Ólafur Stefánsson skrifaði á Boðnarmjöð 29. nóvember og kallar „Kvart“: Við eflumst í árstíðabaslinu, þótt áfram við skrælumst á hnaslinu. Það er nóvembernauð, nagað hvert brauð, í sótthemju síbyljudraslinu Skýringar.

Ólafur Stefánsson skrifaði á Boðnarmjöð 29. nóvember og kallar „Kvart“:

Við eflumst í árstíðabaslinu,

þótt áfram við skrælumst á hnaslinu.

Það er nóvembernauð,

nagað hvert brauð,

í sótthemju síbyljudraslinu

Skýringar. Hnasl = lélegur viðurgjörningur. Skrælast = draga fram lífið.

Sótthemja = sóttvarnir. Síbylja = óstöðvandi tal. Annað skýrir sig sjálft

Þann sama dag skrifaði Friðrik Steingrímsson: „Snjótittlingarnir bíða á þakinu meðan konan gefur þeim kornið, enda les hún þeim pistilinn ef þeir frekjast. Þessi varð til þegar hún gaf þeim í morgun“:

Krílin litlu kornsins bíða

þó komin séu langan veg,

líkast munu lær' að hlýða

af langri reynslu eins og ég.

Magnús Halldórsson segir svo frá: „Samstarfskona mín bakaði vöfflur, önnur rétti mér skál með rjóma og bað mig að þeyta. Efasemdir voru hvort ég gæti þeytt og sinnt gæslu. Ég fullyrti að enginn vandi væri fyrir karlmann að gera þrennt í einu. Lauk vísunni fyrr en þeytingu“:

Úti í laug er allt í sóma,

una börn þar laus við sút.

Það er hægt að þeyta rjóma,

þó að maður horfi út.

Philip Vogler Egilsstöðum svaraði:

Þykir hérna þraut að gera þrennt í einu.

Eitt með Magga er enn á hreinu:

annar finnst ei betri í neinu.

Ólafur Stefánsson átti síðasta orðið:

Sumum verður ei neitt úr neinu

næsta oft þá grípur fát.

En þegar hann gerir þrennt í einu

þá er samstarfskonan mát.

Guðrún Bjarnadóttir yrkir:

Rímorðið er mest við Mekku,

múslimunum þakkir fel.

Ég verð að nota Bröttubrekku,

bara því hún stuðlar vel.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir hélt áfram:

Mér finnst líka ef ég fer til Mekka

að finna Alla á réttum stað

að vínleysið sé bölvuð brekka

en bara verð að hafa það.

Hallmundur Kristinsson yrkir á feisbók:

Ég á í bölvuðu basli

og bjástri hvern einasta dag

í þessu djöfulsins drasli

sem drullast aldrei í lag!

Til að gera ekki vini sína áhyggjufulla tekur Hallmundur fram, að ofanritað sé einungis rímsins vegna!

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is