Þú sérð auglýsingu um draumastarfið þitt í blaðinu. Starfið sem þú ert búin að búa þig undir í mörg ár. Staða dómara við Landsrétt!

Þú sérð auglýsingu um draumastarfið þitt í blaðinu. Starfið sem þú ert búin að búa þig undir í mörg ár. Staða dómara við Landsrétt! Þú sækir um og ert alveg viss um að þú verðir metin hæfust í starfið því þú þekkir til allra sem gætu sótt um og engin af þeim uppfyllir hæfniskröfur á sama hátt og þú. Allt gengur vel þangað til þú kemst að því að einn af umsækjendunum er þegar dómari við Landsrétt.

Skrítið, hugsar þú. Af hverju er einhver sem er þegar með dómarastöðu að sækja um starfið? Þú áttar þig fljótlega á því að viðkomandi dómari er mun hæfari en þú, aðallega út af reynslu sinni af dómarastörfum við Landsrétt, og niðurstaðan er því fyrirsjáanleg. Dómarinn fær „nýju“ stöðuna.

En þá losnar önnur staða, þessi sem dómarinn fór úr til þess að fara í „nýju“ stöðuna? Eða hvað? Er þetta ekki bara sama staðan sem er laus þegar allt kemur til alls? Það eina sem kom út úr síðasta umsóknarferli var að það var enginn hæfari en sitjandi dómari. Draumastarfið er samt enn laust og þú sækir aftur um, en hvað gerist þá. Annar sitjandi dómari sækir um og aftur eru niðurstöðurnar fyrirsjáanlegar. Og svo framvegis.

Við þekkjum öll Landsréttarmálið. Fjórir dómarar voru skipaðir með geðþótta. Dómsmálaráðherra gat ekki rökstutt að þeir fjórir dómarar hefðu verið hæfastir til þess að gegna þeirri stöðu. Þrátt fyrir þetta tóku dómararnir stöðunum og unnu sér inn reynslu sem landsréttardómarar. Sú reynsla gerði þá síðan hæfari en umsækjendur í nýjar stöður við Landsrétt síðar.

Við skulum leggja þennan farsa til hliðar, að sitjandi dómarar sækist eftir því að setjast í auða stólinn til þess að hljóta einhvers konar lögfræðilega réttlætingu á ólöglegu skipuninni sem þeir fengu. Ef skipun þeirra var ólögleg þá er reynsla þeirra einnig ólöglega fengin. Þetta er hvítþvottur sem enginn á að falla fyrir. Ef dómararnir hefðu strax sagt af sér og komið sem umsækjendur um nýjar stöður án ólöglegar reynslu, þá væri þetta ekki vandamál.

Vandamálið snýst nú um dómgreind. Hér er um að ræða dómara sem leggja sjálfir mat á eigið hæfi. Þessir dómarar vita að skipun þeirra var ólögleg en sitja samt sem fastast. Óbreyttir borgarar þurfa svo að mæta fyrir þessa dómara og treysta á dómgreind þessara dómara til þess að leysa mál sín. Þremur dómaranna finnst í fína lagi að fá smá hvítþvott en einn er enn í leyfi. Kannski af því að það er ekki búið að finna nægilega vel lyktandi hvítþvott enda var sá dómari metinn síst hæfur af þeim sem skipt var út, það tekur líklega aðeins lengri tíma að gera hann nægilega hæfan til þess að vera örugglega hæfari en allir aðrir umsækjendur.

Eiga almennir borgarar ekki að geta treyst því að fólkið með bestu dómgreindina sitji í dómarasætinu? Hæfasta fólkið? bjornlevi@althingi.is

Höfundur er þingmaður Pírata