Við sem eftir erum munum hins vegar ylja okkur við minningarnar um hjarthlýja, duglega og besta Dóra sem vildi allt fyrir alla gera. Sérstaklega sjá til þess að allar konurnar fengju sinn bjór á slaginu klukkan 11, ég mun passa að það gleymist ekki.

Elsku Dóra þakka ég utanlandsferðirnar, sumarbústaðaferðirnar, milljón pottaferðirnar, hátíðirnar, hláturinn og gleðina. Í ár mun ég borða minn skyldubita af skötu, gretta mig framan í hvern þann sem vill horfa, hugsa til Dóra og fara svo og fá mér pizzu eins og hann gerði með okkur.

Gretu, Evu og Arnari og fjölskyldu votta ég mína dýpstu samúð.

Halldóra Fanney Jónsdóttir (Hátína).

Það er tómlegt á skrifstofu ASÍ. Félagi Halldór Grönvold er fallinn frá og við sem eftir sitjum erum harmi slegin og söknum kærs samstarfsmanns.

Það hefur verið höggvið stórt skarð í raðir íslenskrar verkalýðshreyfingar. Það hefur ekki síður verið höggvið stórt skarð í raðir okkar starfsmanna á skrifstofu Alþýðusambandsins. Sterki hlekkurinn í keðjunni sem við treystum á og trúðum að yrði til staðar svo lengi enn, er skyndilega farinn. Halldór starfaði hjá ASÍ í tæpa þrjá áratugi og byggði á þeim tíma upp yfirburðaþekkingu á vinnumarkaðs- og verkalýðsmálum. Hann lifði og hrærðist í baráttu launafólks fyrir betri kjörum í hvaða mynd sem er. Hann var alltaf að – því það var lífsstíll Halldórs að berjast fyrir því sem hann taldi vera rétt og bæta samfélagið.

Halldór var hafsjór af fróðleik og það er sárt til þess að hugsa að geta ekki lengur laumað sér inn á skrifstofuna hans og ausið af þeim viskubrunni sem hann var. Við eigum öll okkar einstöku minningar um góðan dreng, sem alltaf var tilbúinn að hlusta og koma með góð ráð. Hann gaf sér alltaf tíma og átti alltaf svör ef málefnið snerti vinnumarkaðinn eða réttindabaráttu launafólks.

Það verða aðrir til að rifja upp öll þau framfaramál sem Halldór setti mark sitt á. Þau eru fjölmörg og snerta flesta landsmenn á einn eða annan hátt. Hann var einnig fastur fyrir og ekki síst þegar tekist var á um málefni sem hann var sannfærður um að væri verkalýðshreyfingunni til góða – launafólki í hag.

Halldór var stríðinn og hafði sérstakt yndi af aulahúmor og misgóðum ferskeytlum sem hann kastaði fram þegar síst varði. Við munum sakna þeirra stunda þegar blik kviknaði í augum Halldórs og grallarinn í honum vaknaði. Það verður ekki lengur vitnað í Útvarp Matthildi á kaffistofunni með tilheyrandi látbragði né rifjaðar upp allar kommasellurnar sem spruttu upp á 8. áratugnum og Halldór var hluti af.

Við kveðjum góðan dreng, frábæran félaga og mikinn baráttumann með hlýju í hjarta og þakklæti fyrir samfylgdina. Fjölskyldunni, Gretu, Evu, Arnari og barnabörnunum þremur sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Missir þeirra er mestur.

F.h. samstarfsfólks ASÍ,

Maríanna Traustadóttir.

Starfsfólk Samtaka atvinnulífsins kveður Halldór Grönvold með þökk og söknuði. Í störfum sínum fyrir Iðju, félag verksmiðjufólks, og Alþýðusamband Íslands var Halldór í miklum samskiptum við starfsfólk SA og fyrirrennara þeirra, VSÍ og Vinnumálasambandið. Þau samskipti einkenndust af heilindum og hlýju viðmóti.

Halldór sat í fjölmörgum nefndum, ráðum og stjórnum f.h. ASÍ ásamt fulltrúum SA. Hann mætti ávallt vel undirbúinn á fundi og við töku ákvarðana. Hann hafði gjarnan mikið gagnamagn í bakpokanum og möppur undir hendi, reiðubúinn að taka þátt í umræðu og halda á lofti sjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar. Fáir þekktu eins vel til umræðu á vettvangi ESB um hagsmunamál launafólks og dóma sem fallið höfðu um túlkanir á mikilvægum tilskipunum ESB. Þau gögn hafði hann gjarnan í seilingarfjarlægð á fundum.

Starfsmenntamál verka- og iðnverkafólks voru Halldóri sérstaklega hugleikin. Hann var ákafur talsmaður þess að veita þeim sem falla brott úr formlega skólakerfinu „annað tækifæri til náms“, til að bæta stöðu þeirra á vinnumarkaði og í samfélaginu.

Þegar Halldóri mislíkaði tillögur eða umræða fór það ekki á milli mála. Þá átti hann til að hvessa sig og tala hátt og lengi. Enginn tók gagnrýni hans persónulega enda byggði hún jafnan á mati á staðreyndum, stefnu verkalýðshreyfingarinnar og málefnalegum sjónarmiðum. Hann var rökfastur og lausnamiðaður og náði fyrir vikið árangri í störfum sínum. Þessir persónulegu eiginleikar og þekking öfluðu Halldóri virðingar þeirra sem áttu í samskiptum við hann.

Við sendum Gretu Baldursdóttur, eiginkonu hans, fjölskyldu og vinnufélögum innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd starfsfólks Samtaka atvinnulífsins,

Halldór Benjamín Þorbergsson.