Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Tvær milljónir kreatíninmælinga hjá fullorðnum Íslendingum voru rannsakaðar í nýrri íslenskri rannsókn sem Landspítali segir tímamótarannsókn.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Tvær milljónir kreatíninmælinga hjá fullorðnum Íslendingum voru rannsakaðar í nýrri íslenskri rannsókn sem Landspítali segir tímamótarannsókn. Rannsóknin bendir til þess að algengi langvinns nýrnasjúkdóms sé mun lægra en fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á. Rannsóknin gæti kollvarpað núverandi skilgreiningu sjúkdómsins. Arnar Jan Jónsson, læknir og doktorsnemi við Háskóla Íslands, stóð að rannsókninni undir handleiðslu Ólafs Skúla Indriðasonar nýrnalæknis og Runólfs Pálssonar nýrnalæknis og prófessors.

Arnar segir mikilvægt að kortleggja algengið mjög nákvæmlega og það hversu mikil byrði sjúkdómurinn sé fyrir samfélagið.

Fyrri rannsóknir á faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms hafa bent til þess að heildaralgengi sjúkdómsins sé á bilinu 10 – 16%. Algengið fer hækkandi með vaxandi aldri. Arnar segir að það sé vafasamt að skilgreina væga skerðingu á nýrnastarfsemi sem langvinnan nýrnasjúkdóm hjá eldra fólki.

Arnar og samstarfsfólk hans rannsökuðu tvær milljónir kreatínínmælinga sem voru gerðar á árunum 2008 – 2016 hjá fullorðnum Íslendingum. Þá náðu þau í upplýsingar um aldur, kyn, allar skráðar sjúkdómsgreiningar viðkomandi og fleira. Út frá gögnunum gátu þau svo metið algengi langvinns nýrnasjúkdóms á tímabilinu. Þá kom í ljós að aldursstaðlað algengi, þ.e. algengi þar sem leiðrétt er fyrir mismunandi aldursdreifingu í mismunandi þýðum, var ekki nema 6%. Þegar gert var ráð fyrir aldurstengdri hnignun var algengið ekki nema 3,6%. 14