Landspítali Þunginn í Covid hefur verið á sjúkrahúsinu í Fossvogi.
Landspítali Þunginn í Covid hefur verið á sjúkrahúsinu í Fossvogi. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Við finnum að farið er að gæta verulegrar þreytu meðal hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem hafa staðið vaktina í erfiðum bylgjum Covid á árinu.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Við finnum að farið er að gæta verulegrar þreytu meðal hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem hafa staðið vaktina í erfiðum bylgjum Covid á árinu. Sjaldnast hefur skapast neitt svigrúm til þess veita starfsfólkinu frí til hvíldar eftir þessar erfiðu vinnutarnir. Slíkt getur haft erfiðar afleiðingar,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samtali við Mogunblaðið.

Þótt vænta megi bóluefnis við kórónuveirunni á næstu vikum er sigur ekki unninn. Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans segir í pistli sem hann birti á vef sjúkrahússins fyrir helgina að fram undan séu krefjandi tímar. Tryggja verði öryggi og sóttvarnir, því smitandi veira leynist um samfélagið allt. Jafnvel þeir sem gæti sín mest og best eigi á hættu að smitast. Fara þurfi varlega, sérstaklega nú á næstu vikum þegar búast megi við meiri umgengni manna á milli en í annan tíma. Farsóttanefnd Landspítala fylgist því grannt með framvindunni og mikilvægt sé að fara eftir þeim einföldu en góðu ráðum um smitvarnir sem gefin hafi verið út.

Álagi á Landspítalanum hefur, að sögn Guðbjargar Pálsdóttur, meðal annars verið mætt með mikilli yfirvinnu. Þar hafi starfsfólk lagt sig allt fram við að tryggja sem besta þjónustu við sjúklinga og tekið starfið fram yfir eigið fjölskyldulíf. Vinnan hafi líka verið þyngri en ella vegna þeirra sóttvarnaráðstafana sem gerðar hafi verið.

„Á meðan bylgjurnar hafa verið í hámarki þarf áfram að veita sjúkum og slösuðum þjónustu. Þegar þær eru gengnar yfir hafa heilbrigðisstofnanir farið af stað með fulla starfsemi, eins og til dæmis valkvæðar aðgerðir og þá þarf að sinna þeim sjúklingum. Því verður nú, þegar virðist vera að sjá til lands í faraldrinum, að fylgjast með líðan starfsfólks og veita því stuðning. Langvarandi vinnuálag getur endað í vítahring og skapar hættu á kulnun í starfi. Við viljum koma í veg fyrir slíkt,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir.