Ólafur Þ. Jónsson
Ólafur Þ. Jónsson
Eftir Ólaf Þ. Jónsson: "Þessi gagnbylting virðist hafa farið fram hjá öllum þeim, sem unnu látlaust að samsærum af ýmsum toga gegn Sovétríkjunum og einnig leiðtogum Japans, Þýskalands og Ítalíu."

Í Morgunblaðinu 9. nóvember sl. birtist grein eftir Erling Hansson og ber heitið „Gagnbyltingarmaðurinn Stalín“. Ekki kemur fram í greininni í hvaða gagnbyltingu Stalín tók þátt, bara svona orð út í bláinn.

Á valdtíma Stalíns 1924-1953 uxu Sovétríkin stöðugt að íþrótt og frægð og sannaðist það rækilega í seinni heimsstyrjöldinni. Í grein sinni „Pólitísk þýðing skammaryrða“ ritar Lenín: „Skammaryrðum í pólitík er oft ætlað að hylja algeran skort á hugmyndafræðilegu innihaldi, hjálparleysi og getuleysi notandans.“ Þessi gagnbylting virðist alveg hafa farið fram hjá öllum þeim, sem unnu látlaust að samsærum af ýmsum toga gegn Sovétríkjunum og einnig leiðtogum fasistaríkjanna Japans, Þýskalands og Ítalíu. Árið 1936 gerðu Japan og Þýskaland með sér sáttmála um bandalag gegn kommúnisma og ári seinna gerðist Ítalía aðili að því bandlagi. Og mikið stóð til. Bandalagi þessu var fyrst og fremst beint gegn Sovétríkjunum enda fór Hitler ekki í launkofa með drauminn sinn um aukið Lebensraum handa liði sínu í austurátt.

„Hann fjallar enn um réttarhöld, sem fram fóru í Moskvu fyrir meira en átta áratugum,“ ritar Erlingur og virðist undrandi. Hvers vegna geri ég það? Vegna þess að Erlingur gaf fullt tilefni til þess í grein sinni í Morgunblaðinu 21. október. Varla búinn að gleyma því sem hann skrifaði þá. Og hann bætir við: „Hann vitnar í menn sem voru viðstaddir réttarhöldin og létu blekkjast.“ Þeir létu auðvitað ekki blekkjast enda voru þeir viðstaddir réttarhöldin. Þetta heitir hundalógik og þykir ekki traustvekjandi í deilum manna.

Víkjum næst að löngum kafla í grein Erlings, sem hann tekur upp orðréttan úr Skáldatíma Laxness sem út kom 1963. Í ritfroðu Laxness stendur: „[...] og lét strádrepa blómann af herforingjum Rauða hersins ýmist að undangenginni réttarserimoníu eða án dóms og laga. Frægt er þegar hann bauð kommúnistaforingjum Póllands til stórhátíðar í Moskvu eftir stíðið og lét handtaka þá alla orðalaust við komuna og skjóta þá fljótt.“ Öll tilvitnun Erlings ber vitni um sefasýki og lygar, sem einkenndu skrif svo margra um Stalín allan hans valdatíma og sögðu miklu meira um höfunda sína en Stalín. Þeir voru átta, þessi blómi herforingja sem Stalín lét strádrepa, raunar sjö því einn þeirra skaut sig sjálfur og játaði þar með sekt sína. Enginn þeirra var tekinn af lífi án dóms og laga. Allir voru þeir leiddir fyrir herrétt Hæstaréttar Sovétríkjanna. Sakborningarnir voru í þjónustu hernjósna Hitlers Þýskalands og létu þeim í té leynilega upplýsingar um Rauða herinn. Varðandi stórhátíðina frægu sem Stalín bauð pólskum kommúnistaforingjum til í Moskvu, skömmu eftir stríðið og lét skjóta þá fljótt var hún svo fræg að helstu foringjar pólskra kommúnista, þeir W. Gomulka, formaður pólska kommúnistaflokksins og varaforsætisráðherra, og Hilary Minc í miðstjórn flokksins og iðnaðarráðherra vissu ekki af henni og voru önnum kafnir meðan á henni stóð að sinna ráðherrastörfum í Warsjástjórninni, fyrstu stjórninni sem mynduð var í Póllandi eftir stríðið.

6. janúar 1923 gekk Halldór Laxness í söfnuð katólskra í klaustri einu í Frakklandi. Ekki gerði hann langan stans í heilagri kirkju, því að í Alþýðubókinni, greinasafni sem út kom 1929, hefur marxisminn sigrað. Halldór var á sjötugsaldri þegar Skáldatími kom út (f. 1902) og sagði skilið við þær hugsjónir sem hann hafði helgað öll sín bestu ár. Hann skrifaði margt eftir Skáldatíma en loginn var slokknaður, einungis reykur eftir.

„Lenín og Trotskí áttu samstarf á ráðstefnu í Zimmerwald 1915,“ ritar Erlingur og bætir við: „Trotskí samdi ávarp ráðstefnunnar...“ „Á stríðsárunum gerðum við málamiðlanir og samkomulag við Kautsky-istana, við vinstri mensivika og hluta þjóðbyltingarmanna; við sátum fundi með þeim í Zimmerwald og Kientahl og gáfum út með þeim sameiginleg ávörp.“ (Lenín í Vinstri róttækni bls. 76-77.) Ráðstefnur þær sem hér er átt við voru: 1. Alþjóðaráðstefna sósíalista í Zimmerwald í Swiss 5-8. sept. 1915. 2. Alþjóðaráðstefna sósíalista í Kientahl í Swiss 24.-30. apríl 1916. Þessar ráðstefnur stuðluðu að einingu vinstri aflanna í sósíaldemókratahreyfingu í Evrópu. Ávörp þessara ráðstefna voru samstarfsverkefni margra manna, ekki eins manns. Sjötta þing bolsevika var haldið dagana 26. júlí til 3. ágúst 1917. Þingið samþykkti að veita Mezhraion-hópnum (fámennum hópi milliflokksmanna) ásamt Trotskí foringja þeirra inngöngu í flokkinn. Það er rangt hjá Erlingi að Trotskí hafi setið í fangelsi þegar hann var tekinn í flokkinn. Í fjörutíu daga fangelsi fór hann 7. ágúst. Mér var fullkunnugt um ástandið í trotskista-hreyfingunni eftir 1940, sem ýmist lá á líkbörum eða var komin undir græna torfu. Aftur á móti var manninum sem ég var að skrifa um ekki kunnugt um þá stöðu enda nýsloppinn úr nærri 20 ára fangelsisvist og óttaðist hefnd þeirra.

Höfundur er skipasmiður.

Höf.: Ólaf Þ. Jónsson