Óskar Reykdalsson
Óskar Reykdalsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir ekkert því að vanbúnaði að bólusetja fleiri tugþúsundir manna fyrir kórónuveirunni daglega.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir ekkert því að vanbúnaði að bólusetja fleiri tugþúsundir manna fyrir kórónuveirunni daglega. Heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins eru í startholunum vegna komandi bólusetningar. Búið er að ræða við öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og eru ýmsar útfærslur ræddar. Til greina kemur að nota kennslustofur, íþróttahús og skimunarhúsið við Suðurlandsbraut svo dæmi séu nefnd.

„Ef við tökum dæmi um kennslustofu, þá væri hægt að bólusetja hátt í 20 manns í hverri stofu á klukkutíma. Ef við gefum okkur það að bólusett væri í 10 klukkustundir þá myndi það þýða 200 manns. Ef við segjum að það séu 50 kennslustofur í einhverjum skóla þá eru það strax 10 þúsund manns sem hægt er að bólusetja á einum degi þar,“ segir Óskar.

Hver og ein heilbrigðisstofnun á landinu mun sjá um framkvæmd bólusetninganna. Viðamest verður framkvæmdin á höfuðborgarsvæðinu. „Í einhverjum tilfellum þarf að fara inn á heimili, t.d. fyrir fatlaða eða inn á hjúkrunarheimili,“ segir Óskar.

Hann segir að unnið sé með sveitarfélögunum að því að finna staðsetningar fyrir bólusetningu í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Meðal annars hefur komið upp sú hugmynd í Reykjavík að nota svipaða útfærslu og í kosningum, en í stað kjörklefa verði boðið upp á bólusetningu. „Ef við hefðum nægt bóluefni væri hægt að bólusetja alla sem vildu á örfáum dögum,“ segir Óskar.

Bretar byrja á morgun

Í Bretlandi er ekkert því að vanbúnaði að hefja bólusetningu. Um helgina fóru fram víðtækir flutningar á bóluefni Pfizer og BioNTECH. Notast var við frystigáma til að flytja efnið. Búist er við því að bólusetningar heilbrigðisstarfsmanna þar í landi hefjist á morgun.