María Jónsdóttir fæddist 15. apríl 1918. Hún lést 4. nóvember 2020.

María var jarðsungin 20. nóvember 2020.

María Jónsdóttir frá Kirkjulæk í Fljótshlíð hefur kvatt þetta líf eftir 102 ár. Hún hélt skírri hugsun og glöðu fasi fram til hins síðasta. Hún var eftirminnileg mannkostakona og óvenjulega fjölhæfur snillingur.

Hennar er sárt saknað af öllum sem henni kynntust og finnst hún hafi farið of snemma.

Þegar við Ólöf kona mín fórum um sýsluna okkar Maríu komum við oftar en ekki til hennar á Kirkjuhvoli. Þá tók hún okkur með útbreiddan faðminn, hlýjum orðum og glaðlegu brosi. Frá henni streymdi lífsgleði. Hún hafði aldrei orð á því í okkar eyru að heilsa og kraftar væru farin að dvína.

María var mikil listakona, hugmyndarík og fjölbreytt voru listaverkin sem spruttu fram af höndum hennar. Hún var alltaf að, jafnvel eftir að hún átti óhægt með að hreyfa sig og var að miklu leyti bundin við rúm og hjólastól. Hún hélt áfram þrátt fyrir fötlun sína að skapa listaverk, hvert á fætur öðru. Það var ótrúlegt að fylgjast með vinnubrögðum hennar. Veggirnir á herberginu hennar voru þaktir listaverkum af fjölbreyttri gerð og efnum. Athyglisverð voru listaverkin sem skreytt voru með grjóti í mörgum litum, sem hún sótti í eyrar Þverár og Markarfljóts og hafði mulið í smátt með hamri og litaði myndir sínar með. Það var frumleg hugsun og fáséð list. Klippimyndir af dýrum gerði hún fríhendis og voru þau ótrúlega eðlileg. Ég á listaverk eftir Maríu, sem prýða Suðurengi hjá höfðinu af Surtlu frá Herdísarvík, einni þekktustu sauðkind Íslendinga. Það eru Kýrnar á Kirkjulæk með fjósið og Þríhyrning í baksýn og kindur í fögrum sauðalitum hjá fjárhúsunum á Kirkjulæk og Vestmannaeyjar í fjarska. Ærnar eru allar klæddar í reyfi úr ekta íslenskri ull. Á einum vegg er svo mynd af hestinum Hvítingi hnarreistum á grænni grund, máluð í sterkum litum.

María var snjöll kvæðakona. Hún hélt fornri hefð á lofti í anda föður síns, Jóns bónda Lárussonar að Hlíð á Vatnsnesi, sem var landsþekktur kvæðamaður. Hann kenndi börnum sínum og öðrum að kveða. María fór í 6 vikna tónleikaferð með föður sínum, Sigríði systur sinni og Pálma bróður sínum suður á land, þegar hún var aðeins 10 ára gömul. Þau kváðu fyrir fullu húsi margsinnis og öfluðu með því fjár, sem létti kaupin á jörðinni Hlið. Tveimur árum síðar fóru þau María og Pálmi ásamt föður sínum og kváðu nokkrar tvísöngsstemmur inn á hljómplötu. Jón faðir Maríu kvað fyrir kónginn á Alþingishátíðinni við góðar undirtektir og María kvað ásamt afkomendum sínum fyrir Viktoríu drottningarefni Svía. Þau kváðu einnig í Vesturheimi við góðar undirtektir. María hafði unun af því að kenna öðrum að kveða. Hún var tónviss, raddfögur og þróttur raddarinnar óvenjulegur hjá svo fullorðinni konu. Mér þykir líklegt, að enn fegurri hljómar berist frá upphæðum, þegar rödd Maríu bætist í kórinn.

Við þökkum starfsfólkinu á Kirkjuhvoli fyrir einkar hlýja umhyggjusemi í garð Maríu og allra annarra vistmanna á Kirkjuhvoli.

Sigurður Sigurðarson

dýralæknir.